Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Skólaprestur segist lækna „ör á sálinni“

Nýverið barst Siðmennt bréf frá foreldri grunnskólabarns sem lýsti yfir áhyggjum sínum yfir starfsemi svokallaðar Vinaleiðar Þjóðkirkjunnar í grunnskóla dóttur hennar. Bréf þetta er líkt mörgum ábendingum sem Siðmennt berast reglulega. Móðirin hefur gefið Siðmennt leyfi til að birta frásögn sína og er það gert hér með. Þessa frásögn ásamt fleiri dæmum er einnig hægt að finna á trúfrelsisvef Siðmenntar: www.sidmennt.is/trufrelsi.

Þessi saga er að mörgu leiti áhugaverð, sérstaklega að því leiti að fulltrúar Þjóðkirkjunnar hafa margsinnis komið fram í fjölmiðlum og fullyrt að djáknar eða prestar í grunnskólum fari alls ekki inn í kennslutíma og tali þar við börnin. Siðmennt veit hins vegar um fjölmörg dæmi um þar sem það er einmitt gert.

 

Ég hef lítillega fylgst með umræðunni um vinaleið í grunnskólum og tekið eftir að félagið Siðmennt lætur sig málið varða. Mig langar að deila með ykkur reynslu minni sem foreldri.

Vinaleið byrjaði í grunnskóla dóttur minnar núna í haust án þess að ég gæfi því nokkurn gaum. Í síðustu viku bryddaði dóttir mín upp á málefninu þar sem skólapresturinn hafði komið inn í bekkinn og rætt við krakkana. Samkvæmt dóttur minni talaði presturinn um ör og fékk krakkana til að sýna örin sem þau hafa fengið á líkamann. Síðan benti hann þeim á að þetta væru ör sem aldrei færu. Þá fór hann að ræða um ör á sálinni og sagði að örin á sálinni gætu farið ef krakkarnir kæmu að tala við sig.

Ég sem foreldri er mjög ósátt við þetta tilboð prestsins og þá aðallega framsetninguna. Presturinn opnar þarna mjög viðkvæma umræðu og virðist hafa lofað einhverju sem jaðrar við kraftaverk, það er að afmá ör af sálinni. Ég er ósammála nálgun prestsins. Dóttir mín varð fyrir erfiðu áfalli fyrir nokkrum árum og fékk góðan stuðning hjá fagaðila sem þá starfaði við skólann og einnig fagaðilum skólanum óviðkomandi. Þá var unnið með kvíða sem áfallið olli og reiði. Ég tel mikilvægt að barn sem verður fyrir áfalli læri að lifa með því. Það verður aldrei horft framhjá því að áföll móta okkur og hafa áhrif á hver við erum sem manneskjur. Ég hef sagt minni dóttur að örin verði ekki afmáð en okkur geti með tímanum farið að þykja vænt um örin og þá erfiðu reynslu sem olli þeim af því það er hluti af því hver við erum.

Mér skildist að vinaleið væri stuðningur en ekki meðferð. Ég veit ekki hvernig skólaprestur skilgreinir þessi tvö hugtök en mér finnst hann þarna vera að bjóða meðferð.

Nú vill svo til að dóttir mín þáði ekki tilboð skólaprests um viðtöl. Það er samt ekki erfitt að sjá fyrir sér að illa geti farið ef barn þiggur meðferð sem foreldri ber ekki traust til. Togstreitan sem þá gæti skapast milli foreldris og barns er engum til góðs. Því sem er ætlað að gera heilt er þá farið að skapa sundrung.

Með virðingu og vinsemd en einnig í trausti þess að nafnið mitt komi ekki fram þótt þetta viðhorf mitt til vinaleiðar megi birta.

Til baka í yfirlit