Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Sækjum fólkið okkar

Sækjum fólkið okkar

Rúmlega hundrað einstaklingar frá Palestínu hafa þegar fengið dvalarleyfi á Íslandi. Fólkið hefur beðið mánuðum saman eftir liðsinni íslenskra stjórnvalda til að komast til Íslands og undan árásum ísraelskra stjórnvalda. Íslensk stjórnvöld hafa ekki tekið þau skref sem nauðsynleg eru til að koma þessum 128 einstaklingum, sem eru að megninu til börn, frá lífshættulegu ástandi á Gaza og til Íslands. 

Því hefur aðgerðarhópur nokkurra framtakssamra kvenna tekið málið í sínar hendur og farið út til Egyptalands, og sinnt hlutverki sem ætti að liggja hjá stjórnvöldum.  Fyrst fóru Bergþóra Snæbjörnsdóttir, María Lilja Þrastardóttir og Kristín Eiríksdóttir af stað og tókst á undraverðum tíma að aðstoða móður og þrjú börn að komast til Íslands, þar sem heimilisfaðirinn beið þeirra, en hann kom til landsins fyrir fjórum árum. Nú hafa fleiri konur farið út og haldið áfram þessu starfi, en ljóst er að án frumkvæðis þeirra er afar ólíklegt að neitt af því fólki sem sannarlega hefur fengið dvalarleyfi á Íslandi væri komið á áfangastað. 

 

Húmanismi í verki

„Stjórnvöld hafa lýst þessu verkefni sem flóknu og umfangsmiklu og falið sig bakvið það flækjustig, eða vísað í verklag annarra Norðurlanda og haldið því fram að Ísland myndi skera sig úr ef við tækjum þetta verkefni fastari tökum. Þessar fullyrðingar hafa nú verið hraktar,“ segir Inga Auðbjörg K. Straumland, formaður Siðmenntar. Siðmennt harmar það að stjórnvöld sinni ekki hlutverki sínu og að óbreyttir borgarar þurfi að taka slíkt frumkvæði. „Á sama tíma og það er ótækt að það þurfi frumkvæði óbreyttra borgara við, þá er aðdáunarvert að þegar flestum fallist hendur, ákveði nokkrir einstaklingar að taka verkefnið að sér, óbeðin, knúin áfram af eigin siðferðiskennd, mannúð og húmanisma,“ bætir Inga við. Hún segir svona framtak ríma algerlega við húmanísk gildi svo semi ósérplægni, að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi án þess að ætlast til að fá eitthvað í staðinn: „Í húmanisma er talað um frið og félagslegt réttlæti og um ábyrgð okkar allra, ekki bara á sjálfum okkur, heldur öllu samferðafólki okkar á þessari jörð. Það sem þessar konur eru að gera er aðdáunarvert og það verðum við að styðja.“ 

 

Siðmennt styður fjársöfnun Solaris 

Solaris hjálparsamtök hafa hafið söfnun fyrir aðgerðunum. Stjórn Siðmenntar hefur ákveðið að félagið styrki söfnunina um 500.000 kr., sem vonandi nýtast til að bjarga fleiri fjölskyldum úr lífshættulegum aðstæðum. Siðmennt hvetur sitt félagsfólk og almenning til að leggja hönd á plóg. Nánar má lesa um söfnunina á vef Solaris





Til baka í yfirlit