Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Hugvekja Bjargar Magnúsdóttur við þingsetningarathöfn Siðmenntar 2019

Siðmennt bauð í gær venju samkvæmt þingmönnum til stuttrar þingsetningarathafnar. Allt frá árinu 2009 hefur Siðmennt boðið þingmönnum upp á þennan veraldlega valkost, sem ákveðið mótvægi við setningarathöfn Alþingis í dómkirkjunni.

Sú hefð hefur skapast að bjóða upp á hugvekju til þingmanna, til að setja tóninn fyrir komandi þingvetur. Í ár var það Björg Magnúsdóttir, fjölmiðlakona, rithöfundur og athafnastjóri hjá Siðmennt sem flutti hugvekju, og má lesa hana hér að neðan. Þá flutti hljómsveitin Eva tvö lög og formaður Siðmenntar, Inga Auðbjörg Straumland, flutti stutt opnunarávarp. Tólf þingmenn úr fimm flokkum þekktust boðið í ár, og þökkum við í Siðmennt þeim kærlega fyrir komuna.

Ræða Bjargar Magnúsdóttur:

Góðan daginn virðulega samkoma.

Vitiði, ég var í bölvuðu veseni að undirbúa þessa ræðu. Það er frekar erfitt að koma því, sem maður vill segja við þingmenn, í knappt og hnitmiðað mál – og listinn er auðvitað langur. En, engar afsakanir, hér byrjar þetta.

Að segja að við lifum á umbrotatímum er eiginlega frekar ósanngjörn lýsing á samtímanum og ekki nógu dramatísk. Heimurinn hefur auðvitað alltaf verið í stöðugri þróun; framþróun, afturþróun, hliðarþróun og allskonar þróun en það hefur eitthvað brjálæðislega gerst á allra síðustu árum. Breytingar eru orðnar afar hraðskreiðar, upplýsingar ferðast á ljóshraða, við ferðumst miklu meira – og erum svo öll í kvíðakasti yfir því hvernig við eigum að kolefnisjafna þessi ferðalög og svo eigum við það sameiginlegt með sirka 80 prósentum íbúa heimsins að við horfðum öll á síðustu seríu af Game of Thrones. Heimurinn hefur minnkað mjög og þjappast saman í leiðinni.

Vel fram á 20. öld gerðist ekkert rosalega mikið hér á Íslandi. Eða jú. Það gerðist fullt, breytingar voru bara miklu hægfarari. Karlar í jakkafötum með bindi réðu ríkjum og komu hér á almennum kosningarétti – meira að segja fyrir konur á endaum – og græjuðu það að Ísland yrði sjálfstætt ríki. Fiskur var langsamlega stærsti iðnaður landsins öld eftir öld og aðalútflutningsvaran, flokksblöðin voru einu fjölmiðlar sem almenningur hafði aðgang að – með tilheyrandi ritstjórn, yfirlegu og yfirlestri. Í gömlu dagana rökræddum við djúpt tvisvar á ári um landbúnaðar- og kvótakerfin og ástand vega og þjóðin varð raunspennt að prófa Big Mac í fyrsta skipti hér á landi eftir að Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra opnaði fyrsta McDonald’s staðinn á Suðurlandsbraut. Þetta var ’93.

Nú er ég ekki sagnfræðingur og geri mér grein fyrir því að þetta er mikil einföldun á sögu Íslands vel inn á 20. öld … en þið fattið hvert ég er að fara með þetta.

Svo var Kvennalistinn stofnaður, reyndar akkúrat 10 árum áður en við fengum Big Macinn til landsins og internetið var fundið upp. —

Nútíminn er einhver allt önnur skepna en fortíðin. Ég veit ekki hvernig á að lýsa honum enda kannski erfitt að greina tímabil sem við erum á fullu að livva og njóta með öllum tiltækum ráðum. Við vitum þó ýmislegt.

Við vitum að við erum þrælar samfélagsmiðla og við vitum líka innst inni … að við erum sérstök. Það eru allir að bíða eftir því hvað ég skrifa um málefni dagsins á netið og það eru líka allir að bíða, logandi spenntir, eftir nýrri Instagram mynd frá mér. Öllu ægir saman, fréttum, upplýsingum og skemmtiefni og Facebook er botnlaus hít sem tekur við öllu; fyrir ofan dramatískan status um andlát ömmu Siggu fyrir vestan og hversu góð manneskja hún var, er þriðja auglýsingin sem ég sé í dag um grenningarsokkabuxur. Ég skil ekkert hvað Mark Zuckerberg er að reyna að segja mér.

Í dag er líka bannað að láta sér leiðast. Það á allt að vera snappí og skemmtilegt og 15 sekúndna myndband er eiginlega bara alltof langt. Þetta er jarðvegur sem ýtir bæði undir brjálaðan athyglisbrest og kvíða hjá mörgum, yfir því hvað allir aðrir eru geggjaðir en svo er eiginlega hitt … sem er öllu alvarlegra. Þetta ástand býr til aðstæður þar sem upplýsingar fljóta og þjóta óhindraðar og óstaðfestar milli fólks. Orðið „staðreynd“ hefur verið gengisfellt. Við lifum á tímum þar sem við erum að rífast um hvað er satt og hverju ber að treysta. Allir hafa sína útgáfu af heiminn … mín útgáfa er nota bene rétt ef þið voruð að pæla í því.

Upp úr þessu umhverfi sprettur ákveðin gerð af stjórnmálamönnum. Svona karakterar sem eru búnir að fatta að stundum virkar að henda inn eins og einni lykilsetningu í flóknar umræður: „bíddu, taka Tyrkir þá ekki öll störfin okkar?“ Brexit. Eða „verði þetta frumvarp lögum, mun það þýða að Ísland er ekki lengur fullvalda ríki.“ Þriðji orkupakkinn. Og auðvitað „FAKE NEWS“. Donald Trump. Þetta eru dramatískar setningar, sem enda venjulega sem fyrirsögn í hringiðunni; þær hrista upp í hlutunum og hafa alveg ákveðið skemmtanagildi. Svona hressilegar.
En vitiði hvað er síðan leiðinlegt? Að þurfa að leiðrétta hvers vegna þessar fullyrðingar eru rangar. Það getur bara verið fullt vinna fyrir háskólagengna manneskju og verður sannarlega ekki gert með því að garga: „nei“ til baka. Það þarf að skrifa sirka 15 blaðsíðna, skothelda skýrslu með ritrýndum heimildum til að svara svona gífuryrðum. Og það nennir enginn að lesa leiðindaskýrslu. Eða fáir, skulum við segja.

Við lifum líka á tímum Cambridge Analytica. Hámenntaðir sálfræðingar og proffar hafa kortlagt netfíkn samtímans og áttað sig á því hvernig er hægt að nýta hana í pólitískum tilgangi. Og þá erum við ekki að tala um einhverja markhópagreiningaskýrslu sem allir geta keypt hjá Capacent. Nei, við erum að tala um eitthvað dýpra og alvarlegra dæmi af áður óþekkri stærðargráðu eins og farið er vel yfir í myndinni Brexit: The Uncivil War sem sýnd var á RÚV í vor. Í mjög náinni fortíð höfum við því miður líka dæmi um það hvernig misnotkun á internetinu og persónuupplýsingum knýr fram ákveðna niðurstöðu í svokölluðum lýðræðislegum kosningum.

En svo notum við almenningur alveg internetið líka, til þess að manipúlera stjórnmálamenn. Við gröfum undan trausti á þeim gegnum samfélagsmiðla, krefjum þá um svör á öllu milli himins og jarðar í tíma og ótíma og deilum óhróðri um þau.
Smá útúrdúr … talandi um að krefja fólk um alla skapaða hluti milli himins og jarðar í tíma og ótíma – er það ekki nákvæmlega rót þessarar kulnunar sem sífellt er verið að tala um? Við erum bæði aldrei og alltaf í vinnunni. Síminn er í metersfjarlægð max daglangt, við fáum erindi og spurningar sem tengjast vinnunni gegnum samfélagsmiðla og skil milli einkalífs og vinnu eru bara engan veginn skýr.
Þetta á kannski sérstaklega við fólk í opinberum stöðum, sem þarf reglulega að fá atkvæði frá almenningi og þarf þar af leiðandi að halda kjósendum góðum. Þið verðið auðvitað að vera með stöðuga uppfærslu á miðlunum. Vera sjarmerandi. Sýna að þið séuð sko skemmtileg. Hress, gangið á fjöll og sinnið fjölskyldunni … helvítis álag.

En aftur að þessu með traustið. Og kannski vantraustið líka. Mætti jafnvel segja að við lifum á tímum vantrausts? Kannski fulldramatískt en það er allavega á hreinu að við erum reiðubúin að tortryggja ýmislegt, sem við gerðum ekki áður. Blint traust og virðing fyrir valdakerfum og stofnunum hefur beðið hnekki síðustu ár, bæði hér á landi og erlendis. Kannski er traust á ykkar stofnun, Alþingi ágætis dæmi – en í kjölfar hrunsins hrundi það og hefur ekki almennilega komið til baka. Varðandi þetta almennt, þá er auðvitað mjög gott að almenningur sýni grunnkerfum samfélagsins virkt og gott aðhald, auðvitað á alltaf að spyrja gagnrýnna spurninga um grunn-mekanisma sem samfélagið gengur fyrir. En á sama tíma þurfum við sem þjóð að vera með ramma eða einhvers konar grundavallarsáttmála, sem við erum sammála um og fær þjóðfélagið okkar til að virka. Það segir sig sjálft, að þegar vantraust er ríkjandi á allt sem heitir yfirboð, er bara rosalega margt sem verður fyrir neikvæðum áhrifum.

Internetið er sem sagt annað lykilstefið hjá mér í dag. Hitt eru jafnréttismálin. ME-TOO var fyrst var notað sem hastagg eða myllumerki fyrir tæpum tveimur árum og við erum enn að sjá eftirköstin af því. Rétt eins og það er hægt að tala um fyrir og eftir internetið, sýnist mér að við komum til með að tala um fyrir og eftir ME-TOO. Þar var hulunni svipt af veruleika, sem því miður allar konur þekkja og auðvitað margir karlar líka. Allt í einu mátti tala um það sem við höfum allar upplifað, skynjað og rekið okkur á, í mjög ólíkum myndum og misalvarlegum aðstæðum auðvitað alla tíð.
Nú er kominn upphafspunktur að þessari mikilvægu umræðu. Fyrirtæki, fjölskyldur, hjón og bara allir tala allt í einu á opinskárri hátt um þessi mál; samskipti kynjanna og hvernig við erum að hegða okkur? Erum við næs eða erum við kannski bara fávitar? Þó mikið vatn hafi runnið til sjávar á þessum fáu mánuðum er enn mikið verk óunnið.

Fyrir helgi var skipaður nýr dómsmálaráðherra. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fráfarandi ritari Sjálfstæðisflokksins. 28 ára gömul, hörkudugleg kona, sem hefur vaxið mjög á síðustu árum í miðju kastljósi fjölmiðla og tæklað hvert málið á fætur öðru á opinberum vettvangi. Stýrt stórum nefndum í þinginu og verið óhrædd við að mæta hverjum miðaldra karlinum á fætur öðrum hvort sem er í Kastljósi eða annars staðar. Nota bene, ég er ekki að gera lítið úr miðaldra karlmönnum, þeir hafa hins vegar verið obboðslega duglegir að segja henni hvernig hún á að hegða sér.

Það er stundum talað um feðraveldið. Og ég verð að viðurkenna að það er dálítið flöktandi heiti, ég skil það stundum ekkert alveg. Erum við að tala um reykfyllt bakherbergi með sitjandi mönnum í jakkafötum og vindlakassa á borði? Eða er þetta flóknara dæmi? Er feðraveldið ekki frekar það kerfi sem duglegu karlarnir, sem ég talaði um áðan hönnuðu og við öll ólumst upp í og höfum alla tíð búið við? Við eigum þessum mönnum sannarlega mikið að þakka.
Það er hins vegar þannig, sem betur fer, að samtíminn kallar á aðra og fjölbreyttari blöndu af fólki í valdastöðum. Miðaldra karlinn er ekki lengur aðalgæinn og eini gæinn við borðið. Og auðvitað mun hann ekki fíla að þurfa að stíga til hliðar og missa eitthvað af því plássi sem hann hefur alltaf haft.

Ef við lítum á heimssöguna er afskaplega stutt síðan konur fóru að hafa raunveruleg áhrif í stjórnmálum og forystu fyrirtækja. Þrátt fyrir að margir sigrar hafi verið unnir í jafnréttismálum, og kannski sérlega hér á Norðurhveli, er enn bara helvíti langt í land. Ég man vel eftir viðtali sem ég og kollegi minn á RÚV Guðmundur Pálsson, tókum við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrrum ráðherra þegar hún hætti í pólitík og lýsti því yfir, þetta var árið 2016 að konur væru gestir í pólitík. Þær mættu vera með, sérstaklega ef þær eru ungar og efnilegar, en þær ættu ekki að stjórna of miklu. Það sem truflaði mig mest á sínum tíma við þetta, er að ég vissi nákvæmlega hvað hún var að tala um.

Í gegnum tíðina hafa stjórnmálakonur verið dæmdar miklu harðar eftir útliti og klæðaburði í stað þess að fólk sjái sóma sinn í því að láta verk og verkefnin tala. Gleymum því ekki að Vigdís Finnbogadóttir, fyrsti kvenforseti í heimi sem var kjörin 1980, var á opinberum vettvangi spurð að því hvort það myndi ekki há henni í embætti að vera bara með eitt brjóst. Svar Vigdísar var auðvitað brilljant: „Það stóð nú aldrei til að hafa þjóðina á brjósti.“
Við munum líka eftir því þegar Þóra Arnórsdóttir, sjónvarpskona gaf kost á sér í embætti forseta árið 2012 og var ítrekað spurð að því hvernig hún ætlaði að fara að því að setjast að á Bessastöðum með nýfætt barn. Bæði Sigmundur Davíð og Bjarni Ben áttu lítil börn um það leyti sem þeir tóku við forystu í ríkisstjórn 2013. Þeir voru lítið spurðir um föðurhlutverkið og þurftu sem betur fer ekki að sitja undir umræðum um hárlit þeirra, líkamsvöxt eða hvar þeir versli jakkaföt.

Eins og ég segi, þetta hefur sem betur fer breyst og þokast áfram, en þó ekki að öllu leyti. Ákveðin viðbrögð við skipun Áslaugar Örnu í ráðherrastól komu því miður ekki á óvart. Það voru gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að smækka hennar pólitíska feril með umræðum um aldur hennar og útlit – það er auðvitað algerlega tilgangaust að hafa eftir þessi fáránlegu ummæli – en það er hins vegar alveg ljóst hvaðan þau koma. Vigdís, Áslaug Arna, Hanna Birna, Þóra … hvað haldiði að margar aðrar af okkar allra flottustu konum geti einmitt sagt: „hei, ég líka.“
Ísland er ítrekað útnefnt best í heimi í jafnréttismálum, samkvæmt alþjóðlegum útektum. Og samt er þetta svona hér. Hvernig er þetta annars staðar?

Mér finnst þetta umhugsunarefni, og sér í lagi þegar við pælum aðeins í stöðu Íslands í umheiminum. Hver viljum við vera á alþjóðavettvangi? Viljum við vera landið, sem vill ekki að vera í djúpum og nánum samskiptum við önnur lönd? Viljum við henda EES samningnum í bláu tunnuna, eins og einhverjir hafa ýjað að nú í sumar? Viljum við einangrun eða opið samfélag? Viljum við vera passíf eða taka frumkvæði? Viljum við áfram vera smá „unglingur“ á heimsvísu … alltaf dálítið að pæla í því hvað við fáum en ekki endilega hvað við getum gefið eða lagt inn í samtalið?

Sko, ég veit þetta er pínu dramatískt, en ég ætla nú samt að vitna í John F. Kennedy fyrrum forseta Bandaríkjanna sem sagði eftirminnilega: Ask not what your country can do for you – ask what you can do for your country.
Er mögulega að verða tímabært að snúa aðeins upp á spurninguna hans. Ættum við, sem land, að spyrja okkur að því hvernig áhrif við viljum hafa á heiminn, hvað við getum gefið heiminum – í stað þess að pæla í því hvað heimurinn getur gefið okkur?
Við höfum margt að gefa, og erum að gefa margt til dæmis þegar kemur að jafnréttismálum, mannréttindum og fleiru sem við erum oft bara drullugóð í.
Gott dæmi um hvað við getum verið góð fyrirmynd, eru Regnbogafánarnir sem blöktu allt í kringum fund varaforseta Bandaríkjanna Mike Pence þegar hann fundaði á dögunum í Höfða. Þetta fánadæmi var í alvörunni flott og ég held að margir hafi verið stoltir Íslendingar þann dag. Forsetahjónin okkar tóku stöðu með mannréttindum og við tókum stöðu með mannréttindum. Og það er einhvers virði.

Annað dæmi, sem ég hef hugsað um uppá síðkastið, er hversu flott það er hvernig við Íslendingar höfum staðið saman í gegnum aldirnar í því að varðveita tungumálið okkar. Það er ekki sjálfsagt að á 380 þúsund manna eyju, sem hefur nú aldrei áður verið svona fjölmenn, séum við varðmenn og notendur eins elsta tungumáls í heimi. Við getum nokkurn veginn stautað okkur fram úr Íslendingasögunum, sem voru ritaðar allt frá 9. öld. Um þetta atriði, sem hefur mikið að gera með okkar sjálfsmynd sem þjóð, hefur verið þverpólitísk samstaða frá upphafi byggðar. Þetta er líklegast eina pólitíska ákvörðunin sem allir eru bara sammála um. Við ætlum að passa upp á íslenskuna, sérstaklega á þeim tímum sem við lifum þar sem ensk áhrif eru víða. Og þetta er líka ógeðslega flott. En við þurfum að vinna aktívt að þessum markmiðum á hverjum einasta degi.

Og aðeins á þessum nótum. Hvernig getum við gert meira gott en vont? Við getum til dæmis minnt sjálf okkur á að allar manneskjur á jarðkringlunni fúnkera sirka eins. Heiðarleiki, að vera traustsins verður, sinna okkar nánustu og kærleikur svínvirkar. Þetta er bara vitað.
En svo koma upp aðstæður eins og ég nefndi áðan, þar sem ósannindi, gerviupplýsingar og svik virðast ráða för. Hvernig ætlum við að bregðast við því? Við verðum eðlilega að svara með rökum og réttum upplýsingum.
Við verðum líka að standa almennilega í lappirnar með sannleikanum, með vísindum og með staðreyndum. Stuðla að gagnrýnni hugsun, stuðla að lesskilningi, stuðla að því að traust ríki á meginleikreglunum.
Þó almenningur geri þetta upp að einhverju marki er auðvitað ábyrgð ykkar þingmanna mikil, við kjósum ykkur á fjögurra ára fresti til þess að viðhalda þessum samfélagssáttmála sem ég ræddi um áðan. Þið eruð vaktstjórar þessara grunnstoða samfélagsins, það er ykkar að leiða og halda umræðunni á háu plani. Og ábyrgðin er mikil í þeim stundum tætta veruleika sem við búum í. Og þið standið ykkur bara oft mjög vel – en þetta er eins og hitt, eitthvað sem þarf að vinna að á hverjum einasta degi og það er bannað að gefast upp.

Að lokum vil ég óska ég ykkur velfarnaðar í lífi og starfi þennan þingveturinn. Gangi okkur allt í haginn.

Til baka í yfirlit