Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Hvað felst í aðskilnaði ríkis og kirkju?

Í MIÐOPNUVIÐTALI Morgunblaðsins síðastliðinn föstudag fjallaði biskup Íslands nokkuð um aðskilnað ríkis og kirkju. Af einhverjum ástæðum reyndi hann að gera lítið úr kröfum þeirra sem vilja trúfrelsi hér á landi. Í stað þess að tala um hið gríðarlega óréttlæti sem samband ríkis og trúarbragða hefur í för með sér, lagði hann áherslu á að tala um þjóðsönginn, íslenska fánann og hvort það ætti að vera frí á jólum og á páskum eða ekki. Sem formanni Siðmenntar, félags um borgaralegar athafnir, og áhugamanni um trúfrelsi fannst mér þessi áhersla biskups vægast sagt undarleg og í litlu samræmi við kröfur þeirra sem berjast fyrir trúfrelsi.Í stefnu Siðmenntar í trúfrelsismálum (sjá www.sidmennt.is) er fjallað um það sem þarf að gerast til að aðskilnaður ríkis og kirkju eigi sér stað. Þar er ekki einu orði minnst á þjóðfánann, þjóðsönginn eða jólin. Enda verða þessi atriði vart talin önnur en í besta falli aukaatriði.

Ástæðunum fyrir því að við viljum aðskilnað ríkis og kirkju má skipta lauslega í þrennt:

1. Á Íslandi á sér stað lögbundin mismunun milli ólíkra lífsskoðanahópa. Samkvæmt 62. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands frá 1944 nr. 33 17. júní, stendur:

Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.

Siðmennt telur þessa málsgrein vera í mótsögn við 1. málsgrein 65. greinar sömu stjórnarskrár þar sem segir að:

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Það er skoðun þeirra sem berjast fyrir trúfrelsi að önnur greinin verði augljóslega að víkja.

2. Þjóðkirkjan nýtur hundraða milljóna króna styrks árlega umfram önnur trúfélög. Við í Siðmennt teljum að ríkisvaldið eigi að sýna fyllsta hlutleysi þegar kemur að trú og lífsskoðunum manna. Ríkið á að vernda rétt okkar til að aðhyllast þær lífsskoðanir sem við kjósum. Ríkið á alls ekki að styrkja eina lífsskoðun umfram aðra. Við teljum því að ríkisvaldið eigi annað hvort að hætta öllum stuðningi við trúfélög eða, það sem er líklegra að fleiri sætti sig við, styrki alla hlutfallslega jafnt. Í þessu felst réttlæti.

3. Auk fjárhagslegs og lagalegs réttlætis felur aðskilnaður ríkis og kirkju einnig í sér félagslegt réttlæti. Í landi þar sem trúfrelsi ríkir og virðing er borin fyrir ólíkum hópum á ekki að nota stofnanir ríkisvaldsins til að gera einni ákveðinni lífsskoðun hærra undir höfði en öðrum. Ágæt dæmi um þetta er sá einhliða trúaráróður sem á sér stundum stað í opinberum skólum og fjölmiðlum landsmanna. Yfirvöld eiga að sýna ólíkum trúar- og lífsskoðanahópum sama hlutleysi og þeir sýna til dæmis ólíkum stjórnmálahópum. Ekki þætti við hæfi ef kenndur væri sérstakur áfangi í öllum skólum um stefnu Sjálfstæðisflokksins og í hverri viku væri sérstakur ræðutími sjálfstæðismanna í Ríkisútvarpi og -sjónvarpi. Skiptir þá engu máli þótt meirihluti landsmanna kysi þann annars ágæta flokk. Það sem skiptir máli er að yfirvöld eiga ávallt að vera hlutlaus.

Aðskilnaður ríkis og kirkju er spurning um réttlæti

Að lokum vil ég fá að beina orðum mínum til Karls Sigurbjörnssonar biskups, og annarra þeirra ágætu manna sem vilja ekki aðskilnað ríkis og kirkju eða segjast ekki skilja hvað átt er við með umræðunni. Umræðan um aðskilnað ríkis og kirkju hefur nú verið virk í mörg ár og fyrir flestum er þetta mjög mikið frelsis- og jafnréttismál. Aldrei man ég eftir að einhver hafi lagt áherslu á að afmá krossinn úr fánanum, banna þjóðsönginn eða leggja niður jólin. Enginn nema biskup. Þetta þrennt er einfaldlega ekki það sem skiptir máli og óháð kröfum okkar sem viljum trúfrelsi. Það sem skiptir máli er að við séum öll jöfn fyrir lögum, að við séum öll jafnréttháir borgarar og að ríkisvald alls almennings fjármagni ekki eina lífsskoðun umfram aðra, með skattpeningum okkar allra. Um þetta snýst réttlæti og þess vegna viljum við aðskilnað ríkis og kirkju. Sjá nánar www.sidmennt.is/trufrelsi.

Eftir Hope Knútsson

Höfundur er formaður Siðmenntar.

Til baka í yfirlit