Fara á efnissvæði

Siðmennt í hnotskurn

Siðmennt er félag siðrænna húmanista á Íslandi. Félagið er veraldlegt lífsskoðunarfélag og hefur að viðfangsefni þau viðhorf og lífsgildi sem eru persónulega mikilvæg og náin hverjum einstaklingi í leit að tilgangi og hamingju í lífinu. Siðrænir húmanistar leggja áherslu á að rækta siðræn gildi og þekkingarleit án vísana í yfirnáttúrleg fyrirbrigði. Siðmennt lítur svo á að sannfæringarfrelsi, trúfrelsi og tjáningarfrelsi teljist til almennra lýðréttinda. Þau skuli ná til allra og þau megi hvorki afnema né skerða undir neinum kringumstæðum.

Félagið var stofnað árið 1990 í kringum borgaralega fermingu en þróaðist fljótt í að vera fullgilt húmanískt félag með aðild að alþjóðasamtökum húmanista (e. Humanist International, HI). Hugtakið lífsskoðunarfélag (life stance organization) nær á alþjóðavísu yfir félög af bæði trúarlegri og veraldlegri sannfæringu og gerir ekki upp á milli þeirra. Siðferðismál, þekkingarfræði og fjölskyldan eru kjarni þeirra viðfangsefna sem Siðmennt sinnir. Félagið býður nú upp á athafnarþjónustu fyrir helstu tímamót lífsins; fæðingu, fermingu, hjónaband og lífslok.

Siðmennt í tölum

5402

Félagar

skráðir í Siðmennt 1. janúar 2023

613

Athafnir

árið 2022

675

fermingarbörn

árið 2022

Saga Siðmenntar

1990
Félag um fermingar

Seint á níunda áratugnum sameinuðust nokkrir foreldrar um það að bjóða börnum sínum upp á borgaralega fermingu, óháð trúarlegum kennisetningum. Í fyrsta fermingarhópnum voru 16 börn sem fermdust borgaralega vorið 1989.

Siðmennt – félag um borgaralegar athafnir var svo stofnað árið 1990 og bar þetta nafn fram til ársins 2005. Frá stofnun þess hefur félagið haldið undirbúningsnámskeið og séð um borgaralegar fermingar ár hvert. Fermingarathafnirnar njóta sívaxandi vinsælda og fleiri og fleiri börn velja þennan valkost á hverju ári.

2008
Athafnarþjónusta Siðmenntar stofnuð

Stjórn félagsins fann fyrir miklum áhuga á því að bæta við valkostum við aðrar athafnir, svo sem útfarir og við barnsfæðingar. Félagið setti sér því það markmið að koma á fót faglegri athafnaþjónustu í stíl við það sem tíðkaðist í nágrannalöndum okkar í Norður-Evrópu. Það var loks í mars 2007 að fyrsta stóra skrefið var stigið í þessa átt með námskeiði fyrir athafnarstjóra og var þjálfari á vegum norsku húmanistasamtakanna fenginn til að stýra því. Athafnarþjónusta Siðmenntar hóf störf sín formlega þann 29. maí 2008. Fyrstu athafnir félagsins, aðrar en fermingarathafnir, voru haldnar á árunum 2007 og 2008.

2005 - 2013
Fermingarfélag verður lífsskoðunarfélag

Á aðalfundi Siðmenntar í febrúar 2005 urðu nokkur þáttaskil í sögu félagsins að því leyti að með nýjum lögum sem samþykkt voru á fundinum, var það skilgreint sem húmanískt félag og fullu nafni þess breytt í: Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi. Einnig var ný stefna samþykkt, en hún var í samræmi við þau almennu siðferðisgildi sem alþjóðasamtök húmanista samþykkti með yfirlýsingu á alþjóðaþingi sínu árið 2002 og kennd var við Amsterdam líkt og sú fyrsta frá 1952. Á aðalfundi Siðmenntar í febrúar 2008 var lögum og stefnu félagsins breytt á þá leið að félagið skilgreindi sig sem lífsskoðunarfélag (e. life stance organization), en sú skilgreining byggir á því að félagið fjalli um siðferði, þekkingarfræði og félagslegar athafnir fjölskyldna, rétt eins og trúarleg lífsskoðunarfélög gera jafnan. Hugtakið lífsskoðunarfélag gerir ekki upp á milli félaga af veraldlegri eða trúarlegri sannfæringu og innifelur hvoru tveggja.

Eftir ötula baráttu hugsjónarfólks úr röðum Siðmenntar var félagið formlega skráð sem lögformlegt lífsskoðunarfélag þann 3. maí 2013 samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi þann 30. janúar 2013. Þessi lögformlega skráning gerir félaginu kleift að taka við sóknargjöldum úr ríkisjóði sem byggir á félagsaðild hverju sinni, auk þess að gefa athafnarstjórum félagsins réttindi til þess að gefa saman pör á löglegan máta. Þetta hefur bætt mikið réttarstöðu Siðmenntar sem veraldlegt lífsskoðunarfélag og er nú komin á par við réttindi almennn trúfélög en enn er Þjóðkirkjan með ríkuleg sérréttindi bæði fjárhagslega og félagslega.

Málsvari húmanista

Félagið hefur gegnum árin gengist fyrir umræðufundum um ýmis mál er tengjast manngildisstefnu (siðrænum húmanisma) eða veraldlegum athöfnum. Má þar nefna málefni sem lýst er í stefnuskrá félagsins, húmanisma, trúarbragðafræðslu í skólum, mannréttindi jaðarhópa, trúarskoðanir, öfgar, kvenréttindi, sorg og sogarviðbrögð og fleira. Félagið hefur jafnframt verið þrýstiafl á yfirvöld í baráttu sinni fyrir veraldlegu samfélagi og veitt almenningi ráðgjöf varðandi réttindi sín í trúfrjálsu samfélagi. Siðmennt tekur ekki beina afstöðu í stjórnmálum og félagsmálum. Undantekning er þó ósk félagsins um jafna stöðu allra trúarbragða og lífsskoðana sem m.a. hlýtur að hafa í för með sér aðskilnað ríkis og kirkju á Íslandi. Jafnframt hefur Siðmennt verið reglulegur umsagnaraðili hjá nefndasviði Alþingis en félagið er jafnan beðið um álit á lagafrumvörpum í vinnslu sem koma að mannréttindum eða siðferðilegum álitamálum.