Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Kafli um húmanisma í nýrri bók

Nú eftir áramótin kom út ný bók sem heitir Trúarbrögð og útfararsiðir, gefin út af Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma. Bók þessi er að mestu þýdd úr norskri bók eftir Gunnar Neegaard, sem ber sama heiti, en í henni eru einnig þrír nýir frumsamdir kaflar um bálfarir, ásatrú og húmanisma. Kaflinn um húmanismann er saminn af Svani Sigurbjörnssyni fyrir Siðmennt, en félaginu var boðið af ritstjóra bókarinnar og þýðanda, Guttormi Helga Jóhannessyni að kynna sína sögu, hugmyndafræði og útfararsiði þar sem systurfélag okkar í Noregi átti sinn stað í norsku frumútgáfunni.

Kaflinn um húmanismann er 16 síður og í honum er í fyrsta sinn tekin saman á íslensku saga húmanismans frá tímum Forn-Grikkja til dagsins í dag í vestrænni menningu, saga Siðmenntar rakin, útskýrð hugmyndafræði siðræns húmanisma og hvernig við almennt viljum haga útför okkar. Það er von okkar að þessi bók verði góð heimild fyrir þá sem vilja fræðast um eða kenna lífsskoðanir húmanista og brúi bil þeirrar fáfræði sem ríkt hefur í þessum efnum. Íslenskar bækur um mannkynssögu hafa auðvitað fjallað um margt af því sem hefur mótað húmanismann eins og endurreisnina og upplýsinguna, en ekki undir þessum formerjkum og nálgun.

Á tímum Hinriks 8. Englandskonungs var byrjað að tala um húmanista og var honum það orð vel kunnugt eins og glöggt kom fram í þáttunum The Tudors sem sýndir voru á stöð 2 fyrr í vetur. Halldór Kiljan Laxness aðhylltist húmanisma (sem hann íslenskaði sem mannúðarhyggja) og skrifaði um hann ritgerð. Einhvern veginn rataði þessi fróðleikur um mikilvæga og þekkta hugmyndafræði húmanismans aldrei í kennslubækur grunnskólanna og því er fólk almennt hérlendis fáfrótt um manngildishyggju. Nú verður vonandi breyting þar á og er þessi bókarkafli eitt skref í þá átt.

Bókin fæst m.a. í Kirkjuhúsinu laugavegi og á skrifstofu kirkjugarðanna í Fossvogi samkvæmt þessu.

Til baka í yfirlit