Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2014 – ræða Kristínar Tómasdóttur

Ræða sem Kristín Tómasdóttir rithöfundur flutti við borgaralega fermingu sem fór fram í Háskólabíói 6. apríl 2014.

Kæru fermingabörn – innilega til hamingju með daginn

Mér er hér falið ótrúlega mikilvægt hlutverk sem ég ber mikla virðingu fyrir og langar til þess að sinna vandlega og vel.

Raunar svo vel að ég byrjaði að rita þessi orð fyrir tveimur vikum síðan en eftir því sem styttist í athöfnina varð textinn minn stöðugt þynnri, verri og innihaldslausari.

Mig langaði svo til þess að skilja eftir hjá ykkur orð sem myndu breyta og bæta. Orð sem myndu hafa jákvæð áhrif á framtíð ykkar, koma í veg fyrir að þið munið einhverntíman reykja, drekka eða dópa. Mig langaði til þess að auka víðsýni ykkar og umburðarlyndi auk þess sem það myndi setja punktinn yfir i-ið ef sjálfsmynd ykkar yrði jákvæðari og þið hefðuð öðlast aukið sjálfstraust eftir þessa 6-8 mínútna ræðu.

Sjálf fermdist ég borgaralega árið 1997. Ég man ekki hver það var sem hélt sambærilega ræðu í minni fermingu og með fullri virðingu, man ég ekkert hvað viðkomandi sagði né hafði það stórbrotin áhrif á framtíð mína. Sem jók enn á kvíða minn yfir því mikla verkefni sem mér var falið hér í dag.

En þegar ég lít tilbaka um fimmtán ár þá man ég, mjög vel, að henni sem hér stendur datt ekki í hug:

  • Að hún myndi ná samræmduprófunum. Það hvarflaði ekki að henni.
  • Né að hún gæti lært að hafa stjórn á skapi sínu.
  • Að hún gæti lært að tala ensku.
  • Að hún myndi einhverntímann eignast kærasta.
  • Að hún myndi síðar læra að fíla foreldra sína.
  • Að hún gæti orðið sátt við líkama sinn.
  • Að hún gæti ræktað farsæl vináttusambönd við vinkonur sínar.
  • Að hún gæti eignast nægilega mikið af peningum til þess að þurfa ekki að hafa áhyggjur af þeim.
  • Að hún gæti hlaupið maraþon (sem hún hefur reyndar ekki gert, en hefur þó fulla trú á)
  • Að hún gæti skrifað bók.
  • Að einhver gæti litið upp til hennar.
  • Né að hún gæti orðið raunverulega hamingjusöm.

Hvað hefði viðkomandi átt að segja við mig og fermingasystkini mín árið 1997? Ég veit það ekki enn!

En ég veit að mig langaði líka til þess að vera hnyttin í dag og fá ykkur öll til þess að hlæja. Í því samhengi vænti ég þess að ég gæti gert eitthvað í svipuðum dúr og Saga vinkona mín. Ég gerði s.s. þá kröfu til mín að ræðan ætti að vera jafn fyndin og ef uppistandarinn og leikkonan Saga Garðarsdóttir  sem skrifaði áramótaskaupið og var kosin fyndnasta kona landsins hefði skrifað hana. Ræðan mín mátti ekki vera grammi minna  fyndin en áramótaskaup allra landsmanna.

Þegar hér var komið við sögu var ég farin að velta fyrir mér video-innslögum. Ég vildi brjóta upp þunnildin sem ég hafði skrifað um mannréttindi og pólitíska réttsýni með grínvídeóum og fermingamyndum af sjálfri mér. Því styttra sem var í verkefnið því flóknara í vöfum hafði það orðið í mínum huga. Og í ofanálag hafði ég enga trú á því að ég gæti gert allt það sem ég ætlaði mér hér í dag.

Og þar kem ég að kjarna málsins. Ég setti mér óraunhæfar kröfur um leið og ég var hrædd um að mér myndi mistakast. Dauðadæmd blanda.

Sennilega næ ég ekki hlustun ykkar allra, eðlilega eruð þið að velta vöngum yfir þessum stóra degi í lífi ykkar, gjöfunum og veislunni. En mögulega næ ég til einhverja og mögulega skil ég eitthvað eftir mig hjá nokkrum. Það er mitt nýja markmið og það sem mig langar til þess að skilja eftir mig er:

1. Ekki setja óraunhæfar kröfur,  hvorki á ykkur né aðra. Og hvað á ég við með því? Leyfum okkur að að vera eins og við erum, gera það sem við erum fær um, vera stundum leiðinleg og stundum skemmtileg. Stundum sæt og stundum ljót.

Youtube-ið ykkur! Þetta er frasi sem ég lærði í gær, sem þýðir: “Þú ert að horfa á leiðinlegt myndband en þú horfir aðeins lengra. Þú gefur því sjens.”

Eins og þið gefið Youtube myndböndum tveggja mínútna sjens. Gefið ykkur og öðrum, gefið öllum – youtube sjens. Líkt og leiðinlega myndbandið getur komið að óvart þegar fer að líða undir lok þess, leyfið ykkur sjálfum og öðrum að koma ykkur að óvart.

Jafnframt

2. Ekki brjóta ykkur niður fyrir  mistök- og skoðiði “gerði ég mitt besta?” eða get ég mögulega gert betur?”  lærið þannig að mistökunum.

Síðan 1997 hef ég lært sitthvað en ég held að eitt af því sem hefur skilað mér mestu er að ég hef lært að gera mistök. Mistökin hafa fært mér trúnna á sjálfa mig.

Ég þurfti að rífast mörgum sinnum við foreldra mína áður en ég fór að fíla þau. Ég féll í mörgum prófum áður en ég fann námstækni sem hentaði mér og ég varð student. Ég þurfti að eignast nokkra kærasta áður en ég fann þann eina rétta. Og ég er enn að æfa fyrir maraþonið. Vitið þó til, ég er full eldmóðs og ekki í nokkrum vafa um að ég muni fara það.

Sem sagt, ég þurfti að gera mistök. Mörg mistök og ekkert sem ræðumaðurinn frá 1997 hefði getað breytt.

Mögulega hefði hann þó getað haft áhrif á foreldra mína. Ég ætla því að láta slag standa og biðja ykkur um eitt. Kæru foreldrar, leyfði þessum flottu unglingum, komandi kynslóð – að gera mistök.

Nú er komið að lokum og ég vona að ætlunarverk mitt um að breyta lífi ykkar allra hafi tekist en það verður tíminn að leiða í ljóst og mögulega skýrist það þegar eitthvert ykkar heldur ræðu hér eftir 15 ár.

Um leið og ég óska ykkur innilega til hamingju með daginn þá langar mig að minna ykkur á að. Þið eruð öll frábær, hvert og eitt ykkar er einastakt og öll hafið þið eitthvað fram að færa.

En jafnframt að það er engin fullkominn og það er fullkomlega eins og það á að vera.

Til baka í yfirlit