Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Norræn samtök húmanista mótmæla harðlega tillögu dönsku ríkisstjórnarinnar um að taka aftur upp guðlastsákvæði í hegningarlög

Norræn samtök húmanista mótmæla harðlega tillögu dönsku ríkisstjórnarinnar um að taka aftur upp guðlastsákvæði í hegningarlög

Í ýmsum ríkjum Evrópu eru enn við lýði lög sem banna guðlast, og í öðrum ríkjum er tilvist þessara laga nýtt til að réttlæta eigin löggjöf um guðlast. Slík löggjöf leiðir víða til þess að fólk er sent í fangelsi – og jafnvel dæmt til dauða fyrir eðlilega gagnrýni á trúarbrögð, eða einungis fyrir að vera öðruvísi og stunda ekki trúarbrögð.

Í Nígeríu afplánar félagi okkar og vinur, Mubarak Bala, nú 24 ára fangelsisdóm fyrir guðlast, eftir að hann lýsti því yfir að hann væri trúleysingi. Það sæmir ekki siðmenntuðu samfélagi að hægt sé að setja fólk í fangelsi fyrir að hafa gagnrýnt hugmyndakerfi eða hafa aðrar trúarskoðanir en meirihlutinn í landinu.

Það að brenna bók er aðgerð sem felur í sér tjáningu. Það er einfalt að gagnrýna slíkt verk og lýsa sig ósamþykkan því sem í því felst. Að brenna Kóraninn er ósæmilegt tjáningarathæfi. Í ákveðnu samhengi getur slíkur verknaður talist rasísk eða trúarbragðaleg ógnun eða smánun.

Fortakslaust bann við „óviðeigandi meðferð á gripum sem hafa trúarlega þýðingu fyrir trúarsamfélög“, eins og það sem dönsk stjórnvöld hyggjast nú leiða í lög, jafngildir því að endurvekja forn guðlastslög með sérstakri vernd trúargripa sem slíkra.

Slík lög mundu til dæmis gera verk nútímalistamannsins Andrésar Serranos, Niðurdýfing (Hlandkristur), ólöglegt. Með þeim yrðu venjulegir dauðarokkstónleikar nánast úr sögunni. Þau myndu gera uppistandara eða grínista illkleift að taka biblíu með sér á svið sem hluta af sínu atriði. Í guðlastslögum felst árás á grundvallarfrelsi sem við höfum í okkar heimshluta lengi tekið sem sjálfsögðum hlut.

Sem húmanistar tökum við skýra afstöðu gegn endurupptöku guðlastslaga í heimalöndum okkar. Við væntum þess af stjórnmálamönnum að þeir finni aðrar leiðir til að bregðast við í þeim tilvikum þegar tjáning fer yfir mörkin og breytist í hótanir, hatursorðræðu og önnur brot á lagaákvæðum um eðlilegar takmarkanir tjáningarfrelsis. Að veita trúarlegum gripum eða hugmyndum sérstaka vernd er ekki góð ráðstöfun.

 

Til baka í yfirlit