Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Húmanistaviðurkenning 2013 – ræða formanns

Húmanistaviðurkenning Siðmenntar 29. okt. 2013

Komið þið sæl og þakka ykkur hjartanlega fyrir að koma hingað í dag til að gleðjast með okkur og verðlaunahöfum okkar. Fyrir 9 árum tók stjórn Siðmenntar ákvörðun um að veita árlega Húmanistaviðurkenningu. Einstaklingar, félagasamtök eða aðrir sem hafa lagt talsvert af mörkum í þágu mannréttinda á Íslandi eiga möguleika á að hljóta viðurkenninguna. Aðilar sem hafa fengið húmanistaviðurkenningu Siðmenntar hingað til eru Samtökin ’78, Ragnar Aðalsteinsson, Tatjana Latinovic, Rauði Kross Íslands, Alþjóðahús, Hörður Torfason, Páll Óskar Hjálmtýsson, og í fyrra  þrír aðilar sem allir starfa við að fræða almenning um og vekja athygli á afleiðingum eineltis: Liðsmenn Jerico, Viðar Freyr Guðmundsson og Gunnar Halldór Magnússon Diego.

Siðmennt sem er félag siðrænna húmanista, var stofnað árið 1990. Félagið var opinberlega skráð lífsskoðunarfélag þann 3. maí síðastliðinn og fékk þar með sömu lagalegu stöðu og réttindi sem skráð trúfélög njóta á Íslandi.

Siðmennt er málsvari manngildisstefnu og frjálsrar hugsunar, er óháð trúarsetningum og stendur félagið fyrir félagslegum athöfnum. Frá 1989 höfum við á hverju ári haldið undirbúningsnámskeið og séð um borgaralegar fermingar. Í ár héldum við upp á 25 ára afmæli borgaralegrar fermingar á Íslandi. Síðan 2008 hefur Siðmennt einnig boðið uppá veraldlegar giftingar, nafngjafir og útfarir. Giftingar okkar eru núna löggjörningar og hefur fjöldi giftinga þrefaldast síðan í maí á þessu ári miðað við allt árið í fyrra. Við teljum mikilvægt að geta veitt fólki valkosti á öllum mikilvægustu tímamótum lífsins og höfum við þjálfað hóp athafnarstjóra til þess að annast veraldlegar athafnir.

Félagið hefur í gegnum árin staðið fyrir umræðufundum, málþingum og ráðstefnum um ýmis mál sem tengjast siðrænum húmanisma: meðal annars um gagnrýna hugsun, veraldlegt samfélag, trúarbragðakennslu, heimspeki í skólum, mannréttindi samkynhneigðra, staðgöngumæðrun og um sorg og sorgarviðbrögð.

Siðmennt berst fyrir fullu trúfrelsi á Íslandi og veraldlegu samfélagi. Siðmennt vill því að ríki og kirkja verði aðskilin á Íslandi og að hið opinbera hætti afskiptum af trúmálum einstaklinga. Þannig telur félagið að hið opinbera eigi ekki að sjá um að skrá  trúar-og lífsskoðanir fólks hjá Þjóðskrá eða að deila út sóknargjöldum. Að sama skapi teljum við óviðeigandi að nýfædd börn séu sjálfkrafa skráð í trú- og lífsskoðunarfélög og við viljum að þeir einstaklingar sem ekki eru skráðir í nein slík félög fái afslátt af tekjuskattinum en í dag fara sóknargjöld þeirra beint í ríkissjóð.

Áhugasamir geta kynnt sér nánar stefnu Siðmenntar í trúfrelsismálum á vefsíðu félagsins, sidmennt.is.

Í stefnuskrá Siðmenntar segir m.a.:

  • Siðmennt reynir að yfirstíga skiptingu manna í fjandsamlega hópa sem hver um sig byggir tilvist sína á ákveðinni sérstöðu, til dæmis kynþætti, trúarbrögðum, kyni, þjóðerni, stétt, tungumálum eða kynhneigð. Siðmennt vill fá fólk úr ólíkum hópum til að vinna saman að málefnum sem eru til góðs fyrir mannkyn allt.

Sá sem hlýtur húmanistaviðurkenningu Siðmenntar 2013 er Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur. Jón Gnarr hefur sem borgarstjóri sýnt í verki að hann setur mannréttindi í forgang, eitthvað sem fáir stjórnmálamenn í valdastöðum þora að gera. Hann hefur beitt sér einarðlega í baráttu gegn einelti og skrifað áhrífamiklar bækur byggðar á eigin reynslu í þeim efnum.  Jón Gnarr er einnig sannur  baráttumaður fyrir réttindum hinsegin fólks og fjallar hann reglulega um jafnrétti og réttlæti. Hann talar einnig reglulega gegn ofbeldi í öllum myndum og um friðarmál.  Svo tók hann þátt í að stofna  “Góðan daginn” daginn til að auka náungakærleik og viðhalda góðri íslenskri hefð. Hann hefur vakið jákvæða athygli erlendis og nýtur virðingar fyrir að beita sér fyrir mannréttindamálum af meira afli en tíðkast meðal margra annarra stjórnmálamanna. Ég held að hvergi í heiminum hafi verið borgarstjóri eins og hann! Flokkur hans studdi mannréttindanefnd Reykjavíkur í að koma á eðlilegum reglum um tengsl skóla og trú- og lífsskoðunarfélaga og við kunnum vel að meta það. Jón Gnarr er óvenjulegur stjórnmálamaður. Hann fer óvenjulegar leiðir og er þess vegna umdeildur. En hann er fyrirmyndar húmanisti hvort sem hann kallar sig húmanista eða ekki. Jón Gnarr beitir sér fyrir mannréttindum, mannvirðingu, og styður opið, viðsýnt og fjölbreytt samfélag. Nákvæmlega eins og við reynum að gera hjá Siðmennt.

Að okkar mati samrýmist starf hans hugmyndum húmanismans eins og lýst hefur verið hér í upphafi. Það er mér því mikil ánægja að veita Jóni Gnarr Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar árið 2013 fyrir einstakt starf í þágu mannréttinda og mannúðar á Íslandi. Húmanistaviðurkenning Siðmenntar er að mestu táknræns eðlis og samanstendur af viðurkenningarskjali, hógværri gjöf sem er listaverk eftir Elísabetu Ásberg og heitir “Flæði” og bókinni “Um húmanisma” eftir heimspekinginn Richard Norman.  Bókin er fyrsta bók  um húmanisma sem hefur komið út á íslenskri tungu. Við óskum Jóni Gnarr innilega til hamingju.

Í dag mun Siðmennt einnig veita Fræðslu-og vísindaviðurkenningu félagsins fyrir mikilvægt framlag í þágu fræðslu á Íslandi. Þetta er í sjötta sinn sem Siðmennt veitir þessa viðurkenningu. Fyrrum handhafar hennar eru Pétur Tyrfingsson sálfræðingur, Orri Harðarson rithöfundur og tónlistarmaður, Ari Trausti Guðmundsson rithöfundur og jarðvísindamaður, Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn, og Örnólfur Thorlacius fyrrverandi kennari, skólameistari og brautryðjandi í að miðla vísindaþekkingu á Íslandi.

Ég vil byrja á því að segja hvers vegna Siðmennt lætur sig varða fræðslumál og upplýsta umræðu hér á landi. Eitt af þremur meginviðfangsefnum félagsins er þekkingarfræði, sem er ein af undirgreinum heimspekinnar rétt eins og siðfræðin. Innan húmanismans er fjallað um eðli og uppsprettu þekkingar og um skyld hugtök eins og skynjun, huglægni, hlutlægni, raunhyggju, rökhyggju og afstæðishyggju.

Í stefnu félagsins segir:

  • Siðmennt telur að uppgötvanir í vísindum og nýjungar í tækni geti stuðlað að betra lífi. Þróun siðferðis þarf að vaxa jöfnum skrefum með þróun vísinda og þau þarf að nota til uppbyggingar, en ekki niðurrifs og eyðileggingar. Húmanisminn tekur mið af því að áreiðanleg þekking um okkur sjálf og heiminn verði til við stöðugt ferli athugunar, rannsóknar og endurskoðunar. Vísindin gefa okkur aðferðir og tæki, en mannleg siðferðisgildi verða að vísa leiðina.
  • Siðmennt hvetur til gagnrýnnar hugsunar og telur að nýjar hugmyndir eigi að standast fræðilega rannsókn; að öðrum kosti eigi að vantreysta þeim.

Við búum í samfélagi vísinda og tækni en samtímis búum við í samfélagi þar sem ríkir því miður mikil fáfræði og töluvert áhugaleysi um vísindi. Það vantar sárlega fleiri vísinda- og tæknimenntað fólk á Íslandi, en til þess þarf að vekja áhuga fólks á vísindum.

Pétur Halldórsson útvarpsmaður gerir það svo sannarlega! Hann er umsjónarmaður útvarpsþáttarins “Tilraunarglasið” á Rás 1 hjá Ríkisútvarpinu.  Stjórn Siðmenntar telur að þátturinn Tilraunaglasið eigi skilið fræðslu- og vísindaviðurkenninguna okkar. Efnistökin eru vönduð og umsjónarmaðurinn nær að fara dýpra í umfjöllun um vísindi heldur en gert er að jafnaði í íslenskri þáttargerð. Það er ekki sjálfgefið að slíkur þáttur sé í boði og okkur þykir mikilvægt að vekja athygli á þessu framtaki og um leið því mikilvæga hlutverki Ríkisútvarpsins að efla fræðslu með innlendri þáttagerð. Nóg er um skottulækningar og hjávísindin á öðrum útvarpsstöðvum! Þessi þáttur er ekki mjög vel þekktur og við viljum með þessari viðurkenningu leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að vekja athygli á þættinum.

Fyrir þetta mikilvæga framlag til fræðslu almennings á Íslandi veitir stjórn Siðmenntar Pétri hér með Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar fyrir árið 2013. Þessi viðurkenning samanstendur af viðurkenningarskjali, listaverki eftir Elísabetu Ásberg sem heitir “Flæði” og bókinni “Um húmanisma”.  Mín er ánægjan að afhenda Pétri fræðslu-og vísindaviðurkenningu Siðmenntar 2013.  Til hamingju!

————————————————————————————————–

Til baka í yfirlit