Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Viðurkenningar Siðmenntar veittar

Húmanistaviðurkenning & Fræðslu- og vísindaviðurkenning Siðmenntar 2009 

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, hefur frá árinu 2005 veitt  árlega Húmanistaviðurkenningu félagsins.  Í dag 29. október fór fram afhending viðurkenninganna í Blómasal Hótel Loftleiða.

Það var Alþjóðahús sem hlaut Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar 2009.  Alþjóðahús ehf. var stofnað árið 2001 og tók við af Miðstöð Nýbúa.  Meginhlutverk þess snýr að því auðvelda aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi annars vegar og hins vegar að auðvelda þeim sem fyrir eru að aðlagast breyttri samfélagsmynd.  Alþjóðahúsið er upplýsingamiðstöð fyrir innflytjendur og um málefni innflytjenda.  Þeim sem þangað leita er bæði veitt almenn ráðgjöf og lögfræðiráðgjöf að kostnaðarlausu. Þar  er einnig boðið upp á fræðslu, fjölbreytt námskeið af ýmsu tagi auk kennslu í samfélagsfærni.

Stjórn Siðmenntar þykir starfsfólk og stjórn Alþjóðahúss hafa skilað einstöku og óeigingjörnu starfi í þágu mannúðar, manngildis og fjölmenningar, en það er mikilsvert að erlendu fólki líði vel hérlendis og nái að aðlagast íslensku þjóðfélagi á farsælan máta.

Margrét Steinarsdóttir framkvæmdarstjóri veitti viðurkenningunni viðtöku fyrir hönd Alþjóðahúss.

Mynd 1:  Margrét Steinarsdóttir tekur við Húmanistaviðurkenningunni fyrir hönd Alþjóðahúss úr höndum Hope Knútsson, formanns Siðmenntar.

Í annað sinn veitti Siðmennt Fræðslu- og vísindaviðurkenningu félagsins og hlaut þau nú Orri Harðarson, tónlistarmaður og rithöfundur fyrir framlag sitt til gagnrýnnar umfjöllunar og fræðslu um áfengismeðferð á Íslandi.  Orri skrifaði bókina Alkasamfélagið, sem kom út fyrir um ári síðan og fékk ekki þá umfjöllun sem hún átti skilið, m.a. vegna nýlegs hruns íslenska fjármálakerfisins.  Í bókinni rekur hann sögu AA-samtakanna og gagnrýnir að áfengismeðferð á vegum heilbrigðiskerfisins sé ekki nógu fagleg og trúarlegur þrýstingur settur á alla sjúklinga, m.a. þá sem ekki kæra sig um blöndun trúar í meðferðina.  Meðferðin höfði því ekki til margra og sá árangur sem haldið sé á lofti sé í raun ekki mikill og að aðrar faglegri leiðir séu ekki á dagskránni, sérstaklega þegar kemur að eftirmeðferðinni. Stjórn Siðmenntar fannst að bók Orra væri mikilvægt framlag og frumkvæði í gagnrýnni skoðun á áfengismeðferð hérlendis og að hann sýndi mikið áræði og vilja til að bæta núverandi tilhögun. 

Mynd 2:  Orri Harðarson, rithöfundur tekur við Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar.

Til baka í yfirlit