Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða sem Bjarni Jónsson flutti á fagnaðarhátíð Siðmenntar 10. maí 2013

Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar,  flutti stutta ræðu á hátíð Siðmenntar á Grand Hótel 10. maí. Þá hittust félagar og velunnarar Siðmenntar til að fagna því að félagið er nú orðið skráð lífsskoðunarfélag.

Ágætu gestir!

Ég þarf að viðurkenna það fyrir ykkur að undanfarnir dagar hafa verið svolítið skrýtnir. Þeir hafa verið uppfullir af mikill gleði okkar Siðmenntar fólks svo og þeirra sem styðja mannréttindi. Brosið hefur ekki farið af andlitin nú í eina viku!

En ég hef líka fyllst smá tómleika. Ástæðan er kannski sú að nú lýkur ferli sem staðið hefur í 13 ár. Þrotlaus vinna fólks sem hafði þá ósk heitasta að vilja viðurkenningu á lífsskoðunum sínum. Undirbúningur málsins, greinaskrif, samtöl við þingmenn og mikil þolinmæði – þetta hefur allt tekið á.

Á þessu tímabili hefur allur tilfinningaskalinn verið nýttur frá ánægju, stolti yfir í depurð og uppgjöf. Þetta ferli tók stundum á og kostaði mikla orku okkar sem staðið hafa í framlínunni. Í henni hefur verið fólk sem ég er ákaflega stoltur að vinna með að þessu markmiði. Slík vinna er teymisvinna þar sem allir róa í sömu átt.

Mig langar að nota þetta tækifæri nú til að þakka nokkur aðilum sérstaklega fyrir þeirra framlag. Fyrst ber að nefna Ágúst Ólaf Ágústsson, fyrrum þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar sem á tíma þegar við vorum að gefast upp og ræddum um lögsókn á hendur ríkinu – en þá hvatti hann okkur áfram til þess að reyna einu sinni enn að tala við þingmenn –og við sjáum ekki eftir því að hafa farið að hans ráðum.

Ég vil þakka Birgi Ármannssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem árið 2008, þá formaður allsherjarnefndar, varð valdur að jákvæðustu þróun málsins í mörg ár. Á fundi með honum tjáði hann sig viljugan að allsherjarnefnd tækið lífsskoðunarmálið upp að eigin frumkvæði og það skildi gerast á fyrstu dögum þingsins haustið 2008. Jú við vitum hvað gerðist svo – hrunið. Og öllu öðru var ýtt til hliðar og Siðmennt hafði fullan skilning á því að málefni þess urðu líka að bíða.

Næst vil ég þakka Auði Lilju Erlingsdóttur sem vorið 2010 lagði fram tillögu á Alþingi til þingsályktunar um jafnræði lífsskoðunarfélaga, trúarlegra sem veraldlegra. Hún hljómar einfaldlega svona:

Alþingi ályktar að fela dómsmála- og mannréttindaráðherra að hefja vinnu sem tryggi jafnrétti og jöfn tækifæri lífsskoðunarfélaga, jafnt trúarlegra sem veraldlegra. Í þessu skyni láti ráðherra meðal annars undirbúa lagabreytingar og gerð frumvarps til sérstakra laga um stöðu lífsskoðunarfélaga.

Við vorum ákaflega stolt yfir þessari þingsályktunartillögu.

Næst vil ég þakka hópi þingmanna sem voru meðflytjendur Auðar Lilju en þau eru:

Margrét Pétursdóttir, Lilja Mósesdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Skúli Helgason og Birgitta Jónsdóttir.

Ég vil einnig þakka Merði Árnasyni, þingmanni, sem hefur veitt félaginu mikilsverðan og ómetanlegan stuðning á undanförnum árum.

Við þessa þingmenn segi ég fyrir hönd Siðmenntar: Kærar þakkir fyrir hugrekkið sem þið hafið sýnt. Það er erfitt að ganga gegn viðteknum venjum og hefðum. Trúar- og lífsskoðunarmál er slíkur málaflokkur – og kærar þakkir fyrir stuðninginn.

Að lokum vil ég ávarpa sérstaklega Ögmund Jónasson innanríkisráðherra.

Ögmundur hafði dug og þor til að setja þetta mál til undirbúnings og vinnslu í ráðuneytinu. Ekki bara það heldur einnig að halda það út. Ég vil því þakka þér kærlega fyrir að hafa unnið mannréttindum lið með því að fá lögin staðfest og að sjálfsögðu á starfsfólk skrifstofu mannréttinda í Innanríkisráðuneytinu þakkir skyldar fyrir fagmennsku.

Í upphafi máls míns minntist ég á tómleika minn. Það er nú svo að verkefni Siðmenntar eru mörg og því er ekkert annað að gera en að halda áfram á sömu braut. Siðmennt mun, eins og svo oft áður, senda þingmönnum lista yfir þau mál sem félagið telur mikilvægt að vinna að í þeim tilgangi að styrkja veraldlegt samfélag sem við viljum búa í. Samfélag þar sem lýðræði ríkir, fullt trúfrelsi og mannréttindi eru virt.

Staðfesta, umburðarlyndi, ákveðni, þrautseigja og þolinmæði hafa verið einkennandi fyrir starfshætti og stefnu Siðmenntar í þessu máli sem og öðru starfi félagsins. Ég fullyrði að engin breyting verður á þeim einkennum á næstunni.

Þakka ykkur fyrir að koma og samfagna með okkur!

Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar

Til baka í yfirlit