Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Hvað er húmanismi? Upphaf hans

 

Uppruni húmanismans var sannleiksleit nokkurra einstaklinga á 15. öld í Evrópu, mest upphaflega í nágrenni höfuðstöðva páfadæmisins í Róm, á Ítalíu. Í borgum þar blómstruðu verslun og viðskipti, tengsl við fjarlæg lönd, umfram allt háskólar.

Miðaldakirkjan taldi sig hafa fundið algildan sannleika um manninn og heiminn. Öll ný leit að sannindum var talin fráleit og jafnvel hættuleg. Það sem skipti miðaldamenn máli voru kenningar kirkjunnar um hvað sem var. Jörðin var flöt og sólin snérist um hana. Karlinn vantaði rif vegna sköpunar konunnar og þannig má lengi telja. Sannleikur var tvímælalaus, afstæðni var trúvilla. Að efa var synd.

Í fornöld, fyrir daga miðaldakirkjunnar, var sannleiksleit og efahyggja almennt virt. Þá voru gerðar ýmsar fræðirannsóknir og margar nýjar hugmyndir komu fram um lífið og tilveruna og blómstruðu hlið við hlið og kepptu um hylli manna. Í Rómaveldi náði ein kenningarhefð, ákveðin gerð kristni, yfirhöndinni fyrir tilstuðlan keisara, og ýtti öðrum kenningum til hliðar. Kristnun Evrópu fól í sér afnám trúfrelsis hvar sem var.

Múslímskir Arabar þýddur úr grísku forn fræðirit, sem kristin kirkja hafði bannað eða ekki sinnt, og frá arabískmælandi hlutum Spánar fóru þessi fræði að berast til evrópskra lærdómssetra þegar á 13. öld.

Frá hámiðöldum, um árið 800, en þó einkum eftir árið 1000, höfðu miklar efnahagsframfarir orðið í Evrópu, akurlendi og mannfjöldi margfaldaðist með ruðningi skóga og þurrkun mýra og í kjölfarið risu og elfdust borgir. Þessi Evrópa var ekki lengur fátækur útkjálki Evrasíu heldur næstríkasti hluti hennar eftir Kína. Hún var andstætt Kína stjórnmálalega margklofin og var því vel í stakk búin til að veita menningarlegri sundurleitni viðtöku. Í kjölfar þessa fóru stöðugt fleiri Evrópumenn að leita að nýjum sannleika.

Efinn er upphaf að nýjum rannsóknum og hugmyndum manna sem ekki fylgdu endilega leiðsögn kirkjunnar. Áherslan á manngildið var forsenda þess að efagjarn maðurinn fór að leita nýs sannleika. Þaðan kemur orðið húmanismi, manngildisstefnan.

Rétt er umræðunnar vegna að skilja milli tveggja greina húmanismans. Annars vegar er um að ræða fræðilega leit að nýjum sannindum, fræði- og vísindastörf. Hins vegar nýjar hugmyndir sem komu í kjölfar þessarar leitar. Húmanisminn sem fræði hefur lifað samfleytt frá 15. öld í Evrópu og er grundvöllur fræðimennsku nútímans. Árekstrar milli vísinda og trúarbragða hafa að vísu verið stöðugir og samfelldir og eru t.d. mjög áberandi víða um lönd í dag. Eigi að síður hafa kirkjur ekki hindrað framfarir vísinda að neinu ráði þrátt fyrir góðan vilja til þess á köflum.

Öðru máli gildir um húmanisma sem lífsspeki, frelsi mannshugans og áhersluna á manngildið og réttinn til efa og sannleiksleitar sem oftast er óháð trúarbrögðum. Þessum húmanisma hafa margar, e.t.v. flestar, kirkjur afneitað, t.d. eru kaþólskar kirkjur honum opinberlega andsnúnar þótt einstaka þjónar þeirra hafi ekki endilega verið það. Dæmið er flóknara þegar um er að ræða kirkjur mótmælenda.

Allt frá upphafi hafa verið til menn sem hafa skilgreint sig kristna húmanista, sá frægasti þeirra er sennilega Erasmus af Rotterdam (1466-1536). Hann taldi að hver maður hefði rétt til að efast og leita nýs sannleika en um leið væri það honum til styrktar að teysta á kaþólskar trúarsetningar. Þrátt fyrir þetta voru fordæmdi þing Rómarkirkjunnar kenningar Erasmusar 1563 og lét brenna rit hans. Kaþólsku kirkjunni á Spáni er sérstaklega í nöp við hugmyndir Erasmusar og fékk fasíska einræðisherrann Frankó (sem þar ríkti 1939-1976) til að banna öll rit hans á nýjan leik.

Framhald verður á þessari grein í annarri grein sem ber heitið „Þróun húmanismans frá Lúter til nútímans“.

Gísli Gunnarsson

prófessor í sagnfræði

(24 Stundir 2008)

Til baka í yfirlit