Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Jafnréttisstofa gagnrýnir sjálfkrafa skráningu ungabarna í trúfélag

Þann 1. desember sl. sendi Jafnréttisstofa frá sér eftirfarandi yfirlýsingu til stjórnvalda í kjölfar erindis Reynis Harðarsonar, félaga í Siðmennt, til hennar um þá lagagrein laga um skráð trúfélög frá 1999, sem kveður á um að ungabörn skulu sjálfkrafa vera skráð í trúfélag móður frá fæðingu:

„Jafnréttisstofa telur annmarka á þessu ákvæði laganna um skráð trúfélög. Í fyrsta lagi er það tæpast í samræmi við jafnréttislögin og bann þeirra við mismunun á grundvelli kyns að kyn þ.e. móðerni ráði því alfarið í hvaða trúfélag barn er skráð frá fæðingu. „

Áfram segir í yfirlýsingu Jafnréttisstofu:  „Löggjafinn hefur ekki fært fyrir því rök, eftir því sem best verður séð, af hverju nauðsynlegt er að barn sé skráð í sama trúfélag og móðir þess við fæðingu. Í öðru lagi er það sem Jafnréttisstofa telur mikilvægast í þessu máli sem er að ekki er að sjá að það séu neinir hagsmunir, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag, hvort sem það fylgir skráningu móður eða föður. [breiðletrun Siðmenntar]


Miklu eðlilegra, og í meira samræmi við jafnréttislög og anda þeirra laga, sem og jafnrétti og mannréttindi almennt, væri að forsjáraðilar tækju um það ákvörðun hvort, og þá hvenær skrá ætti barn í trúfélag. Samþykki beggja forsjáraðila ef þeir eru tveir, yrði þá að liggja fyrir til þess að barn yrði skráð í trúfélag þegar það er yngra en að því sé heimilt að sjá um slíkt á eigin forsendum.

Niðurstaða Jafnréttisstofu er því sú að endurskoða þurfi tilgreint ákvæði laganna um skráð trúfélög, og þá annað hvort færa fyrir því gild rök að fyrirkomulag sem nú er lögfest sé eðlilegt og samrýmist jafnréttislögum og mannréttindalöggjöf eða fella ákvæðið í 2. mgr. 8. gr. laganna brott, og breyta fyrirkomulagin í þá veru að forsjáraðilar taki sameiginlega ákvörðun um skráninu barns í trúfélag, þegar þeir svo kjósa. – Virðingarfyllst f.h. Jafnréttisstofu – Ingibjörg Elíasdóttir lögfræðingur

Stjórn Siðmenntar fagnar innilega þessari yfirlýsingu Jafnréttisstofu því hún er í samræmi við þá skoðun stjórnarinnar að:

  • Það eigi ekki að skrá börn í trúfélög eða veraldleg lífsskoðunarfélög foreldra því börn á ekki að setja í bás eftir skoðunum foreldra þeirra.
  • Við 16 ára aldur hið fyrsta er rétt að ungmenni geti skráð sig formlega í þessi félög, því forsenda slíkrar ákvörðunar er ákveðinn þroski, sjálfstæði og menntunarstig.

Líkt og með stjórnmálaflokka á það ekki að vera í valdi foreldra að skrá börn sín í trúarleg eða veraldleg lífsskoðunarfélög, heldur á það að vera sjálfstæð ákvörðun hvers einstaklings þegar viðkomandi hefur aldur til.  Jafnframt álítur stjórn félagsins að þessi tillaga Jafnréttisstofu sé tímamótatillaga í átt til afnáms mismununar á rétti foreldra eftir kyni þeirra.

Til baka í yfirlit