Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Siðmennt gagnrýnir skort á samráði

Siðmennt gagnrýnir skort á samráði

Siðmennt er ein af fimmtán félagasamtökum sem hvetja ríkisstjórnina til að stíga til baka og leita samráðs áður en lengra er haldið með frumvarp dómsmálaráðherra um útlendingalöggjöf. 

Yfirlýsingin í heild sinni:

Skortur á samráði við gerð frumvarps til breytinga á lögum um útlendinga

Alþingi hefur nú lokið fyrstu umræðu um frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum. Frumvarpið er nú endurflutt í fjórða sinn en í örlítið breyttri mynd frá því frumvarpi sem birt var til umsagnar í Samráðsgátt í lok janúar sl. Endurtekið hefur komið fram fjöldi umsagna um efni frumvarpsins og því ljóst að það er mjög umdeilt. Eftirtaldir aðilar lýsa því yfir áhuga og vilja á því að koma á samráði og samvinnu um mótun laga í málaflokknum. Útlendingalöggjöfina þarf að þróa áfram af ábyrgð og raunsæi til framtíðar. Til að tryggja víðtæka sátt er mikilvægt að auka traust og gagnsæi um ákvarðanir útlendingayfirvalda, sem og móta skýra og heildstæða stefnu í málaflokknum, enda væri það í anda stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar og markmiða hennar. Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis hefur nú sent frumvarpið til umsagnar á ný. Núverandi frumvarp er í meginatriðum það sama og áður hefur verið birt til umsagnar í Samráðsgátt. Í umsögnum um fyrri útgáfu frumvarpsins hafa umsagnaraðilar frá stofnunum og samtökum lýst yfir skorti á samráði við gerð frumvarpsins auk verulegra vankanta á efni frumvarpsins. Áríðandi er að mikilvægar lagabreytingar eins og þessar séu unnar í samráði og samtali við aðila sem starfa við málaflokkinn og hafa til þess sérþekkingu og reynslu. Við vinnslu núverandi frumvarps var lítið horft til þess. Þess ber að geta að lög um útlendinga sem tóku gildi í upphafi árs 2017 voru unnin í þverpólitísku og þverfaglegu samráði og fólu í sér verulegar réttarbætur fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi. Mikilvægt er að verndarkerfið sé í stakk búið til að mæta þeim aðstæðum sem uppi eru hverju sinni en það er ekki síður mikilvægt að breytingar séu unnar í sátt og samráði við fagaðila. Í fyrstu umræðu Alþingis um frumvarpið kom fram að mikil vinna væri fyrir höndum fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og að frumvarpið þurfi að skoða gríðarlega vel, bæta þurfi kerfið og jafnvel kalla til sérfræðinga ef þörf er á. Við viljum því með þessari sameiginlegu yfirlýsingu benda á að áður en lög sem þessi eru mótuð og skrifuð teljum við rétt að samráð verði haft við alla þá hagsmunaaðila sem að málaflokknum koma svo lögin tryggi að réttindi þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd séu vernduð og virt í hvívetna. Þá fyrst verður hægt að ná þeirri þverfaglegu sátt sem tókst við mótun fyrri laga. Við skorum því á ríkisstjórnina að stíga skref til baka, dýpka samtalið og samráðið og þannig ná faglegri sátt líkt og áður hefur tekist.

15 logos for Icelandic NGO's

Til baka í yfirlit