Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Frétttatilkynning Siðmenntar vegna frumvarps menntamálaráðherra

Undanfarna daga hefur farið fram mikil umræða í fjölmiðlum vegna nýs lagafrumvarps Menntamálaráðherra um breytingar á lögum um grunnskóla. Í kjölfar ítrekaðra beiðna Siðmenntar ásamt fleiri félagasamtaka hérlendis og dóms sem féll í Mannréttindadómstóli Evrópu í Strasbourg í sumar tók menntamálaráðuneytið sig til og kom með þessa verulega góðu breytingartillögu.


Í bréfi til Siðmenntar dags 30. okt 2007, kynnti ráðuneytið þetta á eftirfarandi máta:

„Vísað er í bréf frá Siðmennt, Félagi siðrænna húmanista á íslandi, dags. 13. september 2007 þar sem fjallað er um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg vegna kristinfræði- og trúarbragðakennslu i Noregi og áhrif dómsins á íslandi.“

og

„Í frumvarpi til laga um grunnskóla er lagt til að í stað ákvæðis í 2. gr. gildandi laga um að starfshættir skólans skuli mótast af kristilegu siðgæði verði ákvæði um umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.“ [áherslur ritstjóra]

Tilgangur þessa frumvarps er f.o.f. að taka í burt trúarlegan merkimiða á siðferðisstefnu skólanna og þannig höfða til almenns siðferðis sem góð sátt í þjóðfélaginu ætti að nást um. Einnig kemur þessi breyting í veg fyrir að kristnar stofnanir noti lögin sem afsökun og ástæðu fyrir trúarlegri starfsemi og boðun í skólum landsins.

Eftir að þetta var svo kynnt í fjölmiðlum hefur árásum fulltrúa Þjóðkirkjunnar ekki linnt í blöðum, sjónvarpi og bloggheimum. Ranglega var haft eftir Bjarna Jónssyni varaformanni félagsins að það væri á móti Litlu-jólunum og aftur hefur sú lygi breiðst út að Siðmennt sé á móti kennslu í kristinfræði.

Í tilefni þessa sendi stjórn Siðmenntar neðangreinda fréttatilkynningu til fjölmiðla í dag.

Frá Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi

Vegna rangfærslna um stefnumál Siðmenntar og rangtúlkun á orðum Bjarna Jónssonar varaformanns félagssins í fjölmiðlum og bloggsíðum síðustu daga, þá er brýnt að eftirfarandi komi fram:

– Siðmennt er EKKI á móti Litlu jólunum í grunnskólum landsins

– Siðmennt er hvorki á móti kristinfræði né trúarbragðafræði og telur eðlilegt að kristinfræði fái stóran hluta í kennslunni í ljósi sögu þjóðarinnar og stærð kristninnar hér. Þá á ásatrú einnig að fá sinn sess af sögu- og menningarlegum ástæðum.

– Siðmennt vill að kennsla í trúarbragðafræðum verði einnig kennsla í fræðum lífsskoðana því mikilvægi trúlausra siðrænna lífsskoðana eins og húmanisma, skynsemishyggju og efahyggju verður seint vanmetið og áttu þær stærstan þátt í því að bæta mannréttindi síðustu alda.

– Siðmennt vill að skólastarf allra skólastiga sé frítt frá trúarlegu starfi og boðun, þ.m.t. dreifingu trúarrita, heimsóknum presta í skólastofur og trúarlegri sálgæslu (Vinaleið).

– Siðmennt vill að lög um skólastarf dragi ekki taum eins lífsskoðunar- eða trúfélags í landinu heldur taki fram að almennt siðferði sé haft að leiðarljósi. Þannig eru allir alþjóðasáttmálar um mannréttindi skrifaðir til þess að tryggja hlutlausan grunn. Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Strasbourg í sumar gerði þetta algerlega ljóst.

– Siðmennt er á móti trúarlegum athöfnum í skólum eins og bænahaldi og kirkjuferðum á skólatíma sem miða að trúarlegri innrætingu. Skólatíma á að verja í menntun barna. Sérstakar fermingaferðir sem taka af skólatíma eru ekki hluti af lögboðnu skólastarfi eða lögboðnum frídögum. Siðmennt fer ekki fram á frí fyrir börn í borgaralegri fermingu.

– Siðmennt vill frið um skólastarf og að öllum börnum sama frá hvaða bakgrunni þau koma, líði vel í skólum landsins og þurfi ekki að óttast að vera skilin útundan eða vera mismunað vegna lífsskoðana foreldra þeirra.

– Afstaða félagsins er í samræmi við afstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna og Mannréttindadómstóls Evrópu.

Með vinsemd og virðingu

Hope Knútsson formaður Siðmenntar

Til baka í yfirlit