Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaralegar athafnir

Mér finnst ekki úr vegi að í þessum helsta trúarumræðudálki íslenskra dagblaða, sem Bréf til blaðsins óneitanlega er, komi fréttir af okkur efasemdarmönnunum.

Mánudaginn 20. apríl fór fram fjórða borgaralega fermingin hérlendis. Fjöldi fermingarbarna var mjög svipaður og undanfarin ár, eða 15 talsins. Um 250 manns voru viðstaddir athöfnina, sem fram fór í menningarmiðstöðinni Hafnarborg. Dagskrá var fjölbreytt: tónlist, söngur, upplestur og ávörp. Ræðumenn dagsins voru rithöfundarnir Sigurður A. Magnússon og Sjón. Sigurður lagði í orðum sínum áherslu á dýrmætasta frelsið væri hið innra frelsi. í því fælist viljinn til að vera sjálfstæður, fylgja ekki fjöldanum í öllu, til að mynda neysluvenjum og lífsskoðunum. Sjón notaði tækifærið í sínu erindi til að eiga stefnumót við unglinginn í sjálfum sér. Nokkuð langt væri um liðið síðan hann hefði yrt á þann kumpána.

Að mati okkar í Siðmennt eru borgaralegar fermingar nú að festast varanlega í sessi. Slíkt er mjög ánægjulegt því að viðeigandi sé að bjóða alla einstaklinga velkomna í fullorðinna manna tölu hverjar sem lífsskoðanir þeirra séu.

En Siðmennt hefur ekki aðeins staðið fyrir fermingum. Hún hefur einnig stundað ráðgjöf varðandi borgaralegar útfarir. Nýkominn er út bæklingurinn „Borgaraleg útför, annar möguleiki.“ Augljóst er að þörf hefur verið fyrir hann, því að viðbrögð við honum hafa verið bæði öflug og jákvæð. Dreifing hans hefur af þeim sökum gengið mun hraðar en búist hafði verið við. Bæklinginn má fá ókeypis hjá stjórnarmönnum Siðmenntar, t.d. Helga (s. 641613) eða Hope (s. 73734). Fyrir þá sem vilja fá nánari upplýsingar verður hins vegar umræðu og kynningarfundur um borgarlega útför miðvikudaginn 13. maí kl. 20.30 á Hverfisgötu 21 (húsi Félags bókagerðarmanna).

HELGI M. SIGURÐSSON, formaður Siðmenntar, félags um borgaralegar athafnir, Fagrahjalla 4, Kópavogi.

Til baka í yfirlit