Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Súpa með sögulegri yfirferð // Fyrsta húmanistahádegi Siðmenntar

Súpa með sögulegri yfirferð // Fyrsta húmanistahádegi Siðmenntar

Súpa og samtal, eru helstu viðfangsefnin í Húmanistahádegi Siðmenntar, sem verður reglulegur viðburður á skrifstofunni héðan í frá. Fyrsta Húmanistahádegið var helgað borgaralegri fermingu í sögulegu samhengi, og því var Hope Knútsson, stofnandi Siðmenntar, fengin til að segja frá tilurð þjónustunnar. Auk hennar kennir ýmissa grasa á skrifstofunni, sem er á annarri hæð á Laugavegi 178. Starfsfólk situr og vinnur sig í gegnum bunka af verkefnum í sístækkandi félagi, og linsubaunasúpa mallar á stakri ferðahellu á IKEA-hillusamstæðunni sem hýsir kaffivél og krómað sænskt kolsýrutæki. Mannréttindaaktivisti og ungur maður frá Afganistan sitja í sófanum og spjalla og foreldrar eins af fyrsta fermingarbörnunum rifja upp minningar af fyrstu skrefunum í stofnun félagsins. 

„Þetta byrjaði allt af því að börnin mín vildu ekki fermast kristilega“, útskýrir Hope, með veglega úrklippumöppu í fanginu. Þegar Hope Knútsson fluttist til Íslands tók hún með sér í farteskinu nýstárlegar hugmyndir um að trú væri ekki endilega sjálfgefin lífssýn allra.  Þegar það fór svo að líða að fermingaraldri barnanna hennar, sem eru fædd á áttunda áratugnum, varð svo ljóst að börnin höfðu heldur engan áhuga á því að gangast við því að vera kristin. Þau tóku því ákvörðun um að fermast ekki kristilega, en viðbrögðin létu ekki á sér standa. „Fólk spurði ‘af hverju ekki?’ og ég svaraði að það væri af því að þau tryðu ekki á Guð. Og fólkið svaraði mér að það skipti engu máli.“

 

Auglýsti eftir áhugasömum
En Hope og fjölskylda voru ekki sammála því að það skipti ekki máli, svo þau fóru að kanna aðra möguleika. Hope hafði samband við Human Etisk Forbund í Noregi og fékk um hæl sendar fullt af handbókum og stuðningsefni fyrir borgaralega fermingu, sem hefur verið valkostur í Noregi síðan árið 1951. „Við fjölskyldan tókum þá ákvörðun um að standa fyrir borgaralegri fermingu á Íslandi,“ segir Hope og bætir við að hún hafi spurt börnin og eiginmannin, Einar Knútsson, hvort þau væru til. „Krakkarnir voru til og Einar sagðist vera til, svo lengi sem hann þyrfti ekki að koma fram í sjónvarpinu,“ segir Hope og hlær. Hope skrifaði í blöðin og sagði frá því að börnin hennar myndu fermast borgaralega og spurði hvort einhver þarna úti hefðu áhuga á að vera með. „Síminn byrjaði að hringja og hefur ekki stoppað síðan!“. 

Útlendingurinn sem eyðileggur tungumálið
En það voru ekki bara áhugasamir foreldrar sem hringdu. Hope fékk líka nokkur hatursfull símtöl, sér í lagi á laugardagskvöldum þegar fólk var búið að drekka í sig kjarkinn til að hringja og úthúða Hope fyrir þetta framtak. „Ég bjóst alveg við gagnrýni á þetta. En ég var ekki undirbúin undir harkalega gagnrýni á mig persónulega,“ segir Hope og segir frá því hvernig hún var máluð upp sem útlendingur sem hefði komið hingað til að reyna að breyta trú og tungumáli Íslendinga. „Ég var kölluð anarkisti, nasisti og kommúnisti. Allt í einni setningu,“ segir Hope og rifjar upp mótlætið. „Einn varaði við því að fyrr en varir myndi ég fara að bjóða upp á skírnir, útfarir og giftingar. Og ég svaraði bara: Já auðvitað!“. Sá reyndist sannspár, en Siðmennt býður nú upp á tæplega 600 athafnir árlega, auk hópfermingaathafna. 

Alþjóðahreyfing húmanista tók íslensku frumkvöðlunum vel, en þau voru hvött til að sækja Heimsþing húmanista sem fram fór í Buffalo, New York 1988. „Um leið og við löbbuðum inn, þá sagði fólk: Þetta er fjölskyldan á Íslandi sem ætlar að stofna borgaralega fermingu og húmanistafélag. Og þá var klappað fyrir okkur!“. Á þessum tímapunkti var framtakið aðeins á hugmyndastigi, en strax vorið 1989 fermdist fyrsti árgangurinn af borgaralegum fermingarbörnum. Hópurinn taldi 16 unglinga á aldrinum 12 til 17 ára, en nú eru fermingarbörnin ríflega 750, eða 15% árgangsins. 

Frumkvæðið hjá foreldrunum
Hope hófst handa við að skipuleggja fermingarfræðsluna. „Í desember ‘88 hélt ég pizzapartí heima hjá mér, til að börnin gætu kynnst, því þau voru náttúrulega ekki öll úr sama hverfi eins og í tilfelli kirkjunnar“. Það fannst enginn kennari til að kenna öll viðfangsefnin sem lágu til grundvallar fræðslunni, svo Hope ákvað að finna sérfræðinga í hverju fagi. Á meðal sérfræðinga voru Húgó Þórisson, sem kenndi um samskipti foreldra og barna, Hreinn Pálsson, sem kenndi gagnrýna hugsun og svo fleiri á borð við Gísla Gunnarsson, Helga Mána Sigurðsson, Guðrúnu Helgadóttur og Jónu Ingibjörgu Jónsdóttur. Þá voru áhugasamir foreldrar settir í foreldranefnd og þau sáu um skipulagningu athafnarinnar. Ein þessara áhugasömu foreldra er Ingibjörg Garðarsdóttir.

„Við fluttum heim 1987 og samkvæmt fermingarhefðinni hefði elsti strákurinn okkar átt að fermast hér,“ segir Ingibjörg, sem sötrar súpu ásamt manni sínum, Róberti Hlöðverssyni. „En hann hefði aldrei fermst í kirkju. “ Fjölskyldan hafði búið í Svíþjóð í áratug og þar var bara 27% fermingarþátttaka. „Það var svo mikil kvöð. Löng fræðsla og messur á hverjum sunnudegi í tvö ár. Og svo vorum við bara ekkert trúuð“. Ingibjörg rifjar upp að hún hafi heyrt Hope segja frá borgaralegri fermingu á Rás 2, í viðtali við Stefán Jón Hafstein. „Svo ég tók upp tólið og sagði: Ég er með!“. 

Hope Knútsson segir frá tilurð borgaralegrar fermingar á lifandi máta á Húmanistahádegi Siðmenntar. 

Lentu í mótlæti fyrstu ári
Hope og Ingibjörg sátu öll námskeiðin til að mynda samfellu á móti sérfræðingunum sem kenndu hver sitt fag. „Við töluðum við börnin um það hvernig ætti að svara gagnrýni“, segir Hope, enda fengu fermingarbörnin oft gagnrýni á sig. „Mótlætið ágerðist, aðallega fyrstu átta árin,“ bætir hún við, og segir frá því hvernig ein amman hafi hótað að útskúfa barnabarninu ef hann fermdist borgaralega. „Hann hætti við, áður en námskeiðið hófst.“ Það voru ekki aðeins innan fjölskyldna fermingarbarna þar sem húmanistar lentu á vegg, en misvel gekk að fá innviði leigða til athafnarinnar. „Ég reyndi að fá inni á Listasafni Íslands,“ segir Ingibjörg og bætir við að hún hafi fengið neitun. „Yfirskinið var að það væri ekki hægt, því það yrði svo mikið slit á gólfinu.“

Hópurinn heldur áfram að spjalla um tilurð fermingarfræðslunnar, á meðan þau gæða sér á jarðaberjum og hummus. Og sú sem þetta ritar ætlar nú að slökkva á tölvunni og bætast í hópinn, svo söguyfirferðin verður ekki lengri að þessu sinni. En verið hjartanlega velkomin á næsta Húmanistahádegi Siðmenntar, sem verður 13. apríl.

 

// Inga Auðbjörg K. Straumland
Til baka í yfirlit