Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Siðrænir húmanistar á Íslandi fagna 20 ára afmæli Siðmenntar

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, er málsvari manngildisstefnu og frjálsrar hugsunar. Það starfar óháð trúarsetningum og stendur fyrir félagslegum athöfnum. Siðmennt var stofnað 15. febrúar 1990 og verður 20 ára 15. febrúar n.k. Það er við hæfi að spyrja hvað hefur breyst í íslensku samfélagi á þessum tveimur áratugum í kjölfar stofnun Siðmenntar.

Hugtakið lífsskoðunarfélag hefur náð fótfestu í þjóðfélaginu. Siðmennt hefur unnið markvisst að því að kynna hugtakið fyrir þjóðinni. Lífsskoðunarfélög geta verið bæði veraldleg og trúarleg. Með lífsskoðunarfélagi er átt við félagsskap sem fjallar um siðfræði, þekkingarfræði og þjónustar við tímamótaathafnir fjölskyldna. Þessi viðfangsefni eru sambærileg þjónustu trúfélaga en inntakið er ekki trúarlegt og athöfnunum stýrir athafnarstjóri í stað prests. Hugtakið lifsskoðunarfélag er nú víða notað, bæði meðal almennings og innan stjórnsýslunnar. Þekkingarfræðin fjallar um hvernig við getum öðlast skilning á umheiminum, þ.e. hvað sé haldbær þekking og hvað ekki.

Nú (Gallup des. 2009) eru 74% þjóðarinnar þeirra skoðunar að það beri að aðskilja ríkið og kirkju. Ennfremur eru 70% meðlima þjóðkirkjunnar sammála því. Siðmennt hefur frá upphafi barist fyrir raunverulegu trúfrelsi á Íslandi. Þar með fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju og gegn hvers kyns mismunun lífsskoðunarfélaga. Með fullum aðskilnaði gætu nokkrir milljarðar króna sparast árlega.

Í dag þykir sjálfsagt og eðlilegt að unglingar velti fyrir sér hvort þeir vilji fermast kirkjulega eða borgaralega eða alls ekki. Borgaraleg ferming verður vinsælli valkostur með ári hverju. Þannig hefur þátttakendum í borgaralegri fermingu fjölgað um 35% frá því á síðasta ári og eru nú ríflega 160 talsins skipt niður á sex námskeiðshópa auk fjarnáms. Það verða fjórar athafnir í vor; tvær í Reykjavík, ein á Akureyri og ein á Fljótsdalshéraði.

 

Nú getur íslenskur almenningur valið um ólíka þjónustu þegar kemur að öllum mikilvægu tímamótum lífsins, þ.e. nafngiftir, giftingar og útfarir á veraldlegan eða húmanískan máta. Tíu sérþjálfaðir athafnarstjórar starfa nú á vegum Siðmenntar og hefur þjónusta þeirra gefið af sér góðan róm.

Flestir er nú því sammála að það sé óeðlilegt að nýfædd ómálga börn séu sjálfkrafa skráð í trúfélag móður. Jafnréttisyfirvöld með dóms-og mannréttindaráðherra í fararbroddi vinna nú að því breyta þessu með lögum.

Sífellt fleiri gera sér grein fyrir því að trúboð í opinberum skólum er í senn bæði óviðeigandi og brot á lögum.  Flestir gera sér grein fyrir því að það er mikill munur á fræðslu um trúarbrögð í skólum og trúboði. Ár hvert leitar fjöldi foreldra til Siðmenntar vegna þess að trúboð og trúariðkun fer fram í opinberum skólum. Að gefnu tilefni ber að taka fram að Siðmennt styður, og hefur alltaf stutt, fræðslu um trúarbrögð og kennslu í siðfræði og gagnrýnni hugsun.

Siðmennt er virkur þátttakandi í erlendum sem innlendum samtökum. Má þar nefna International Humanist and Ethical Union, The European Humanist Federation og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Siðmennt hefur fengið nokkrar viðurkenningar bæði hér á landi og á alþjóðlegum vettvangi.

Frá árinu 2005 hefur Siðmennt árlega veitt sérstaka húmanistaviðurkenningu fyrir framúrskarandi störf í þágu mannréttinda og/eða mannúðar á Íslandi. Frá árinu 2008 hefur félagið einnig veitt fræðslu-og vísindaviðurkenningu fyrir mikilvæg framlög í þágu fræðslumála á Íslandi.

Nú í tilefni 20 ára afmælis Siðmenntar undirbýr stjórn félagsins ýmsa viðburði sem haldnir verða á árinu. Má þar nefna meðal annars málþing um veraldlegt samfélag.

Hope Knútsson, formaður Siðmenntar

Til baka í yfirlit