Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Félagsfundur 12. mars og auka aðalfundur 24. apríl

Á stjórnarfundi Siðmenntar þann 4. mars var eftirfarandi bókað og samþykkt samhljóða:

„Stjórn Siðmenntar boðar til félagsfundar þriðjudaginn 12. mars kl. 19:00. Á fundinum verður fjallað um starfið framundan. Rætt verður um skipun starfshópa til að halda utan um hugarstarf félagsins, húmanistaviðurkenninguna, fyrirkomulag vinnu við endurskoðun laga félagsins og önnur verkefni sem brenna á félagsmönnum. Staðsetning fundarins verður auglýst á næstu dögum.

Í kjölfarið boðar stjórn svo til auka aðalfundar þann 24. apríl næstkomandi. Til hans verður formlega boðað með lögboðnum leiðum þegar nær dregur.

Á dagskrá auka aðalfundar eru þrjú mál:

Kosning formanns
Kosning stjórnar
Kosning varamanna í stjórn

Með þessu vill stjórn koma til móts við þær óánægjuraddir sem heyrst hafa í kjölfar nýliðins aðalfundar, og um leið eyða allri lýðræðislegri óvissu um umboð sitt til stjórnarstarfa fyrir hönd félagsins og því æskilegt að ganga til kosninga á ný. Samþykkt var samhljóða að beina þeim tilmælum til félagsmanna að tilkynna framboð til stjórnar í það minnsta tveimur vikum fyrir aðalfund.

Tímasetning auka-aðalfundarins ræðst af ýmsum þáttum. Framundan er háannatími í borgaralegum fermingum, og þá er mikil vinna í gangi í tengslum við alþjóðlega ráðstefnu vorsins og ýmsa aðra minni viðburði. Er það markmið stjórnar að tryggja öflugt starf félagsins og mun hún starfa af fullum krafti fram að fundi.

Stjórn skipti með sér verkum á fundinum og var Helga Jóhanna Úlfarsdóttir kjörin varaformaður og er nú starfandi formaður Siðmenntar þar sem Jóhann Björnsson ákvað að stíga til hliðar sem formaður, og er það hans framlag til þess að vinda ofan af þeim ágreiningi sem myndast hefur innan félagsins síðustu daga. Jóhann verður félaginu áfram innan handar í komandi verkefnum. Sævar Finnbogason er ritari, Steinar Harðarson gjaldkeri og Júlía Linda Ómarsdóttir meðstjórnandi.

Þá var dregið um röð varamanna og var Jens Ívar Jóhönnuson Albertsson fyrsti varamaður og færist því upp í aðalstjórn. Næstu varamenn eru svo Tómas Kristjánsson, Þorsteinn Kolbeinsson, Hope Knútsson og Kristinn Theodórsson, í þessari röð.“

Til baka í yfirlit