Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Stórfellt trúboð í opinberum skólum staðfest

Síðustu daga hefur verið ágætis umfjöllun um trúboð sem viðgengst í ýmsum opinberum skólum hér á landi. Siðmennt hefur lengi gagnrýnt hvers konar trúboð, bænahald og áróður í skólum og ekki talið slíkt í samræmi við hugsjónir um trúfrelsi og umburðarlyndi gagnvart ólíkum lífsskoðunum. Sjá nánar: http://www.sidmennt.is/trufrelsi/


Í gegnum árin hafa ráðamenn og aðrir oft gert lítið úr áhyggjum Siðmenntar og sagt þau dæmi sem Siðmennt hefur bent á vera undantekningar. Ráðamenn sem Siðmennt hefur fundað með hafa allir sagt að bænahald eigi ekki heima í skólum en tekið um leið fram að erfitt sé að fylgjast með einstökum kennurum sem fara út af sporinu. Formaður félags kennara í kristnum fræðum sagði í fréttum Ríkissjónvarpsins 21. febrúar 2005 að bænahald ætti ekki heima í skólum. Sama sagði Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, verkefnastjóri biskupsstofu í Kastljósinu þann 22. febrúar. Steinunn sagði bænahald í skólum heyra til undantekninga og í raun vissi hún aðeins um einn kennara sem stundar það að láta börn fara með bænir. Siðmennt hefur ítrekað sagt að fjölmörg dæmi séu til um að börn séu látin fara með bænir og trúarjátningar í skólum.

Málflutningur Siðmenntar staðfestur
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins, þann 22. febrúar 2005, er staðfest að málflutningur Siðmenntar er á rökum reistur. Tekið er viðtal við skólastjóra Holtaskóla í Reykjanesbæ sem viðurkennir að öll börn séu látin fara með kristnar bænir, alla daga vikunnar.

Í ljósi þess að grunur Siðmenntar hefur verið staðfestur með svo opinberum hætti hvetur félagið menntamálayfirvöld til að bregðast skjótt við og stöðva allt trúboð í opinberum skólum. Trúboð í opinberum skólum er ekki í samræmi við trúfrelsi og mannréttindi.

Félagið minnir á eftirfarandi setningar í aðalnámsskrá grunnskóla:

“Kennsluaðferðir mega ekki mismuna nemendum eftir kynferði, búsetu, uppruna, litarhætti, fötlun, trúarbrögðum eða félagslegri stöðu.”

“Við gerð námsgagna og val á þeim skal þess gætt að mismuna ekki einstaklingum eða hópum vegna kynferðis, búsetu, uppruna, litarháttar, fötlunar, trúarbragða eða félagslegrar stöðu.”

Ennfremur segir í námskrá grunnskóla:

“Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun…”

Morgunljóst er því að skipulagt bænahald í skólum brýtur gegn aðalnámsskrá grunnskóla.

Að endingu minnir Siðmennt á tillögur sem félagið lagði fram á fundi hjá Menntaráði Reykjavíkurborgar þann 3. febrúar síðastliðinn. Tillögur Siðmenntar eru að hluta til byggðar á niðurstöðum Mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna um trúaráróður í opinberum skólum. (sjá hér neðar á síðunni)

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Hólm Gunnarsson, varaformaður Siðmenntar

Sími: 898-7585
Netfang: siggi@sidmennt.is
Siðmennt – 24. febrúar 2005

Tillögur Siðmenntar til Menntaráðs vegna kennslu í Kristnifræði, siðfræði og trúarbragðafræði

1. Menntaráð láti fara yfir niðurstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna* um málefni norska húmanistafélagsins HEF gegn norska ríkinu varðandi kristnifræðikennslu. Með hliðsjón af niðurstöðunum verði unnar upp tillögur til úrbóta.

2. Gerð verði könnun á því hjá stjórnendum skóla hvaða ráðstöfunum sé nú beitt til þess að gefa foreldrum og börnum þeirra tækifæri á því að fá undanþágu frá kristnifræðikennslu. Ráðstafanirnar eiga ekki að vera á þann veg að viðkomandi börn séu sett á vergang heldur fái áframhaldandi og viðeigandi kennslu.

3. Menntaráð, í samvinnu við fræðsluyfirvöld og skólastjórnendur, tryggi að trúfrelsi ríki í skólum. Útbúnar verði verklagsreglur sem kveði skýrt á um að ekkert trúboð sé heimilað innan veggja leik- og grunnskóla eða annarra stofnanna borgarinnar. Verklagsreglurnar skulu taka tillit til:

– bænahalds í skólum

– sálma og trúarlegra söngva

– þátttöku í trúarathöfnum

– skoðunarferða í kirkjur

– hverskonar trúarlegra yfirlýsinga

– þess þegar trúarlegar myndir eru litaðar eða teiknaðar

– helgileikja

– að stöðva hvers konar dreifingu á trúarlegum áróðri

– að tryggt verði að greinamunur sé gerður á sagnfræði og goðsögnum í kennslustundum

4. Á grundvelli ofangreinds starfs hefji Menntaráð Reykjavíkurborgar umræður við ráðamenn menntamála á Alþingi með það fyrir augum að breyta námsskrá fyrir leik- og grunnskóla í átt til fjölmenningar og trúfrelsis. Í stað þess að einskorða kennslu við kristnifræði er heillavænlegt að kenna almenna siðfræði, heimspeki og gagnrýna hugsun.

Ítarefni:
Niðurstöður Mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna um kristinfræði í norskum skólum

Trúfrelsisstefna Siðmenntar

Nokkur dæmi um óviðeigandi áróður í skólum

Til baka í yfirlit