Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Tatjana Latinovic á BF 2006

Kæru börn og fjölskyldur,

Innilega til hamingju með daginn! Það er mér sannarlega heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag. Ég er ekki óvön því að halda ræðu en þetta skipti er dálitið ólíkt því sem ég hef gert áður, sérstaklega í ljósi þess að ég hef mjög litla þekkingu á fermingum og því sem í þeim fellst. Mér reiknast til að þið voruð tveggja ára þegar ég flutti til Íslands. Á þessum árum sem ég hef búið hér á landi hef ég reyndar sótt nokkrar fermingarveislur og gat ekki komist framhjá því að fylgjast með fermingartískunni og hvernig hún breytist frá ári til árs, enda nóg af auglýsingum í kringum okkur sem höfða til ykkar kæru krakkar á vormánuðum. Talandi um tískuna, þá gleður mig að sjá að tíska í dag er ekki ólík tískunni sem ég og jafnaldrar mínir eltumst við á fyrri hluta níunda áratugarins, þá á sama aldri og þið eruð núna. Hins vegar bjuggum við á öðrum stað á þessum bláa hnetti okkar allra, í landi langt í burtu þar sem fermingar tíðkuðust ekki. Þær voru ekki til. Reyndar vandast málin fyrir mig þegar ég reyni að útskýra fyrir einhverjum heima hvað ferming er, þar sem ég hef enn ekki fundið rétta orðið á serbnesku yfir fermingu. Samt, hér er ég í dag og mér skilst að í ykkar hópi er stúlka frá mínu heimalandi. Svona getur lífið lumað á skemmtilegum snúningum. Gaman af því.

 

Það hlýtur að vera stórfenglegt að vera fjórtán ára og taka það skref sem þið eruð að taka og vera komin í fullorðinna manna tölu. Í mínu landi gerist þetta við átján ára aldur, þannig að þið eruð með aldeilis forskot. Unglingsárin eru skemmtileg og krefjandi, það man ég frá því að ég var á ykkar aldri. Manni finnst maður þurfa að sanna sig og finna sér einhverja sérstöðu en á sama tíma vill maður helst ekki stinga of mikið í stúf og skera sig úr frá öðrum, vill vera hluti af hópnum.
Þið sem hafið tekið þessa ákvörðun að taka þátt í borgaralegri fermingu frekar en að fara sömu leið og foreldrar ykkar, afar og ömmur hafa gert, hafið væntanlega tekið þessa ákvörðun sjálf. Fyrir það eigið þið hrós skilið en líka fjölskyldur ykkar sem studdu ykkur í því. Þótt að það gæti verið auðveldara að fara eftir troðnum leiðum og fylgja meirihluta í sömu átt er meira gefandi að fara nýjar leiðir og fá að upplifa nýja hluti. Það hlýtur að sitja lengur í manni.
Mér skilst að í fermingarundirbúningi ykkar hafið þið velt fyrir ykkur hlutum eins og gagnrýnni hugsun, umburðarlyndi og rétt okkar allra til að vera öðruvísi. Þetta eru nauðsynlegir hlutir en ekki sjálfgefnir. Einhverra hluta vegna erum við menn þannig að þessi atriði koma ekki af sjálfu sér til okkar, við verðum að leggja okkur fram við að læra þau. Sumum tekst að tileinka sér þessi gildi, öðrum því miður ekki. Einhver gæti spurt, er nauðsynlegt að beita gagnrýnni hugsun – þarf maður að velta hlutunum fyrir sér fram og til baka ef það er til leið sem hægt er að fara án erfiðis, fylgja bara einhverri uppskrift? Vissulega er það hægt og margir eflaust kjósa að fara þá leið en með því eykst hætta á að hlutirnir fari fram hjá manni eða að sá sem það gerir einfaldlega nær ekki að fá það besta úr lífinu og því sem það hefur uppá að bjóða. Hvort sem við viljum viðurkenna það eða ekki, þá finnst okkur öllum gott að skilja eftir okkur einhver spor. Það gerum við með því að reyna að hafa áhrif á okkar umhverfi, hvort sem það er með orðum eða gerðum. Að auki er það líklegra að sporin eftir okkur vari um langan aldur ef við erum einlæg í því sem við gerum.

Ég er titluð í dag sem Formaður samtaka kvenna af erlendum uppruna. Samtökin sem ég er í forsvari fyrir reyna að ljá hagsmunum og áhugamálum ákveðins hóps í samfélaginu rödd, það er að segja fólks af erlendum uppruna. Það sem gerir okkur sem hóp öðruvísi eru framandi nöfn, fjölbreytilegra útlit og eins og þið heyrið þegar ég tala núna, öðruvísi framburður á íslensku. En hvað er eitt stykki hreimur milli vina á meðan við skiljum hvort annað? Oft er talað um það að útlendingar sem setjast hér að, auki fjölbreytileika samfélagsins með sinni reynslu, siðum og venjum. Þið heyrið fleiri tungumál í stórmörkuðum og getið fengið ykkur kínverskan, tælenskan, mexíkanskan eða ítalskan mat og ykkur finnst ekkert sjálfsagðara en að foreldrar ykkar hafi margir hverjir ekki alist upp við þetta. Ég hef sjálf ekki alist upp við þetta úrval þótt að mataræði í minni bernsku hafi verið öðruvísi en dæmigert íslenskt. Í fyrsta sinn sem ég hitti Íslending var það í næturlest í Þýskalandi á háskólaárum mínum. Eins og mörg hundruð önnur ungmenni höfðum við ferðast vítt og breitt um Evrópu í leit að nýjum upplifunum. Mér fannst það merkilegt þá að hafa hitt Íslending en í dag á ég fleiri íslenska vini en serbneska. Ég á meira að segja íslensk börn og fjölskyldu. En það er ekki bara ég sem eyk fjölbreytileika í þessari íslensku fjölskyldunni minni. Það er hver einasta manneskja í henni.
Ykkur eru allir vegir færir. Lífið er skemmtilegt. Njótið þess hvernig sem þið viljið.
Tatjana Latinovic
Formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi

Til baka í yfirlit