Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Siðmennt vill að trúfélög fái heimild til að gefa saman samkynhneigð pör

Að gefnu tilefni vill Siðmennt ítreka þá afstöðu sína að samkynhneigðir eigi að njóta sömu réttinda og aðrir í íslensku samfélagi.

Fyrir rúmu ári sendi Siðmennt Allsherjarnefnd Alþingis umsögn sína um frumvarp til laga um réttarstöðu samkynhneigðra. Í greinargerð félagsins kom skýrt fram að Siðmennt studdi eindregið þær breytingar sem lagðar voru til á réttarstöðu samkynhneigðra samkvæmt lögum. Enn fremur kom fram í umsögn Siðmenntar skýr vilji til þess að lögum um hjúskap yrði breytt:

 

„Siðmennt hvetur Allsherjarnefnd einnig heilshugar til að gera breytingar á hjúskaparlögum þannig að skráð trúfélög öðlist rétt til að gefa saman samkynhneigða einstaklinga. Siðmennt minnir á að með slíkri breytingu yrði skráðum trúfélögum heimilt en ekki skylt að gefa saman samkynhneigða.

Ekkert mælir á móti slíkri lagabreytingu enda verður trúfélögum frjálst að velja hvort þau vilja nýta sér umrædda heimild. Það besta við slík lög er að þau myndu auka réttarstöðu samkynhneigðra umtalsvert án þess að skerða rétt trúfélaga til að taka ákvörðun á eigin forsendum.

Nánari upplýsingar veitir
Sigurður Hólm Gunnarsson
Varaformaður Siðmenntar
siggi@skodun.is
898-7585

Til baka í yfirlit