Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Þingsetningarathöfn Siðmenntar aflýst vegna Covid-19

Í ljósi þeirrar stöðu sem nú ríkir í þjóðfélaginu og ágerst hefur síðustu daga vegna Covid-19 farsóttarinnar, ákvað stjórn Siðmenntar að fella niður þingsetningarathöfn félagsins þetta haustið. Okkur þótti það ekki áhættunar virði að halda fjölmennan þéttsetin viðburð eins og staðan er í dag, og viljum sýna ábyrgð í verki og gott fordæmi.

Frá árinu 2009 hefur veraldleg þingsetningarathöfn verið órjúfanlegur þáttur af starfi Siðmenntar, þar sem þingmönnum er boðið uppá veraldlegan valkost sem ákveðið mótvægi við messu í Dómkirkjunni. Undanfarin ár hefur athöfnin verið ágætlega sótt af þingmönnum úr ýmsum flokkum en þar gefst færi á að hlýða á veraldlega hugvekju, hlusta á lifandi tónlist og gæða sér á léttum veitingum, áður en þingstörfin hellast yfir af fullum þunga.

Okkur þykir miður að hafa þurft að rjúfa þessa hefð í ár en þótti ekki stætt á öðru í ljósi aðstæðna. Covid-19 hefur í raun raskað öllu starfi Siðmenntar í ár. Fermingarnámskeiðin styttust um viku, öllum fermingarathöfnum var frestað, giftingum og nafngjöfum hefur verið frestað í bunkum og sama gildir um málþing, opin hús og vísindaferðir. En við látum þetta ekki á okkur fá og tökumst á við þessi verkefni með þolinmæði og leysum þau saman.

Til baka í yfirlit