Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Opið bréf til Páls Magnússonar útvarpsstjóra RÚV

Reykjavík 10. nóvember 2010

Undanfarið hefur Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, orðið fyrir mikilli gagnrýni frá starfsmönnum Þjóðkirkjunnar í fjölmiðlum. Hefur sú gagnrýni meðal annars komið frá prestum og sjálfum biskupnum yfir Íslandi. Stjórn Siðmenntar fagnar allri málefnalegri umræðu um mannréttindi og ólíkar lífsskoðanir.

Stjórn Siðmenntar vill þó gera alvarlegar athugasemdir við þau ósannindi sem hafa verið látin falla um félagið á vettvangi RÚV. Húmanistar hafa verið sakaðir um að vilja banna fræðslu um trúarbrögð í skólum, vilja banna jólaundirbúning og meira að segja hafa húmanistar verið sakaðir um að vilja banna öðru fólki að trúa og hafa sína lífsskoðun. Þetta eru allt meiðandi rangfærslur sem þarf að leiðrétta.

Stjórn Siðmenntar telur algjörlega ólíðandi að prestar Þjóðkirkjunnar geta notað Ríkisútvarpið sem vettvang fyrir árásir sínar á húmanista og Siðmennt eða hvaða önnur félög á kostnað skattborgaranna. Sem dæmi má nefna útvarpsmessu sunnudaginn 7. nóvember þar sem Sr. Bára Friðriksdóttir fer, væntanlega vísvitandi (þar sem stefna Siðmenntar í þessum málum er skýr) með rangt mál þegar hún segir að húmanistar vilji banna kristnum að iðka trú sína!1 Í því sambandi vill Siðmennt sérstaklega taka fram að félagið berst fyrir rétti manna til að tjá sig og hafa sínar eigin lífsskoðanir og er málfrelsi þessa prests til að tjá trú sína engin undantekning þar á. Eitt megin markmið Siðmenntar er að tryggja trúfrelsi á Íslandi.

Samkvæmt 11. gr. útvarpslaga um andsvarsrétt, á Siðmennt rétt á andsvari vegna þess að telja má að orðspor félagsins (húmanista) hafi „beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í útvarpsdagskrá“2. Siðmennt óskar því eftir að fá að veita andsvar á sambærilegum vettvangi.

Fyrir hönd stjórnar Siðmenntar

Bjarni Jónsson, varaformaður

1Orðrétt hjá Sr. Báru: „..ég er ekki sátt þegar þeir [húmanistar] vilja banna mér og 90% þjóðarinnar að hafa mína lífsskoðun.

Sjá upptöku á http://dagskra.ruv.is/ras1/streymi/4546344/?544 eftir að 26:55 mínútur eru liðnar af messunni.

2http://www.althingi.is/lagas/138b/2000053.html

Til baka í yfirlit