Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Dýrmætt að geta valið

Þar sem ég er Íslendingur af erlendum uppruna, og ekki kristintrúar, hef ég tekið eftir því að nær allar dánartilkynningar og minningargreinar í blöðunum erum merktar með krossi, jafnvel oft hjá fólki sem hefur ekki verið trúað eða var ekki kristintrúar.


Ég hef oft spurt fólk um þetta og það virðist sem flestir telji krossinn tákn dauðans frekar en tákn um að viðkomandi hafi verið kristin manneskja. Margir nota krossinn af gömlum vana og vita ekki að það hefur val.

Mjög margir hugsa ekki tvisvar um þetta atriði og halda að það skipti ekki máli hvort viðkomandi hafi verið kristinn eða ekki. Ég vil hvetja fólk til að huga alvarlega að þessu atriði og velja tákn sem er í samræmi við lífsskoðun og gildismat hins látna. Þess má geta að það er fullkomlega leyfilegt og eðlilegt að biðja um að önnur tákn séu birt með dánartilkynningum og minningargreinum.

Það eina sem þarf að gera er að láta blaðið fá mynd af tákni sem fjölskyldan óskar eftir að sé birt. Dæmi um slík tákn eru: friðardúfa, blóm, gyðingarstjarna, hálfmáni, eða alþjóðlegt tákn siðrænna húmanista (sem er merki Siðmenntar). Það er allt í lagi að vera öðruvísi. Það þarf ekki endilega að vera kross á legsteininum. Það getur verið fróðlegt og jafnvel skemmtilegt að fara í göngutúr í næsta kirkjugarði og skoða úrval af fallegum og þýðingarmiklum táknum sem þar eru að finna.

Það er mikilvægt og dýrmætt fyrir fólk að vita að það á val.

*Þessi grein birtist áður í Fréttablaðinu þann 22. júlí 2003.

Hope Knútsson

Til baka í yfirlit