Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Fögnum unglingsárunum

BARN þroskast og verður að unglingi og síðar fullorðið. Trúlega voru skilin skarpari fyrr á öldum og unglingshlutverkið varla til. En unglingsárin eru mikilvæg og gegna hlutverki í nútíma samfélagi. Þau eru tími mikilla breytinga hjá unglingum. Þau eru mótunarár fyrir verðandi sjálfstæðan einstakling. En umgjörð sú sem þjóðfélagið býður unglingum hefur afgerandi áhrif á hvernig til tekst. Það er spennandi verkefni að bæta aðbúnað unglinga.


Hefð er fyrir því að fagna þegar barnsárunum lýkur. Hér á landi hafa þessi tímamót verið tengd trúarlegri athöfn eða fermingu. Fermingarundirbúningur eins og hann hefur verið hjá kirkjunni er barn síns tíma. Þeir sem hafa viljað breyta til og undirbúa unglinga undir lífið og fagna þessum tímamótum á annan hátt hafa ekki átt úr mörgu að velja. Félagið Siðmennt vill koma til móts við ný viðhorf unglinga og býður upp á annars konar athafnir.

Tilgangur með borgaralegri fermingu er að efla heilbrigð og farsæl viðhorf unglinga til lífsins og kenna þeim að bera virðingu fyrir manninum, menningu hans og umhverfi. Fermingarbörnin sækja vönduð námskeið þar sem þau læra sitt af hverju til undirbúnings þess að verða fullorðinn. Meginviðfangsefni eru mannleg samskipti, mannréttindi, siðfræði, lífsviðhorf, tilfinningar, kynlíf, varnir gegn vímuefnum og umhverfismál. Unglingarnir koma saman vikulega í 12 vikur. Að því loknu fer fram hátíðleg athöfn í opinberum sal. Þar er dagskrá með stuttum ávörpum, söng, spili og ljóðalestri og ungmennunum er afhent skjal sem staðfestir þátttöku þeirra. Framhaldið er í höndum hverrar fjölskyldu. Í fyrra fermdust 50 börn borgaralega á höfuðborgarsvæðinu og 2 á Norðurlandi. Til að fá frekari upplýsingar um borgaralega fermingu er bent á heimasíðu Siðmenntar: http://www.islandia.is/sidmennt. Einnig er hægt að hringja í Siðmennt. Kynningarfundur um borgarlega fermingu verður haldinn laugardaginn 25. október kl. 11-13 í Kvennaskólanum en skráningarfrestur er til 1. nóvember.

HOPE KNÚTSSON,
formaður Siðmenntar.

Morgunblaðið 15. október, 1997

Til baka í yfirlit