Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Húmanismi – lífsskoðun til framtíðar

Lífsskoðanir okkar hafa djúp áhrif á það hvernig okkur reiðir af og hvernig lífshlaup okkar verður í því samfélagi sem við búum í. Uppgangur húmanískra siðferðishugmynda hefur orðið til þess að miklar framfarir hafa orðið í mannréttindamálum víða um heim og þá sérstaklega í hinum „vestræna“ hluta hans. Fólk hefur losað sig undan kreddukenndum hugmyndum trúarbragða, afvegaleiddrar þjóðernishyggju og forræðishyggju, sem lifði góðu lífi á gullöldum kirkjulegra valda í Evrópu.


Óskorað vald karlmanna hefur smám saman orðið að víkja og stærsti sigurinn vannst þegar konur fengu kosningarrétt á fyrri hluta 20. aldarinnar þrátt fyrir mikla andstöðu kirkjudeilda og íhaldssamra stjórnmálaafla. Mismunun vegna kynþáttar eða kynhneigðar hefur víða mátt víkja en helst eru það trúfélög sem standa á móti rétti samkynhneigðra til að njóta sömu þjóðfélagsstöðu og aðrir í heiminum.

Í húmanismanum felst heimsspekileg náttúruhyggja (að lífið eigi sér náttúrlegar skýringar), skynsemishyggja (treysta á vitræna getu okkar) og efahyggja, þ.e. að nýjar staðhæfingar eða tilgátur séu ekki teknar trúanlegar nema að þær standist rökfræðilega skoðun og prófanir, t.d. með aðferðum vísindanna. Einn stærsti sigur húmanískra hugsjóna var stofnun Sameinuðu Þjóðanna (SÞ) og gerð mannréttindayfirlýsingar þeirra. Alþjóðasamtök húmanista, International Humanist and Ethical Union (IHEU) hafa alla tíð starfað náið með SÞ og það var fyrsti forseti alþjóðaþings IHEU, líffræðingurinn Julian Huxley sem var einnig fyrsti forseti menningar-, mennta- og vísindastofnunar SÞ, UNESCO árið 1946. Einn þekktasti trúleysingi og mannúðarsinni síðustu aldar var Englendingurinn Bertrand Russell (1872-1970) sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1950 fyrir skrif í þágu frálsrar hugsunar.

Nú á tímum upplýsingaflæðis og alþjóðavæðingar er á ný sóst að skynsemishyggju og húmanískum gildum með lúmskri trúarlegri innrætingu, „pólitískt réttum“ yfirgangi bókstafstrúarfólks og uppgangi gervivísinda sem notfæra sér glundroða þann sem ófullnægjandi raungreinakennsla og stundum óvandaður fréttaflutningur um vísindi og læknisfræði hafa skapað í hugum fólks. Vegna þessa hafa fjölmargir fylgjendur manngildissins og velferðar hins lýðræðislega samfélags risið upp og komið saman í æ meira mæli sem húmanistar víða um heim. Í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001 hafa æ fleiri gert sér grein fyrir því að það eru ekki aðeins bókstafstrúarmenn sem ógna húmanískum gildum eins og mannréttindum heldur einnig hin svokölluðu hófsömu trúarbrögð með því að viðhalda grunninum að hinum trúarlega og forneskjulega hugmyndaheimi þeirra.

Margt fólk er að vakna til vitundar um mikilvægi húmanismans, t.d. sem sú lífsskoðun sem er öflugusta vopnið gegn kúgun kvenna víða um heim. Fyrirlestar baráttukonunnar Maryam Namazie á dögunum báru þess glöggt vitni. Sómalski rithöfundurinn, femínistinn og trúleysinginn Ayaan Hirsi Ali benti einnig á hættuna af trúarlega tengdu siðferði í sjónvarpi og blöðum nýlega.

Á Íslandi hafa húmanistar átt sitt lífsskoðunarfélag frá 1990 en það heitir Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi. Á næsta ári á borgaraleg (veraldleg) ferming 20 ára afmæli og er það sérstakt ánægjuefni því nær 1000 ungmenni hafa hlotið húmaníska lífssýn í gegnum fermingarfræðslu félagsins á þessum árum. Það stefnir nú í metþátttöku á afmælisárinu. Siðmennt nýtur ekki þeirra fríðinda að fá félagsgjöld í formi „sóknargjalda“ innheimt og afhent af ríkinu líkt og trúfélög á Íslandi fá, þrátt fyrir að standa fyrir þau gildi sem stuðla að hvað mestri mannvirðingu, jafnrétti og bestu menntun allra landsmanna.

Ég vil hvetja það fólk sem telur sig vera húmanista að skrá sig „utan trúfélaga“ á skrifstofu Þjóðskrár og ganga til liðs við Siðmennt. Vefsíða félagsins er www.sidmennt.is. Þetta er mikilvægt því húmanistar þurfa að standa saman og verja og rækta gildi sín. Siðmennt þarfnast þess að fólk sem telur sig eiga samleið með húmanískum lífsgildum gangi til liðs við félagið til að stuðla að uppbyggingu veraldlegra valkosta við félagslegar athafnir eins og útfarir, nefningar og giftingar. Það er sérstaklega ánægjulegt að í vetur mun Siðmennt bjóða uppá þjálfaða athafnarstjóra fyrir veraldlegar útfarir í fyrsta sinn. Tökum höndum saman.

Greinin var birt í Morgunblaðinu 30. september 2007

Svanur Sigurbjörnsson

Til baka í yfirlit