Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Mikilvægar upplýsingar varðandi fermingarathöfnina

Kæra fermingarbarn, foreldri eða forráðamaður,
Nú eru línur varðandi fermingarathöfnina farnar að skýrast og því tímabært að láta ykkur vita um gang mála.

 

Undirbúningur athafnarinnar
Nokkur fermingarbörn eru nú að æfa dagskrá með tónlistarflutningi og upplestri. Tveir ræðumenn, þeir Felix Bergsson, sjónvarpsmaður og leikari og Halldóra Geirharðsdóttir, leikkona, flytja stutt ávörp. Fermingarstjóri verður Sigrún Valbergsdóttir, leikstjóri.

Fermingarathöfnin
Athöfnin fer fram sunnudaginn 17. apríl 2005, kl. 11:00 í Háskólabíói. Fermingarbörn mæti stundvíslega kl. 10:30. Athöfnin mun væntanlega standa yfir í um klukkustund. Dagskráin lofar góðu, en þar skiptast á atriði í umsjá fermingarbarna, tónlist og stutt ávörp. Við athöfnina munu fermingarbörn fá afhent skjal sem staðfestir þátttöku þeirra í undangengnu fræðslunámskeiði.
Að athöfn lokinni fer fram hópmyndataka sem tekur væntanlega um 20 mínútur, sjá nánari upplýsingar hér að neðan.

Gestir rísa úr sætum þegar fermingarbörn ganga í salinn.
Vinsamlegast slökkvið á farsímum meðan á athöfninni stendur.

Æfing
Æfing fyrir fermingarathöfnina verður í Háskólabíói laugardaginn 16. apríl 2005 kl. 9:30. Öll fermingarbörn verða að mæta.
Allur hópurinn æfir inngöngu í sal, uppgöngu á svið, móttöku skírteina, útgöngu af sviði og uppstillingu fyrir myndatöku. Að því loknu munu þau fermingarbörn sem verða með atriði í athöfninni æfa sinn þátt. Þau eiga að koma með hljóðfæri, nótur, ávarp, ljóð eða annað sem nota á við athöfnina. Aukaeintak af ljóðum, ávörpum og nótum á að afhenda fermingarstjóra á æfingunni.
Munið að koma stundvíslega til æfingarinnar. Komist fermingarbarn ekki, er mikilvægt að foreldri eða forráðamaður komi í þess stað. Æfingin hefst þegar allir eru komnir og sestir í sitt sæti í salnum. Komið staðráðin í að gera ykkar besta, fljótt og vel.

Takmörkuð sæti
Í ár verða fermingarbörnin 93 sem er langstærsti hópurinn hingað til. Þessi mikli fjöldi þýðir að setja verður strangar reglur varðandi fjölda gesta í athöfninni sjálfri. Þó Háskólabíó sé rúmgott hús verður meginreglan að vera sú að ekki geta fleiri en 9 gestir fylgt hverju barni. Í könnun sem gerð var í janúar s.l. óskuðu nokkrir foreldrar eftir fleiri sætum, allt uppí 25 á barn. Því miður er ekki hægt að verða við þeim óskum því ef öll börnin eru með 9 gesti, er bíóið orðið fullt. Nokkrir foreldrar sögðust hins vegar aðeins vera með 5 eða 6 gesti pr. barn og ef það gengur eftir og aðrir takmarka sig við 10 með fermingarbarninu sjálfu, ættu allir að geta fengið sæti. Væntanlega er þessi gestafjöldi nægur fyrir flest fermingarbörnin en í barnmörgum fjölskyldum sem þurfa fleiri sæti gæti þurft að sitja undir yngri systkinum.

Hópmynd
Flestir þátttakendur hafa óskað eftir að fá hópmynd. Anna Fjóla Gísladóttir, ljósmyndari (s. 553 9571 / 898 3410), mun taka hana í lok athafnar í Háskólabíói. Myndin verður 30 x 24 cm, í lit og kostar 2.800 kr. Búið er að skrá þá sem hafa óskað eftir mynd. Þeir munu fá hana í pósti eða afhenta persónulega, ásamt gíróseðli.

Athugið: Hópmyndin er EKKI innifalin í gjaldi Siðmenntar vegna fermingarathafnarinnar.

Borgaraleg ferming á DVD eða VHS
Upptaka af borgaralegri fermingu 17. apríl 2005 verður fáanleg á bæði DVD mynddiski og VHS myndbandi, ásamt “slides show” sem er sýnt í byrjun athafnarinnar og margar ljósmyndir af athöfninni. Óskar Ásgeirsson, félagi í Siðmennt, sér um upptöku og frágang. Vel verður vandað til upptökunnar og alls frágangs. Hægt er að panta eintak með því að senda tölvupóst á upptaka@sidmennt.is eða hringja í Hope í síma 567-7752. Pöntunum verður safnað saman og efnið fjölfaldað þegar nokkrar pantanir hafa borist. Eintakið kostar 3000 krónur hvort sem pantað er DVD eða VHS og rennur hluti ágóðans (kr. 500) í styrktarsjóð Siðmenntar.

Kostnaður vegna fermingarathafnarinnar
Endanlegt verð vegna athafnarinnar liggur ekki fyrir en áætlaður kostnaður er kr. 3.500 á hvert barn. Þessari upphæð er ætlað að standa straum af kostnaði, t.d. af aðfengnum dagskráratriðum, leigu á flygli, blómaskreytingum, prentun á dagskrá og fleiru. Gíróseðill vegna þessa verður sendur út um viku fyrir fermingu.

Annað
Þeir sem eiga eftir að greiða námskeiðsgjaldið eru beðnir að standa skil á því hið fyrsta.

Bestu kveðjur,
Álfheiður, Erna, Hope, Katrín, Sigurlaug og Sjöfn í undirbúningsnefndinni.

Til baka í yfirlit