Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2015 á Akureyri – ræða

Ræða sem Sigrún Stefánsdóttir forseti hug- og félagsvísindasviðs HA flutti við borgaralega fermingu í Hofi á Akureyri 30. maí 2015.

Sá á kvölina sem á völina

Kæru vinir.

Þetta er stór dagur fyrir ykkur og hann er líka stór fyrir mig. Þetta er nefnilega í fyrsta skipti sem ég er viðstödd borgaralega fermingu. Mér þykir þetta falleg athöfn og fallegur hópur, sem situr hér fyrir framan mig á fyrsta bekk.

Mér þykir gaman að tala við börn og unglinga. Ég reyni að umgangast þennan aldurshóp eins mikið og ég get. Og niðurstaða mín er sú að mér þykja börn skemmtilegust á árunum 2-6 ára því þá eru þau að uppgötva heiminn og svo aftur þegar þau eru á aldrinum 12-16 ára því þá eru þau að uppgötva sjálf sig – þá eru þau farin að spyrja spurninga um lífið og tilveruna – um framtíðina og farin að þurfa að velja og hafna. Þar eruð þið einmitt stödd.

Stundum er talað um að þegar maður fermist sé verið að taka þann sama í tölu fullorðinna – ég er svolítið ósátt við þetta viðhorf sem má misskilja. – Maður er ekki barn einn daginn og fullorðinn næsta dag. Það er betra að líta á þessi tímamót sem áfanga í þroskaferli en ekki einhvers konar stökkbreytingu úr barni í fullorðinn einstakling. Þetta er ekkert hókus pókus – nú er ég fullorðinn og má allt. Það er alls ekki þannig.

Þið eruð á þeim stað í lífinu þar sem þið viljið prófa ykkur áfram og fá að ákveða sjálf hvaða leiðir þið farið. Það er eðlilegt.

Og það er einmitt þetta með valið – val um leiðir sem mig langar til að tala um. Og þess vegna kalla ég þessa litlu tölu mína – Sá á kvölina sem á völina

Ég er ein af þeim sem fermdust í kirkju, í Akureyrarkirkju. Það er rosalega langt síðan það var eða 9. apríl 1961 eða rétt eftir miðja síðustu öld? Þá var ekki í boði borgaraleg ferming. Svo annað hvort fermdist maður í kirkju eða maður fermdist ekki.

Þegar ég var stelpa létu eiginlega allir ferma sig. mig minnir að ég hafi aldrei velt því fyrir mér hvort ég ætti að fermast eða hvort ég gæti sloppið við það. En ég man líka að mig langaði ekkert til að fermast. Fannst þetta allt svolítið hallærislegt og vandræðalegt.

Þegar ég loka augunum og fer aftur í tímann, til 9. apríl, 1961 – þá sé ég fyrir mér stelpu sem átti heima hérna rétt hjá- úti í Gránufélagsgötu. Mér fannst ég ljót. Nefið á mér var of stórt og ég var með bollukinnar og gleraugu. – Ég sem vildi vera kinnfiskasogin með dökka bauga undir augunum. Sumar stelpur gengu svo langt að láta draga úr sér öftustu jaxlana til þess að verða kinnfiskasognar og dramatískar – Ég var alls ekki dramatísk í útliti. Ég var með sama háralit og mýsnar og þar að auki með krullur – en vildi vera með sítt og slétt hár, helst kolsvart. Ég var ekki með nein brjóst en of stóran rass. Ég var óörugg og feimin.

Við vorum tvær vinkonur sem fórum og keyptum okkur eins támjóa skó með örlitlum hælum sem við kunnum ekki að ganga á. Við keyptum eins efni í fermingarkjólana ! Toppurinn var svo að mamma pantaði handa mér lagningu. Ég fór eldsnemma á fætur á fermingardaginn og í lagningu hjá einhverri konu uppi í Brekkugötu – Þegar ég leit í spegill á eftir fannst mér ég horfa á gamla kerlingu það var ég. Ég hljóp heim í einum grænum og skellti hausnum á mér undir kranann og skolaði alla fínu lagninguna úr.

Fermingin sjálf gekk slysalaust fyrir sig og við sögðum – já – á réttum stað.

Seinni partinn var kaffiboð fyrir fjölskylduna heima í stofu í Gránufélagsgötunni og ég fékk einhverjar gjafir. Verst þótti mér að ég fékk ekki gullhring eins og allar hinar stelpurnar fengu. Það var svolítið erfitt, sérstaklega þegar þær voru að bera hringana sama á mánudeginum þegar við komum næst í skólann. Ég fékk einhverja peninga sem dugðu fyrir kaupum á rússneskri myndavél – sem bróðir minn fékk lánaða og fór með til Eyja um verslunarmannahelgina og týndi henni þar. –

Sálmabók árituð Sigrún Stefánsdóttir, á fermingardaginn 9. apríl, frá mömmu, er það eina sem ég á enn sem ég fékk í gjöf. Þetta var skrifað með fallegri rithönd pabba.

Þessi litla saga um mína fermingu staðfestir að þetta var alls ekki besti dagur í lífi mínu. Og kannski hefði ég haft þetta öðru vísi ef mér hefði fundist ég hafa val.

Svo leið tíminn. Ég eignaðist tvo syni. Við létum skíra þann eldri en völdum að skíra ekki þann yngi. Þegar hann var 9 ára þá fór hann að hafa áhyggjur af þessu og vildi láta skíra sig. Ég leit svo á að það væri hans val og hann var svo skírður í barnamessu uppi í Kjós. Ekki setur maður 9 ára strák í skírnarkjól með bláan borða ! Ég keypti því handa honum fallega peysu – skírnarpeysu, hún var vel stór þannig að hann notaði hana alveg þar til hann var 12 ára. Svo spilaði hann á trompet fyrir börnin í kirkjunni og þetta var mjög hátíðlegt. Þegar hann var ykkar aldri, átti fjölskyldan heima í Bandaríkjunum og hann gekk til prestsins í gegnum nokkurs konar bréfaskóla. Ég held nú að hann hafi ekki lært mikið í fræðunum –

kannski faðir-vorið og fermdist svo í sömu kirkju í Kjós – aleinn um sumarið og var bara mjög sáttur.

Þegar eldri sonur minn eignaðist börn lét hann skíra og ferma þau öll

en þessi yngri- sem hafði svo mikið fyrir því að láta skíra sig og ferma – valdi að sleppa því að láta skíra sína syni.

Og svo á eftir að sjá hvað þeir sjálfir gera þegar þeir verða eldri. Það verður sonanna að velja.

Það er mikilvægt að kunna að velja og þora að velja og standa með sínu vali.

Ég man eftir því þegar ég var stelpa þá tók ég þá ákvörðun að ég ætlaði ekki að byrja að reykja eins og krakkarnir í kringum mig. Ég vildi ekki hryggja mömmu með því að fara að reykja. Þetta var ótrúlega mikilvægt val – ekki mömmu vegna heldur sjálfrar mín vegna. En þetta var val sem gerði þá kröfu til mín að ég væri nægilega sterk til að segja við hina krakkana – þetta hentar mér ekki. Það er nefnilega allt í lagi að prófa ekki allt og kunna að segja nei.

Þegar maður er á ykkar aldri, 13-14 ára, þá þurfið þið að vera að velja – alveg endalaust.

Hvers konar val er ég að tala um – jú það eru spurningar eins og þessar:

Ætla ég að standa mig í skólanum eða ekki – það er val og kostar vinnu.

Ætla ég að láta drauminn minn um að verða íþróttakona rætast – það er val. Það krefst þess að ég noti mikinn tíma í æfingar, haldi mig frá vímuefnum og borði hollan mat. Get ég heldur ekki farið eins oft í bíó og hinir krakkarnir.

Ég er stelpa en ég ætla í tölvunarfræði eða sjávarútvegsfræði – það er val, sem staðfestir að ég þori að fara mínar eigin leiðir.

Ég er strákur og ætla í hjúkrunarfræði – það er val, sem staðfestir sjálfstæði.

Ég sagði áðan sá ætti kvölina sem ætti völina – sem þýðir að það er stundum erfitt og flókið að velja. En það eru hins vegar alveg ótrúleg gæði að vera í þeirri aðstöðu að geta valið. Það eru til börn úti í heimi sem eiga ekkert val um hvað þau ætla að læra og verða þegar þau verða fullorðin. – ef þau ná að verða fullorðin Lífið þeirra snýst kannski bara um það eitt að fá mat til þess að lifa daginn af eða finna skjól fyrir byssukúlum öfgamanna svo þau verði ekki skotin.

Þið sem eruð hér í dag hafið miklu meira val en foreldrar ykkar og afar og ömmur höfðu þegar þau voru á ykkar aldri.

Samfélagið breytist ótrúlega hratt og kannski eigið þið eftir að vinna störf sem eru alls ekki til í dag og sem ekkert okkar getur spáð fyrir um.

Tölvur og ipadar voru ekki til þegar ég var stelpa. Þegar þið verðið orðin fullorðin verða örugglega komin alls konar tæki sem eru ekki til í dag, sem þið þurfið að læra að nota. Við erum alltaf að mæta einhverjum nýjungum og áskorunum svo lengi sem við lifum.

Þess vegna er mikilvægt að þið séuð með hugan opinn – og farið vel með tímann ykkar á næstu árum því hann leggur grunn að svo mörgu og mikilvægu. Það að vinna vel í skólanum og nýta tímann vel skapar ykkur frelsi til að velja og getur haft áhrif á allt lífið ykkar.

Næstu fimm árin eða svo eru ótrúlega mikilvæg og geta alveg mótað framtíðina ykkar. Munið því að vanda valið – Munið líka að þó að þið hafið valið einhverja stefnu í lífinu sem þið uppgötvuð að var kannski ekki alveg sú rétta – þá hafið þið líka það mikilvæga val – að mega skipta um stefnu og fara nýja leið í lífinu.

Verið líka dugleg við að tala við fjölskylduna ykkar – þar er fólkið sem elskar ykkur mest og vill ykkur best. Ekki hætta að tala við fjölskylduna þó að þið séuð orðin táningar. Á þessum árum er það mikilvægara en nokkru sinni fyrr að leita til hennar. Munið svo að þið getið allt sem þið ætlið ykkur og gangið brosandi inn í framtíðina.

Svona að lokum þá óska ég ykkur til hamingju með þennan merkilega áfanga og vona að ykkar dagur verði skemmtilegur og ógleymanlegur.

Takk fyrir að leyfa mér að vera með ykkur hér í Hofi.

Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs, HA

Til baka í yfirlit