Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Vörumst skottulækningar

PÉTUR Tyrfingsson sálfræðingur ritar áhugaverða grein í Morgunblaðið sunnudaginn 30. sept. þar sem hann gagnrýnir svokallaða „höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun“ (HS-jöfnun) sem hann segir réttilega vera skottulækningar. Það er því miður sjaldgæft að menntaðir heilbrigðisstarfsmenn gagnrýni „óhefðbundnar lækningar“ og því fagna ég framtaki Péturs. Sérstaklega í ljósi þess að fjölmiðlar leyfa sér nánast aldrei að fjalla gagnrýnið um óhefðbundnar meðferðir.

Margir virðast vera þeirrar skoðunar að það sé rangt að gagnrýna óhefðbundnar lækningar. Fólk eigi að hafa val og það sé vont að svipta fólk voninni. Í grein um HS-jöfnun á doktor.is má til að mynda lesa:

„Verum því fordómalaus og opin og vinnum ávallt í kærleikanum. Tökum aldrei vonina frá fólki því að margar leiðir eru í boði til að bæta heilsubrest okkar. Kynnum okkur vel það sem í boði er og verum óhrædd að vísa hvert á annað og síðast en ekki síst, höfum hugfast að ,,Gjöful hendi er fögur, hvaðan sem hún kemur“.“

Rökum sem þessum hafna ég alfarið. Það er þvert á móti rangt að fullyrða að ákveðin meðferð skili árangri þegar fáar eða jafnvel engar rannsóknir benda til þess. Þeir sem lofa upp í ermina á sér með þessum hætti eru að misnota sér aðstöðu sjúklinga og aðstandendur þeirra. Vekja falskar vonir og verða jafnvel til þess að sjúklingar leiti sér ekki sannreyndrar meðferðar.

Töframeðferðir sem lækna nánast allt

Það sem einkennir oft skottulækningar eru órökstuddar fullyrðingar um að ákveðin meðferð eða einstök lyf lækni aragrúa af kvillum. Töframeðferð læknar næstum því allt. Þannig kemur fram í grein skrifaðri af Margréti Árnadóttur hjúkrunarfræðingi að HS-jöfnun geti „komið að gagni við nánast hvaða aðstæður sem er“. Eftirfarandi kvilla má víst bæta með HS-jöfnun:“Höfuðverkur, mígren, tíðaverkir, asthma, sinusitis, bronchitis, blöðrubólga, frosin öxl, liðagigt, ischias, langvinn tognun á ökkla, vandamál í liðum, RSI, meltingarvandamál, whiplash-skaðar, hryggskekkjur, bakverkir, hálsverkir, viðvarandi sársauki hvar sem er í líkamanum, spenna, kvíði, svefnleysi, sjóntruflanir, þrekleysi, vandamál á meðgöngu og eftir meðgöngu, þunglyndi, fylgikvillar skurðaðgerðar, samgróningar, ungbarnakveisa, pyloric stenosis, vandamál tengd fæðugjöf ungbarna, miðeyrabólgur, vökvi í eyrum, tonsillitis, ENT-vandamál, samþjöppun á höfuðkúpu vegna erfiðrar fæðingar ásamt öllum þeim truflunum sem því getur fylgt, námserfiðleikar, lesblinda, rangeygi, augnleti, ofvirkni, einhverfa, flogaveiki, cerebral palsy, hegðunarvandamál, bræðisköst, þráhyggjuhegðun, tannvandamál og TMJ-vandamál, höfuðskaðar og hin hárfínu áhrif þeirra á persónuleika og andlegt ástand, heilahimnubólga og langvinnir fylgikvillar hennar, post viral syndrome, ME, glandular fever, síþreyta, fylgikvillar hvaða langvinnra veikinda eða veiklandi sjúkdóms sem er.“

Það munar ekki um það. Töframeðferðin læknar þunglyndi, vökva í eyrum, námserfiðleika, rangeygi, ofvirkni og jafnvel einhverfu! Gott ef satt væri. Staðreyndin er sú að rannsóknir styðja ekki þessar fullyrðingar. Þannig kemur fram í ítarlegri samantekt líffræðingsins Steve E. Hartman og lífeðlisfræðingsins James M. Norton um gildi HS-jöfnunar að vísindarannsóknir bendi eindregið til þess að HS-jöfnun hafi enga virkni. Í stuttu máli eru ekki til neinar vísindalegar rannsóknir sem styðja fullyrðingar um lækningamátt HS-jöfnunar.

Kannski hafa vísindamenn rangt fyrir sér. Ef til vill er HS-jöfnun sú töframeðferð sem HS-jafnarar halda fram. En þar til vel hannaðar vísindalegar rannsóknir sýna fram á gildi meðferðarinnar hvet ég þá sem málið varðar að leita til læknis eða annarra heilbrigðisstarfsmanna sem beita sannreyndum aðferðum .

Höfundur er varaformaður Siðmenntar og nemandi í iðjuþjálfun.

Sigurður Hólm Gunnarsson

Til baka í yfirlit