Fara á efnissvæði

Hvað er húmanismi?

Húmanismi er lýðræðisleg og siðræn lífsskoðun sem staðfestir að manneskjan hefur rétt á því að móta líf sitt og gefa því merkingu. Húmanismi stuðlar að því að byggja upp mannúðlegt samfélag á grundvelli siðferðiskerfis sem endurspeglar mannleg og náttúruleg gildi í anda rökhyggju og óháðrar athugunar á forsendum mannlegrar hæfni. Húmanismi er guðlaus og hafnar yfirnáttúrulegum túlkunum á tilverunni.

 - Húmanismi í hnotskurn, Humanists International

Hvað er að vera húmanisti?

Fyrir húmanista er engin guðleg forsjón eða heilagur tilgangur. Húmanistar telja að við gefum lífi okkar tilgang sjálf, með því að segja okkar eigin sögur og setja okkar eigin markmið. Húmanistar finna virðið í sjálfum sér og öðru fólki, og virða persónuleika og reisn hverrar manneskju. Við erum vitibornar tilfinningaverur, þar sem hver einstaklingur skiptir máli. Húmanistar telja að við þurfum að nota skynsemi og reynsluheim okkar til þess að skilja heiminn. Við getum notað sköpunarkraftinn til að dýpka tilfinningagreind okkar og samkennd, en höfnum því að treysta í blindni á vald að ofan, sem sum myndu skilgreina sem guðlega opinberun.

Hvað eru húmanísk gildi? 

Húmanísk gildi eru sammannleg gildi sem byggjast á því að taka ábyrgð á því að gæta velferðar allra lifandi vera og jarðarinnar okkar. Amerískir húmanistar hafa tekið saman Loforðin 10, sem eru tíu gildi húmanista og loforð okkar um að leggja okkar að mörkum til þess að byggja upp lýðræðislegt samfélag þar sem við virðum, styðjum og hlúum að virði hvers einstaklings, og þar sem frelsi og ábyrgð manneskjunnar eru í hendi. 

Loforðin 10 eru:

  • Ósérplægni
  • Gagnrýnin hugsun
  • Samkennd
  • Umhverfisvernd
  • Siðferðisþroski
  • Hnattræn hugsun
  • Auðmýkt
  • Friður og félagslegt réttlæti
  • Ábyrgð
  • Þáttaka og hjálpsemi

Stefna húmanista

Húmanistar hafa komið sér saman um stefnu, sem endurspeglast í Amsterdam-yfirlýsingunni sem samþykkt var á heimsþingi húmanista árið 2002. Íslenskir húmanistar hafa einnig komið sér saman um stefnuskrá Siðmenntar, sem tekur meira tillit til þeirra aðstæðna sem eru fyrir hendi hér á Íslandi. Þú getur lesið nánar um stefnu húmanista með því að smella á hlekkina hér að neðan.