Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Aðskilnaður ríkis og kirkju

Nokkur atriði til umhugsunar
Enn heldur umræðan um aðskilnað ríkis og kirkju. Ástæða þess að ég sest niður og rita þetta greinarkorn er að ég vildi koma á framfæri ákveðnum atriðum sem ég tel vera grundvallaratriði umræðunnar. Einnig langar mig að ræða þær röksemdir sem notaðar eru með og á móti í umræðunni.


Grundvallaratriðin
Sú röksemd sem ég legg til grundvallar afstöðu minni til aðskilnaðar ríkis og kirkju, og sú sem nægir mér ein og sér, er að núverandi ástand tryggir ekki trúfrelsi þrátt fyrir að í stjórnarskrá Íslands sé getið um slíkt. Núverandi ástand brýtur gegn jafnræðisreglu stjórnaskráinnar. Það að eitt trúfélag hafi lögbundin rétt fram yfir aðra stenst ekki þá jafnræðisreglu. Sama trúfélag hefur annað aðgegni að fé, vel að merkja skattfé almennings, sem aðrir hafa ekki. Slík forréttindi ber að afnema en ekki að bæta fleirum trúfélögum á jötuna eins og stungið hefur verið uppá til þess að slá á gagnrýnisraddir.

Önnur rök sem notuð eru í umræðunni af aðskilnaðarsinnum, til að tryggja jafnrétti allar þegna Íslands, er að hér hafi átt sér stað mikil breyting á þjóðfélagsgerð, að þjóðfélagið sé orðið fjölmenningarlegt með fjölda fólks af öðrum trúarbrögðum og trúlausum. Sú röksemd er rétt og styður því grundvallarröksemdina sem minnst er á hér að ofan. Íslenskt þjóðfélag hefur breyst gífurlega á síðastliðnum 10 árum hvað þetta varðar.

Frelsi einstaklingsins eru einnig rök sem styðja við og eru fyllilega réttmæt rök aðskilnaðarsinna. Það að hér skuli vera ríkiskirkja er andstætt frelsishugsuninni. Að hér geti einstaklingur ekki ráðið hvort þeir vilji greiða sóknargjöld hvað þá hvert þau skuli renna er andstætt frelsi einstaklingsins. Mikil breyting í frelsisátt hefur átt sér stað síðastliðin 10 ár á mörgum sviðum þjóðfélagsins s.s. í viðskiptum og ríkisfyrirtæki hafa verið einkavædd undir formerkjum frelsis en það er eins og trúfrelsi sé ekki eins mikilvægt.

Hvað þá með þau rök að 85% þjóðarinnar er skráð í þjóðkirkjuna? Það þýðir ekki að 15% þjóðarinnar þurfi að líða eins og annars flokks þjóðfélagsþegnum og sætta sig við að búa ekki við sömu skilyrði. Og þá staðreynd að um 8-10% þjóðarinnar fer reglulega í kirkju vegna trúar sinnar. Hin 90% fara í besta falli í kirkju vegna giftinga, jarðafara eða á jólum til hátíðabrigða eða jafnvel bara á tónleika í kirkjum eins og undirritaður.

Hvað þá með þá afstöðu 2/3 hluta Íslendinga sem ár eftir ár í tíu ár hafa lýst þeirri afstöðu sinni að vera fylgjandi aðskilnaði. Nú í byrjun októmber birti Gallup árlegu skoðanakönnun sína um afstöðu almennings til aðskilnaðar og staðfestir hún 10 árið í röð yfirgnæfandi stuðning við aðskilnað. Stuðningurinn hefur aukist úr 56% árið 1994 í 67% í ár.

Verða þá engin jól?
Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með rökum andstæðinga trúfrelsis sem nota ýmis sérkennileg rök til að mæla gegn aðskilnaði ríkis og kirkju. Grípa menn til röksemda eins og: Er fólk að mælast fyrir því að jólin verða lögð af? Hvað með alla frídaga sem bera uppá kirkjulega daga – er fólk tilbúið að fórna þeim? Er fólk að kjósa gegn kirkjunni? Þetta eru ekki málefnaleg rök heldur byggja á því að hræða almenning með “rökum” sem þessum.

Ef við reynum hinsvegar að svara þessum rökum því sjálfsagt dettur einhverjum í hug að þetta gæti gerst. Því er til að svara að sjálfsögðu hverfa jólin ekki. Undirritaður hefur haldið jól alla tíð án kristilegra formerkja og kemur til með að gera það áfram. Að mínu mati eru þetta tími fjölskyldunnar og til þess að rækta slík sambönd.

Hvað varðar kirkjulega frídaga (t.d. jól og daga í kringum páska) þá er því til að svara að þeir koma ekkert því við hvort ríki og kirkja verði aðskilin. Það er fyrst og fremst spurning um samninga milli stéttarfélaga og vinnuveitenda sem skapað hafa þessa frídaga. Að sjálfsögðu byggjast þeir samningar á þeim viðhorfum sem þá ríktu um friðhelgi þessara daga. Helgidagalöggjöfin verður að öllum líkindum endurskoðuð með það fyrir augum að ekki verði bannað að vinna á ákveðnum dögum. Slíkt er eðlilegt þar sem nú á dögum á ekki að vera ákvörðun ríkisins að ákveða hvernig vinnutíma fólks er háttað.

Sú röksemd sem mér finnst einna veikust er að þeir sem væru að taka afstöðu gegn núverandi ástandi væru að taka afstöðu gegn kirkjunni. Það er dapurlegt að grípa þurfi til slíkra raka. Eflaust verður gripið til þeirra á næstu misserum en þau rök eru einkum til þess að koma að sektarkennd og skömm hjá einstaklingum. Það er ekki verið að taka afstöðu gegn einhverju heldur með jafnræði þegnanna.

Hvað breytist?
Rétt þykir mér að rekja, í stórum dráttum þó, hvaða breytingar verða við aðskilnað ríkis og kirkju þó ekki sé um tæmandi lista að ræða.

Það sem ég tel helstu breytinguna, er kannski ekki áþreifanleg, en það er að hér muni ríkja trúfrelsi. Allir trúarhópar sem og trúlausir munu hafa sömu stöðu. Enginn þeirra mun hafa sérréttindi og geta sótt sér fé í ríkissjóð eins og nú er. Að sama skapi verður að breyta sóknargjaldakerfinu og heimila trúlausum að ákveða sjálfir hvert þeirra sóknargjöld renna. Viðurkenna þarf kröfu samtaka trúlausra að Siðmennt verði skráð sem lífsskoðunarfélag með sömu stöðu og trúfélög. Tveir áratugir eru síðan slíkt var heimilt í Noregi og er félag trúlausra þar næst stærsta lífsskoðunarfélagið sem skráð er á eftir þjóðkirkjunni. Einnig á að heimila þeim sem ekki vilja vera skráðir í trúfélag eða lífsskoðunarfélög að velja það að greiða engin gjöld.

Sjálfvirk skráning nýfæddra barna í trúfélög verður hætt. Slík skráning fer ekki fram nema við skírn og formlega beiðni um inngöngu í eitthvað lísskoðunarfélag. Þeir sem ekki gera slíkt verða skráðir utan félaga.

Trúaruppeldi í grunnskólum, hverju nafni sem það nefnist, verður ekki heimilt og foreldrar gerðir ábyrgir fyrir slíkri fræðslu eftir vilja hvers og eins í stað skólans. Breyting verður því í skólum en kristnifræðslu verður breytt í trúarbragðafræði og ekki verður heimilt að vera með trúboð í grunn- og leiksskólum eins og því miður gerist enn í dag. Meginatriðið er að hver og ein fjölskylda beri ábyrgð á trúaruppeldi barna sinna.

Horfið verður frá því lögbroti að nota allt að 2 kennsludaga í skólum á hausti í fermingafræðslu kirkjunnar. Því miður hefur þessi árátta aukist að undanförnum árum og er ótrúlegt að skólayfirvöld skuli heimila slíkt.

Breyting verður á messuhaldi í ríkisfjölmiðlum. Ríkisútvarpið mun ekki flytja messur eins og gert er nú í dag. Einnig verður sjáanleg breyting á setningu Alþingis þar sem messuhaldi verður sleppt.

Evangelíska kirkjan þarf að standa á eigin fótum. Í því felast mikil tækifæri fyrir kirkjuna. Ég hef fulla trú á því að kirkjan muni eflast þó svo að skráðum félögum muni sjálfsagt fækka eftir því sem frá líður.

Langur ferill
Þegar að aðskilnaði ríkis og kirkju kemur er mjög mikilvægt að slíkt ferli fái að taka þann tíma sem þörf er á. Skilgreina þarf ferlið vel og ekki er ólíklegt að það taki 4-8 ár. Ég tel að ríkiskirkjan þurfi ákveðinn aðlögunartíma til þess að aðlaga starf sitt að breyttum aðstæðum.

Fara verður sértaklega yfir þann þátt er snýr að samningi ríkisins við kirkjuna frá 1997. Sá samningur fól í sér að ríkið yfirtók allar eigur kirkjunnar en skuldbatt sig til þess að halda kirkjunni uppi UM ALDUR OG ÆFI. Þessi samningur er að mínu mati afar einkennilegur. Það getur ekki staðist ströngust löggjöf að slík skuldbinding geti átt sér stað óháð því hvert virði eignanna var. Það merkilega er að slíkt var aldrei reiknað út. Hvernig er þá hægt að skuldbinda fjárútlát skattborgaranna á þennan hátt?

Hvað nú?
Ég á von á því að flutt verði a.m.k. tvö frumvörp þegar í haust sem koma inná þessi mál. Í fyrsta lagi á ég von á því að flutt verði frumvarp um að vinna að aðskilnaði ríkis og kirkju. Hitt frumvarpið mun taka á því órétti sem ég hef reifað í grein minni þ.e. um sóknargjöld.

Það er von mín að þau verða tekin á málefnaskrá og afgreidd. Ég tel það Alþingi til vansa ef þessi mál verði enn og aftur þögguð niður með því að setja þau ofaní skúffur til þess að þurfa ekki að afgreiða þau. Ég vil taka undir orð fyrrverandi formanns Allsherjarnefndar Alþingis, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, frá því á seinasta þingi. Þorgerður benti á að Allsherjarnefnd ætti að taka til umfjöllunar aðskilnað ríkis og kirkju til þess að geta skilgreint áhrif aðskilnaðar þegar til þess kemur.

Ég vona einnig að þungaviktarmenn ríkisstjórnarflokkanna eins og Björn Bjarnason og Jónína Bjartmarz láti af andstöðu sinni við þetta mannréttindamál. Það væri ágæt viðbót við frelsisbylgju íslensks þjóðfélags undanfarinna tíu ára að trúfelsi yrði staðfest með aðskilnaði ríkis og kirkju.

Höfundur er félagi í Siðmennt og er áhugamaður um mannréttindi.

Sigurður Hólm Gunnarsson

Til baka í yfirlit