Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Lífsskoðanakennsla í grunnskólum — göngum við rétta veginn?

Steindór J. Erlingsson, líf- og vísindasagnfræðingur skrifaði ítarlegt bréf til menntamálayfirvalda, kennara og fleiri þar sem hann vekur lesendur til um umhugsunar um fyrirkomulag kristni- og trúarbragðafræðslu í íslenskum skólum. Siðmennt hefur fengið leyfi til að birta bréf Steindórs hér.

 

—-Kæru alþingismenn, kennarar í Hamraskóla, menntamálaráðherra og fulltrúar ráðuneytisins, fulltrúar námsgagnastofnunar, fjölmiðlar og aðrir viðtakendur

Að undanförnu hafa birst fjórar greinar í Fréttablaðinu þar sem ég set fram gagnrýni á kristni- og trúarbragðafræðslu í grunnskólum landsins, sem byggist m.a. á ritverkum hins þekkta guðfræðiprófessors Bart D. PMrman. Markmiðið með þessum greinum var að fá fram almenna umræðu um stöðu þessara námsgreina innan skólakerfisins og ástæðu þess að kerfisbundið er þagað yfir efahyggju, trúleysi og húmanisma í lífskoðananámsefni barnanna okkar, þótt óumdeilt sé að þessar lífsskoðanir hafi haft mikil áhrif á mótun vestrænna samfélaga a.m.k. frá því á síðari hluta átjándu aldar og fram á okkar dag. Lítil umræða hefur því miður myndast um greinarnar á síðum dagblaðanna.

Í blogg-heimum hafa hins vegar farið fram líflegar umræður þar sem trúaðir einstaklingar hafa borið á mig þungar sakir. Svo virðist sem að sumir telji markið mitt með gagnrýninni sé að útrýma kristni eða trúarbrögðum almennt, en svo er auðvitað ekki, enda virðist það algjörlega ómögulegt. Í nýlegri grein, sem birtist í Kirkjuritinu, benti ég á að trúartilhneiging mannsins virðist honum upp að vissu marki í blóð borin, en eins og með alla líffræðilega þætti þá stjórnast birtingarmynd trúartilhneigingar af flóknu samspili við umhverfið sem einstaklingurinn býr við. Til marks um þetta virðist öflugt ríkisrekið velferðarkerfi að einhverju leyti svæfa trúartilhneigingu mannsins. Í þessum áhrifum velferðarkerfisins felst síðan ein möguleg skýring á mjög háu hlutfalli sjálfsprottins trúleysis, efahyggju og afneitunar trúar á persónulegan guð í flestum Vestur-Evrópulöndum (sjá töflu 1 aftast í skjalinu).

Einnig er rétt að árétta að ég vil alls ekki að trúarbragðafræðsla í grunnskólum landsins verði lögð niður enda eru trúarbrögð of samofin menningu mannsins til þess að slíkt sé réttlætanlegt. Að lokum vil ég benda á að ég er meðvitaður um það að sumir kennarar fjalla e.t.v. í kennslu sinni að einhverju leyti um þær hugmyndir sem ég geri að umtalsefni í greinunum, en að mínu viti er það algjörlega óviðunandi að foreldrar þurfi að treysta á einstaka kennara til þess að fylla upp í eyðurnar sem er að finna í námsefni og námskrá.

Til þess að reyna að halda umræðunni gangandi sem ég hratt af stað með áðurnefndum greinum hef ég nú safnað þeim, ásamt nokkrum öðrum blaðagreinum eftir mig, saman í þetta skjal í von um að það leiði af sér áherslubreytingar í lífsskoðanafræðslu grunnskólabarna. Sem heild mynda greinarnar samhangandi röksemdafærslu. Í sumum þeirra hef ég vikið lítið eitt frá prentaðir útgáfu, t.d. með því að flytja vísanir neðanmáls og gera þær ítarlegri. Í textanum sem hér fylgir felst engin stóri sannleikur eða endanlega lausn, enda er hér um að ræða knappar blaðagreinar sem m.a. hafa það að markmiði að vekja sterk viðbrögð. Eftir stendur hins vegar megin inntak ábendinganna sem ég set fram í greinunum, sem ég held að enginn sanngjarn einstaklingur geti hafnað.

Á næstunni mun ég senda öllum grunnskólakennurum og nokkrum völdum stofnunum skjalið.

Skjalið sem hér er vísað í nefnist „Lífsskoðanakennsla í grunnskólum — göngum við rétta veginn?“ og er hægt að nálgast á slóðinni http://www.raunvis.hi.is/~steindor/lifsskodanir.pdf

Efnisyfirlit:
Formáli (textinn hér að ofan auk ítarlegra neðanmálsgreina)
Viðheldur fáfræði kristninni?
Enn um Jesúm og heimsendi
Er kristinfræðsla trúboð?
Mismunun lífskoðana
Trúleysi skiptir líka máli
„Upprisa“ Jesú, Vithönnun og skammtafræði
Er óeigingirni guðleg?
Trúleysingjar eru góðir nágrannar
Tafla 1: 49 trúlausustu þjóðirnar
Heimildaskrá

Með kærri kveðju,
Steindór J. Erlingsson, BSc, MSc, PhD
Líf- og vísindasagnfræðingur
http://www.raunvis.hi.is/~steindor/

Höfundur er félagsmaður í Siðmennt

Til baka í yfirlit