Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Vinaleið: Menntamálaráðherra hvattur til að svara erindi Siðmenntar

Fréttatilkynning
Samkvæmt fréttum Stöðvar 2 þriðjudaginn 6. mars, þar sem fjallað er um álit menntamálaráðherra á Vinaleið Þjóðkirkjunnar, kemur fram að ráðherra telur ekki að um trúboð sé að ræða. Að auki telur ráðherra að starfsemin stangist ekki á við starf faghópa heldur sé viðbót við þjónustu skólans við nemendur. Þessi afstaða ráðherrans kemur á óvart enda hefur ráðherra ekki enn svarað erindi Siðmenntar frá 3. október 2006, þar sem hann er inntur eftir afstöðu sinni til Vinaleiðar.


Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, harmar afstöðu ráðherra og telur víst að hann hafi ekki skoðað öll rök í málinu. Siðmennt veit fyrir víst að starf Vinaleiðar er trúarleg starfsemi, og í sumum tilfellum hreint trúboð, og rökstyður það með gögnum kirkjunnar sjálfrar. Slík starfsemi er í besta falli afar óviðeigandi og líklegast lögbrot.

Í nýlegum kompásþætti lét Karl Sigurbjörnsson biskup eftir sér hafa ummæli þar sem hann beinlínis viðurkennir að starfsemin feli í sér mismunun: “Vinaleið er nýbreytni, tilboð af hálfu kirkjunnar um sálgæslu gagnvart grunnskólabörnum, sem vel að merkja, gagnvart grunnskólabörnum sem eru í Þjóðkirkjunni.”

Opinberir skólar eru fyrir alla
Að gefnu tilefni skal það ítrekað að:

– Siðmennt er ekki á móti trúboði.
– Siðmennt er ekki á móti Vinaleið Þjóðkirkjunnar.
– Siðmennt er ekki á móti kristni né öðrum trúarbrögðum.
– Siðmennt er ekki á móti trúaruppeldi.

Siðmennt er hinsvegar á móti því þegar ofantalin starfssemi fer fram í opinberum stofnunum og brýtur þannig á rétti annarra. Grundvöllur lífsgilda húmanista byggir á mannréttindayfirlýsingum Sameinuðu þjóðanna og Evrópu og er trúfrelsi eitt af grundvallaratriðunum.

Siðmennt óskar eftir svari ráðherra
Siðmennt hvetur því menntamálaráðherra til að svara erindi Siðmenntar sem fyrst og útskýra hvers konar starfsemi er leyfð innan veggja opinberra skóla og hvers vegna.

Sjá nánar: Erindi sent til menntamálaráðherra 3. október 2006.

F.h. stjórnar Siðmenntar
—————————–
Hope Knútsson
Formaður Siðmenntar

Nánari upplýsingar veitir:
Sigurður Hólm Gunnarsson, varaformaður Siðmenntar.
S: 898 7585 eða siggi@skodun.is

Til baka í yfirlit