Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Siðmennt stækkar hlutfallslega mest

Félögum í Siðmennt hefur fjölgað um 15% frá því að tölur yfir skráningar í trú- og lífsskoðunarfélög voru síðast birtar. Siðmennt er nú í 7. sæti yfir stærstu trú- og lífsskoðunarfélög landsins, með 2.747 skráða meðlimi. Hefur þeim fjölgað um 359, eða 15%, frá 1. desember 2017.

Sigurður Hólm Gunnarsson, formaður Siðmenntar, tekur hinum nýju tölum fagnandi:

„Siðmennt hefur stækkað hratt undanfarin misseri og má segja að við glímum nú við ákveðið lúxusvandamál. Eftirspurnin eftir veraldlegum athöfnum er mikil og fer bara vaxandi. Við tökumst á við þessa áskorun með bros á vor og fögnum hverjum nýjum einstakling sem skráir sig í félagið. Siðmennt býður ekki aðeins upp á mikilvægar veraldlegar athafnir eins og nafngjafir, fermingar, giftingar og útfarir. Siðmennt er félag siðrænna húmanista en siðrænir húmanistar leitast við að skilja heiminn og siðferðileg málefni með gagnrýnni hugsun og með vísindalegum aðferðum enda er vísindaleg nálgun skásta aðferðin sem mannfólkið hefur fundið upp til að skilja heiminn.

Siðrænir húmanistar leggja áherslu á umburðarlyndi og vilja meta siðferðileg álitamál út frá því hvaða áhrif gjörðir hafa á hamingju og velferð einstaklinga, samfélaga og umhverfisins. Það er þörf fyrir félagsskap fólks sem vill bæta heiminn með því að auka hamingju og draga úr þjáningu með skynsemi en ekki kreddum.”

Tölur um fjölda skráninga í trú- og lífsskoðunarfélag voru alla jafna aðeins birtar einu sinni á ári en Þjóðskrá mun nú birta uppfærðar tölur mánaðarlega. Siðmennt vekur athygli á að einstaklingar sem styðja stefnu Siðmenntar geta skráð sig í félagið sér að kostnaðarlausu með örfáum músarsmellum á Ísland.is.

Einfaldar leiðbeiningar í fimm skrefum:

  1. Farðu inn á https://minarsidur.island.is/frontpage/thjodskra/ og skráðu þig inn með því að nota Íslykil (ef þig vantar Íslykil getur þú sótt um hann á sömu síðu).
  2. Smelltu á „Skráningin mín.
  3. Undir  „Grunnupplýsinga“ veldu „Breyta trú- og lífsskoðunarfélagi“.
  4. Finndu „Breyting á skráningu“ og hakaðu í „Velja trú- og lífsskoðunarfélag“ og veldu svo„Siðmennt“ úr listanum.
  5. Smelltu svo á: „Senda tilkynningu“.


Nánari upplýsingar veitir:
Sigurður Hólm Gunnarsson, formaður Siðmenntar
siggi@sidmennt.is
S: 898-7585

Til baka í yfirlit