Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Trúboð kirkjunnar út úr skólum!

Í viðtali við fjölmiðla og á vefnum tru.is í desember setur biskup Íslands kirkjuna í stöðu fórnarlambs og kvartar yfir því að starfsmenn og börn í leikskóla skuli ekki einbeita sér að trúarlegum boðskap á friðarstund í aðdraganda jóla. Mér hefur einnig borist til eyrna að Biskupsstofa hafi kvartað yfir erindi sem sent var í nóvember til allra forstöðumanna leik- og grunnskóla í Reykjavík þar sem áréttað er réttilega að skólar séu vettvangur fræðslu en ekki trúboðs. Einnig hef ég grun um að það pirri starfsmenn kirkjunnar að nokkrir leik- og grunnskólar hafa á undanförnum árum afþakkað boð presta um kirkjuferðir og neitað þeim um að heimsækja skóla til að boða trú. Til að fyrirbyggja allan misskilning og koma í veg fyrir að umræðan endi í vitleysu þá vil ég taka fram eftirfarandi: Siðmennt leggst ekki gegn jólaundirbúningi í skólum. Hvorki föndri né litlu jólunum. Hinsvegar er rétt að árétta að skólar eru veraldlegir og er griðarstaður barna frá heimilum þar sem foreldrar hafa mismunandi lífsskoðanir. Ég hef heyrt að algengasta kvörtunarefni foreldra í skólum sé vegna trúmála! Er það sú sýn sem skólayfirvöld vilja flagga?

Í pistil sínum segir biskup:

 

Ætli stefni í það að eini staðurinn utan heimilanna sem leyft verði að rifja upp sögu jólaguðspjallsins og nefna höfuðpersónur hennar á nafn sé í kirkjunum? Ef svo er þá gerir það meiri kröfur til heimilanna, og til kirkjunnar og kristinna trúarsafnaða en nokkru sinni að sinna því og gæta þess. Það er ekki aðeins trúarleg skylda heldur þjóðleg og menningarleg og mikið í húfi fyrir framtíð menningar, trúar og siðar í landi hér. Jólaguðspjallið er saga sem ekki má gleymast.

Ég vil svara spurningu biskups með stóru JÁi. Það er andstætt starfi opinberra skóla að heimila slíkt trúboð. Siðmennt hefur um langt skeið gert athugasemdir við trúboð kirkjunnar í skólum. Félagið hefur krafist þess að skólarnir standi undir nafni að vera veraldlegir skólar fyrir alla – ekki bara börn kristinna. Siðmennt hefur einmitt bent á öflugt barnastarf kirkjunnar í eigin húsnæði þar sem foreldrar SEM ÞAÐ VELJA mæta með börn sín. Í stað þess hefur kirkjan einbeitt sér að troða sér inn í skóla til þess að messa yfir öllum börnum óháð því hvort virtar séu lífsskoðanir foreldra! Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að stunda boðun sína við þá sem það vilja! Það hlýtur því að vera jafn sjálfsagt að virða rétt foreldra að ala börn sín upp í eigin lífsskoðun! Ég get tekið undir með biskupi að jólaguðspjallið má ekki gleymast – það er falleg saga. Hinsvegar ofgerir biskup að telja mikið í húfi vegna menningarinnar og enn síður að það sé þjóðleg skylda.

Bent er á að verið sé að brjóta hefðir ef kirkjuferðum skólabarna verði hætt. Hefðir eru ekki eilífar og að það eru ekki mörg ár síðan þeirri hefð var breytt að fara ekki til kirkju. Það eru kannski 20 ár síðan það varð “hefð” að stefna skólabörnum til kirkju. Það virðist vera óvinnandi vegur fyrir kirkjunnar menn að skilja jafn einfaldan hlut og orðið mannréttindi. Það eru mannrréttindi foreldra að ala barn sitt upp í eigin lífsskoðun. Það eru mannréttindi að fá að vera í friði fyrir trúboði í almennum skólum. Enn og aftur ætlar kirkjan að valda óróa í skólum og efna til ófriðar um skólastarf. Átta þjónar kirkjunnar sig ekki á því að það er verulegur fjöldi foreldra sem finnst sér misboðið? Hvar er nærgætnin og umburðarlyndið? Á bara að stunda sitt trúboð án þess að huga að afleiðingum?

Fyrir hönd Siðmenntar ítreka ég enn og aftur ákall félagsins til menntamálaráðherra, yfirvöld menntamála á sveitastjórnarstiginu og að sjálfsögðu skólastjórnenda og kennara að sjá til þess að allir foreldrar geti sent börn í leik- og grunnskóla án þess að eiga það á hættu að á þeirra rétti sé brotið.

Bjarni Jónsson

Varaformaður Siðmenntar

Til baka í yfirlit