Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Karítasar Hörpu við borgaralega fermingu 2019

Karítas Harpa, söngkona, flutti eftirfarandi ræðu við borgaralega fermingu á Selfossi 6. apríl 2019.

Góðan dag og innilega til hamingju með daginn öll sömul, fermingarbörn, fjölskyldur, vinir

Mig langar að fá að þakka Siðmennt fyrir það tækifæri að fá að standa hér fyrir framan ykkur á þessum stóra degi ykkar og fá að vera hluti af honum, þó ekki nema á örlitinn hátt. 

Inni á vefsíðu Siðmenntar stendur þetta um Borgaralega fermingu: Markmið borgaralegrar fermingar er að styrkja sjálfsmynd, metnað og uppbyggilegt hugarfar. Fermingarfræðsla miðar að því að efla heilbrigð og farsæl viðhorf unglinga til lífsins og búa þeim dýrmætt veganesti til framtíðar.

Þetta er ótrúlega dýrmætt veganesti fyrir spennandi tíma framundan, því það er svo margt spennandi framundan. Í dag eruð þið að fermast og ég geri ráð fyrir því að mörg ykkar séuð búin að hlakka til þess í einhvern tíma og mikið vona ég að þið njótið dagsins eins og þið getið.

Þegar mér var boðið þetta tækifæri að fá að tala við ykkur á þessum degi fór ég á fullt að velta fyrir mér hvað ég gæti sagt ykkur, eitthvað sem þið gætuð notið góðs af, sem þið hefðuð áhuga á að heyra og án þess að það hljómaði ég væri komin til að leggja ykkur lífsreglurnar.

Ég er kannski orðin 28 ára, stend hérna á sviðinu komin 8 mánuði á leið af öðru barninu mínu og fyrir ykkur er ég bara einhver “koona” en á sama tíma finnst mér svo stutt síðan ég var á ykkar aldri, síðan ég varð táningur, unglingur og fór í gegnum þá hluti sem þið eigið framundan og ég ætla ekki að ljúga að ykkur, mér fannst þessir tímar oft mjög erfiðir. Ég átti í mikilli innri baráttu við sjálfa mig, við samfélagið, fjölskyldu mína osfrv. og ég hef oft sagt að ef mér yrði boðið að vera unglingur aftur myndi ég vinsamlegast biðja viðkomandi að taka þá hugmynd og fela hana á dimmum stað. 

Það er samt ekki af því það sé ömurlegt að vera unglingur, alls alls ekki. Það er svo margt skemmtilegt sem á sér stað, fyrstu böllin, klára grunnskóla, vera skotin/n, læra á bíl, fara í framhaldsskóla, kynnast nýju fólki, vinna og eiga sinn eigin pening…. og ég gæti haldið svona endalaust áfram. Heldur meira af því ég lít til baka og horfi á stelpu sem var mjög týnd, sem hafði ekki tækin og tólin til að takast á við þetta tímabil, þá opnu umræðu sem hún hefði þurft, sem virðist sem betur fer alltaf vera að vera að aukast í dag.

Svo ég fór að hugsa, frekar en að segja ykkur hvað og hvernig þið eigið að sjá og upplifa hluti, þá ætla ég heldur að velta fyrir mér hlutum sem ég myndi segja við hina 13 ára Karitas ef ég hefði færi á því í dag. Ég tók vangavelturnar meira að segja lengra og spurði vini mína og fylgjendur á samfélagsmiðlum sömu spurningar “hvað mynduð þið segja við ykkur sem unglinga í dag” og ég hefði varla trúað viðbrögðunum og svörunum sem ég fékk og hve mörg svaranna voru áþekk, þ.e.a.s. hve við höfum hugsað margt svipað, en hver sér í sínu horni. Ég las yfir öll svörin og tók út þau algengustu og langar að deila þeim með ykkur. Í fyrsta lagi:

 1. Það er líf eftir grunnskóla: Ég var reyndar og er enn algjör kvíðabolti en vá hvað ég man eftir því að vilja allt í einu ekki útskrifast. Maður hafði eytt meiri hluta ævi sinnar þarna og hið óþekkta getur oft verið ógnvekjandi en treystið mér, það er, sem betur fer, líf eftir grunnskóla – annað væri örlítið dapurlegt.
 2. Það er enginn með allt á hreinu, lítið í kringum ykkur, ekki einu sinni mamma og pabbi eru með ALLT á hreinu (en ekki segja þeim að þið vitið það). Það er allt í lagi að vita ekki hvað þú vilt gera eða vera. Það er allt í lagi að fara ekki eftir uppskrift samfélagsins, að fara ekki beint í háskóla eða einu sinni í háskóla yfir höfuð. Það er svo margt í boði að það er ekkert óeðlilegt að vera óviss, prófa sig áfram og skipta um skoðanir. Það eina sem ég myndi leggja áherslu á er að gefast ekki upp, halda alltaf áfram.
  Hlutirnir munu breytast, ég þekki eina sem ætlaði alltaf að vera stórlaxa lögfræðingur í New York með öllu tilheyrandi, hún var alveg viss á sínu í mörg mörg ár en svo tók lífið við. Í dag er hún hamingjusamlega gift bóndakona með 2 börn og elskar það.
  Fyrir annan var eiginlega búið að ákveða að hann yrði handboltastjarna, atvinnumaður. Hann slasaðist og þar var úti um drauminn, í dag er hann sjúklega flottur flugmaður að gera góða hluti.
  Svo voru aðrir eins og ég, sem vildi alltaf vera söngkona en hafði ekki alveg sjálfstraustið til að segja það einu sinni upphátt. Mér gekk alltaf vel í námi og fannst eins og ég yrði þ.a.l. að fara í háskóla sem ég prófaði en endaði á að hætta. Ég barðist svo lengi við það að gera lítið úr því sem mig langaði að gera, sem gerði það reyndar að verkum að ég prófaði sennilega flestar vinnur sem hægt var, í leit að þvi sem mig langaði að gera. Lærði heilmikið af því en það var ekki fyrr en ég var orðin 25 ára einstæð mamma að ég gafst upp á því að berjast “gegn” mér og fór að syngja. Einhversstaðar las ég að lífið væri svona 10% það sem við lendum í og 90% hvernig við bregðumst við/vinnum úr því.
  Ég myndi segja 13 ára Karitas að hafa trú á sér og kýla á það, hvort sem það takist eða ekki þá amk prófaðirðu.
  Við getum í raun gert það sem við viljum ef við erum tilbúin að leggja orku, vinnu og tíma i það.
 3. Afbrýðisemi gerir þér ekkert gott. Það græðir enginn á því að eyða orku í afbrýðisemi, vissulega virðist lífið ekki alltaf sanngjarnt og það verður alltaf einhver sem lítur út fyrir að “fá allt upp í hendurnar” en það er ekki svo einfalt. Það eru allir að eiga við eitthvað og þó þú dáist að ljósi annarra þýðir það ekki að þitt ljós dvíni. Þér mun líða svo miklu betur þegar þú hefur lært að samgleðjast fólki fyrir þeirra árangur (vinum og ekki vinum) án þess að draga þig niður fyrir vikið, notaðu það frekar sem hvatningu til að halda því áfram með það sem þig langar að gera. Hvað þarf ég að gera til að komast þangað?
 4. Talaðu við einhvern. Leyfðu þér að upplifa tilfinningar, góðar og slæmar. Ekki loka þig og þær af, meðtaktu þær og talaðu við einhvern hvort heldur það sé mamma, pabbi, vinur, vinkona, amma, afi eða hreinlega 1717, bara ekki loka þig af og ætla að bæla þær niður. Það eru allar líkur á því að einhver í kringum þig sé að, hafi eða muni upplifa eitthvað svipað. Tölum saman.
 5. Það sem langflestir virtust vilja leggja áherslu á við sig sem ungling var að leyfa sér að vera eins og maður er. Hætta að eyða tíma í að óska þess að vera öðruvísi, hætta að reyna að breyta sér til þess að falla inn í einhvern hóp eða fyrirfram ákveðna staðla. Að allir eru óöruggir á einhvern hátt. Hætta að bera sig saman við aðra því þú ert þú og þau eru þau. Sumir þroskast snemma, aðrir seinna, sumir eru háir en aðrir lágir, ég er með massa úfið hár en besta vinkona mín rennislétt, sumir eru klárari í verklegum greinum en aðrir bóklegum og það er bara þannig en Þú ert alltaf nóg. Hættu að eyða tíma í þessa hluti og njóttu, njóttu hverrar stundar, hvers tímabils því tíminn mun svo sannarlega ekki hægja á sér því eldri sem þú verður, þvert á móti svo hví að eyða tíma í að óska þess þú værir öðruvísi í stað þess að taka þér eins og þú ert, elska þig og eyða tímanum í eitthvað meiri háttar uppbyggilegt sem gagnast þér að eilífu eins og áhugamálum, hæfileikum, osfrv. þó það þyki ekki kúl, það er kúl að vera öðruvísi. Svo skulum við ekki gleyma því að útlitið fjarar með tímanum en hæfileikar, kunnátta, góðmennska og það sem í raun gerir þig að þér, stendur með þér talsvert lengur, jafnvel allt til enda.
 6. Lærðu að fara vel með pening, að spara og þess háttar. Ég gat ferðast, margir keypt bíl, íbúð, átt fyrir námi.
 7. Maður er ekki misheppnaður þó manni mistakist, þvert á móti. Því oftar sem okkur mistekst, því oftar fáum við tækifæri til að standa upp, læra af reynslunni og prófa nýjar leiðir. Mistök eru oft stór hluti af því sem mótar þig, kennir þér og þroskar þig á ótal vegu, aftur, mikilvægast er að hætta aldrei, gefast aldrei upp. Mistakast frekar 100x og heppnast einu sinni heldur en að reyna aldrei og takast pottþétt aldrei neitt. Litlu börnin hætta sem betur fer ekki að reyna að labba í hvert skipti sem þau detta á rassinn
 8. Það voru þó nokkuð margir sem sögðu einfaldlega “hlustaðu á mömmu, hún veit best” en vá hvað ég man að mér fannst það oft ekki og hvað hún skildi mig bara ekki neitt og hvað ég ætlaði sko ekki að vera svona leiðinleg mamma með svona strangar reglur og allt það….Í dag, þá er sagan önnur, en kannski er það bara eitthvað sem maður þarf að læra af eigin reynslu. Eins og mamma hafi ekki verið unglingur sjálf.
 9. Kynlíf, kossar og rómantík eru yfirleitt ekki eins og í bíómyndunum, eiginlega bara aldrei. Það að einhver vilji sofa hjá þér þýðir ekki að viðkomandi elski þig. Þú mátt og átt að setja þín mörk og þú átt rétt á því að þeim sé fylgt og á sama hátt átt þú að stoppa við mörk annarra, stelpa eða strákur. Það mun ekki hafa áhrif á fullorðinslíf þitt ef þú hefur ekki farið í sleik fyrir framhaldsskóla.
 10. Lestu, lærðu, ferðastu, kynnstu heiminum, hvort sem það tengist námi/skóla eða öðru þá er fáfræði ekki aðlaðandi. Það er ekki einungis gott að vera meðvitaður um það sem er að gerast í kringum okkur, í samfélaginu, í heiminum heldur er það bara töff að vera vel upplýstur.
Til baka í yfirlit