Fara á efnissvæði

Framboð til stjórnar

Í lögum Siðmenntar segir:
5.1 Stjórn skipa fimm félagsmenn og fjórir til vara. Kjósa skal í stjórn, ráð, nefndir og aðrar trúnaðarstöður innan félagsins árlega nema formann. Skal kjörtímabil formanns vera tvö ár. Formaður er kosinn sérstaklega, þá annað fólk í stjórn og loks varamenn. Önnur embætti innan stjórnar eru: varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Ef fleiri eru í kjöri en fjöldi í stjórn segir til um skal viðhafa leynilega kosningu.

 

Borist hafa fimm framboð í aðalstjórn og þrjú í varasæti.

Eftirfarandi frambjóðendur gefa kost á sér:

Framboð til formennsku

Formaður Siðmenntar skal kjörinn annað hvert ár

Inga Auðbjörg K. Straumland

Inga Auðbjörg K. Straumland hefur verið formaður Siðmenntar síðastliðin fjögur ár, en formaður er kjörinn á tveggja ára fresti. Inga býður sig nú fram til formennsku í þriðja sinn, en nánari upplýsingar um framboð er að finna á vef Ingu

Framboð í aðalstjórn

Í aðalstjórn eru fjögur sæti

Arnar Snæberg Jónsson

Ég heiti Arnar Snæberg Jónsson og ég býð mig fram í stjórn á aðalfundi Siðmenntar þann 18. mars nk.


Ég er 45 ára Strandamaður og bóndasonur, búsettur í Hafnarfirði. Fjögurra barna faðir og maðurinn hennar Hildar. Ég er tómstunda- og félagsmálafræðingur og starfa núna sem vefstjóri hjá Landsvirkjun eftir áratug sem verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg. Pönktónlistarmaður og alls konar annað í hjáverkum, lífsglaður og opinn en fer líka til sálfræðings til að tækla þunglyndi og miðaldrakrísur (mæli með!)


Ég gekk í Siðmennt upp úr 2015 eftir að hafa kynnt mér húmanisma í þaula og komist að því að hann endurspeglar mína lífssýn fullkomlega.
Ég er búinn að vera athafnastjóri í tæplega fimm ár. Það eru algjör forréttindi - mest gefandi vinna sem ég hef fengist við um ævina.
Ég hef setið í athafnaráði Siðmenntar síðan 2019 og er formaður ráðsins í dag. Þar hef ég kynnst innra starfinu vel, skipulagt og framkvæmt alls konar viðburði, komið að nýliðaþjálfun og margt fleira. Fyrst og fremst hef ég þó kynnst fjöldanum öllum af frábæru fólki og eignast góða vini. Fyrir það er ég óskaplega þakklátur


Í gegnum vinnuna fyrir Siðmennt hef ég áttað mig á því að tækifærin fyrir félagið til að vaxa og dafna og blómstra eru óteljandi. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að svo megi verða og þjóna Siðmennt enn betur með stjórnarsetu.

Guðjón Sigurbjartsson

Guðjón Sigurbjartsson er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1982.

Helstu störf:

  • Yfirmaður fjármála- og rekstrardeildar, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar
  • Fjármálastjóri, Rafmagnsveitu Reykjavíkur
  • Rekstur eigin fyrirtækis Tanna auglýsingavörur.

Rekur nú eigin fyrirtæki HEI – Medical travel sjá www.hei.is

 

Félagsstörf meðal annars: 

  • Var í stjórn Neytendasamtakanna.
  • Var í stjórn Pírata í Reykjavík nokkur ár, síðast sem formaður tvö tímabil.
  • Er í Rotaryklúbbi Árbæjar.

Er í varastjórn Siðmenntar síðan vorið 2022.

 

Fjölskylda:

Kvæntur Guðrúnu Barböru Tryggvadóttur, framkvæmdastjóra Nýrnafélagsins með meiru.  Uppkomnar dætur:

  • Sigrún Lilja, framkvæmdastjóri eigin fyrirtækis
  • Dóra Björt borgarfulltrúi Pírata.

Kristín Helga Schiöth

Ég, Kristín Helga Schiöth, býð mig fram til áframhaldandi stjórnarsetu fyrir Siðmennt; ég er að ljúka mínu fyrsta ári sem aðalmaður og árið þar áður sat ég sem varamaður í stjórn. 

Ég er 35 ára, menntuð í heimspeki og alþjóðafræðum og starfa sem verkefnastjóri í umhverfis- og loftslagsmálum. Ég er búsett á Akureyri ásamt fjölskyldu minni og sinni þar fermingarfræðslu fyrir Siðmennt fyrir börn á Norðurlandi. Mér þykir afskaplega vænt um Siðmennt og hef verið félagi frá því ég lét sjálf ferma mig borgaralega fyrir ansi mörgum árum síðan. 

Ég er stolt af þeim vönduðu athöfnum sem Siðmennt framkvæmir og þykir mikilvægt að fólk hafi val þegar kemur að nokkrum mikilvægustu stundum í þeirra lífi. Starfsemin hefur farið vaxandi undanfarin ár og áhersla verið lögð á að styðja við athafnir utan höfuðborgarsvæðisins, það vil ég gjarnan halda áfram að gera. Ég hef auk þess sérstakan áhuga á að bæta aðgengi fólks að veraldlegri eða húmanískri sálgæslu, t.a.m. við veikindi á sjúkrahúsum eða dauðsföllum. 

 

Kristín Sævarsdóttir

Ágætu félagar. Ég býð mig fram sem aðalmaður í stjórn Siðmenntar á aðalfundi félagsins 18.mars nk. 

Ég hef verið félagi í Siðmennt í fjölda ára og verið gjaldkeri í stjórn undanfarin fjögur ár. Ég var stofnfélagi í SARK (samtökum um aðskilnað ríkis og kirkju, stofnað 1994) og var í fyrstu stjórn samtakanna. Ég var í mörg ár í stjórn Hinsegin daga í Reykjavík og var í fyrstu stjórn þess félags, auk þess að hafa starfað  í alþjóðasamtökunum Interpride. 

Ég hef starfað í Samfylkingunni í mörg ár, var formaður Kópavogsfélagsins og varabæjarfulltrúi og hef setið í ýmsum nefndum á vegum Samfylkingarinnar í Kópavogi. Nú er ég fulltrúi í Umhverfis, - og samgöngunefnd bæjarins.

Ég er 59 ára og bý í Kópavogi með konu minni Valgerði Þ.E. Guðjónsdóttur. Ég starfa sem vörustjóri hjá Húsasmiðjunni og stunda blak og sjósund í frítíma.

Siðmennt hefur vaxið mikið og verferlar og skipulag félagsins hafa tekið stakkaskiptum á undanförnum fjórum árum, ekki síst vegna dugnaðar og framsýni okkar ágæta formanns. Framundan eru ýmis verkefni sem lúta að því að auka sýnileika og efla skipðulag félagsins og stuðla að umræðu um húmanisma í samfélaginu.  

Ég er reiðubúin til að taka þátt í því og býð fram krafta mina í næstu stjórn.

Sigurður Rúnarsson

Kæru félagar. Ég býð mig hér með fram til endurkjörs í stjórn Siðmenntar - Félags siðrænna húmanista á Íslandi á aðalfundi (Aðalfundur Siðmenntar 2023) sem fer fram þann 18. mars 2023.

Ég er tæplega 49 vetra ungur maður alinn upp að mestu í Reykjavík og hef verið félagi í Siðmennt frá 2012. Ég lauk námskeiði fyrir nýja athafnarstjóra haustið 2013 hef starfað sem athafnastjóri félagsins síðan þá. Þar að auki var ég athafnastjóri í Noregi hjá HEF - systursamtökum Siðmenntar í Noregi í 2 ár.  Síðust tvö ár hef ég verið ritari stjórnar Siðmenntar og býð því áfram fram krafta mína til starfa fyrir félagið.
 

Ég sat áður í stjórn tveggja félaga HEF (Drammen og Buskerud) um 3 ára skeið og hef reynslu af uppbyggingu lífskoðunarfélaga bæði landshluta og á landsvísu. Ég flutti 2020 til Íslands eftir 7 ára búsetu í Noregi og starfa í dag sem sérfræðingur í upplýsingatækni hjá Reykjavíkurborg. 

Þar sem ég hef mikinn áhuga á starfi, tilgangi og stöðu Siðmenntar í íslensku samfélagi að þá langar mig til að leggja mitt á vogarskálarnar til að styrkja og byggja upp félagið næstu árin. 

Ég vill auk þess í störfum mínum störfum fyrir félagið leggja áherslu á að efla kynningu Siðmenntar í samfélaginu og fjölga félögum með fræðslu og jákvæðri kynningu á Siðmennt sem fallegur og virðulegur valkostur þegar kemur að stóru viðburðunum í lífinu. Einnig vill ég efla enn frekar samtarf við erlend systurfélög Siðmenntar ekki síst á Norðulöndum og í Bretlandi. 

Ég hef persónulega mikinn áhuga á tungumálum, sagnfræði og mannfræði ásamt tölvu- og upplýsingatækni. Ég tel að reynsla mín af félagsstörfum, starfinu og lífinu öllu geti komið félaginu til góða og óska því eftir stuðningi ykkar í  á aðalfundinum þann 17. næstkomandi. 

Framboð til varastjórnar

Í varastjórn eru fjögur sæti. Eftirfarandi framboð hafa borist:

  • Guðni Rúnar Jónasson
  • Hope Knútsson
  • Mörður Árnason

Hope Knútsson

Ég tilkynni hér með að ég hyggst bjóða mig fram til setu í stjórninni sem varamaður. Mér þykir vænt um Siðmennt og er tilbúin að starfa fyrir samtökin svo framarlega sem ég er heilsuhraust og sterk. Ég tel að það sé hagur fyrir samtökin að hafa stjórnarmann sem þekkir alla sögu samtakanna og getur lagt til bakgrunnsupplýsingar um marga þætti í tilveru þess. Ég er iðjuþjálfi og aðgerðasinni,  og hef starfað í þágu mannréttinda og jafnréttis mismunandi hópa á Íslandi í rúmlega 4 áratugi.

 

Ýmislegt úr CV hjá mér:

  • BA sálfræði og heimspeki, masters í iðjuþjálfun 
  • vann á Kleppsspítalanum (2.5 ár)
  • einn af stofnendum Iðjuþjálfafélags Íslands,(formaður 22 ár) 
  • starfaði að stofnun námsbrautar í iðjuþjálfun (2 áratug)
  • fulltrúi Íslands til Heimssambands Iðjuþjálfa (28 ár) 
  • formaður Geðhjálpar (5 ár) 
  • stofnaði Félag nýrra íslendinga, samtök enskumælandi útlendinga formaður þess (5 ár). 
  • stofnaði Fjölmenningarráð: málsvari útlendinga á Íslandi, til að standa vörð um mannréttindi útlendinga. (Formaður 6 ár)
  • 1989 stofnaði fyrstu borgaralegu ferminguna á Íslandi. Var framkvæmdastjóri BF þar til í ágúst 2019 (31 ár) 
  • tók þátt í að stofna Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi 1990. Formaður 1996-2015