Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Athafnaþjónusta Siðmenntar á vaxandi vinsældum að fagna

Athafnaþjónusta Siðmenntar á Suðvesturlandi og Norðurlandi

Siðmennt hefur starfrækt athafnaþjónustu fyrir tímamótaathafnir fjölskylda frá 29. maí 2008 (jarðskjálftadaginn) og hefur nú þjónað ríflega hundrað fjölskyldum yfir þann tíma við nafngjafir, heimafermingar, giftingar og útfarir.  Athafnirnar hafa verið á víð og dreif á höfuðborgarsvæðinu en einnig í Kjósinni, Mosfellsbæ, Heiðmörk, Hveragerði, Selfossi, Grindavík, Búðum, Þrastarskógi, Haukadal og Skagafirði.  Útigiftingar hafa verið vinsælar á sumrin, sérstaklega í Elliðaárdalnum.

Um 9 af hverjum 10 sem biðja um athafnarstjórn hjá Siðmennt eru utan félagsins.  Athafnir félagsins eru ekki með  trúarlegu innihaldi, heldur byggja þær á heimspekilegu siðferði (húmanisma) og þáttum sem eru persónulegir og vekja upp góðar tilfinningar.  Athafnir á vegum félagsins miðla hlýleika, hátíðleika og gleði.  Margir sjá sammannlega þætti í þeim og vilja athöfn hjá Siðmennt, t.d. foreldrar barns sem eru sitt hvorrar skoðunar í málum trúar eða lífsskoðana.  Athafnir Siðmenntar hafa þann eiginleika að þær geta sameinað fólk um þann grunn sem er sameiginlegur öllu mannfólki.

Siðmennt hefur í þjónustu sinni athafnarstjóra á Suðvesturhorni landsins og á Akureyri – Dalvíkursvæðinu. Smám saman er áætlað að auka þjónustuna og bjóða á fleiri stöðum.

Lagahliðin

Fyrir Alþingi liggur lagafrumvarp sem á að jafna stöðu veraldlegra lífsskoðunarfélaga eins og Siðmenntar fyrir lögunum og fái frumvarpið brautargengi er þess ekki langt að bíða að pör þurfi ekki að fara fyrst til sýslumanns til að gifting hjá Siðmennt sé bæði á lagalegum og fjölskyldulegum forsendum.  Nafngjafir hafa svo sem ekki haft neinn lagalegan tilgang þó að prestar hafi tekið af ómakið af foreldrunum og sent inn tilkynninguna um nafn barnsins.  Í lögum segir að það þurfi að nefna barn og skila inn skýrslu til Þjóðskrár áður en það er 6 mánaða gamalt.  Foreldrarnir geta gert það sjálfir og þurfa ekki neinn lögaðila til að koma að því.  Í tilviki útfara þarf að liggja fyrir leyfisbréf sýslumanns um að útför megi fara fram og þarf sá aðili sem stýrir útförinni að hafa það bréf í höndum hvort sem að það er ættingi, prestur eða athafnarstjóri.

Víð skírskotun

Athafnir Siðmenntar eru tilvaldar fyrir fólk sem vill ekki hafa trúarlega þætti í sinni athöfn sem það trúir ekki á eða höfðar ekki til þeirra.  Við það verður athöfnin mun persónulegri.  Þá eru nafngjafirnar einungis til að gefa barninu nafn og fagna komu þess í fjölskylduna en ekki til að fara með trúarjátningar eða skrá barnið í söfnuð eða félag.  Með því að fá nafngjafarathöfn gegnum Siðmennt er barninu leyft að vera barn.  Réttur þess til að velja þegar það er orðið sjálfráða um flókin efni er virtur.  Sama gildir um fermingar hjá Siðmennt.  Engar játningar um hollnustu gagnvart sérstökum hugmyndum eða leiðtogum.  Borgaraleg ferming er tími uppbyggilegrar fræðslu og þátttöku í umræðum um margt það sem skiptir máli í daglegu lífi.  Virt er að barnið fái að velja þegar það er orðið fullorðið.

Auðvelt að fá athöfn

Það er auðvelt að panta athöfn hjá Siðmennt.  Hér á síðunni fyrir ofan má finna hlekki á hverja athöfn og opna síðu með rafrænu umsóknarformi.  Eftir að það er sent mun umsjónarmaður athafnaþjónustunnar hafa samband innan fárra daga og finna athafnarstjóra fyrir umbeiðanda.  Verðið er hóflegt því að þessi þjónusta er að miklu leyti hugsjónavinna athafnarstjóranna. Fólk sem fær athöfn hjá félaginu og vill jafnframt ganga í það fær fyrsta ár aðildar frítt.  Í ár stefnir í tvöföldun á fjölda athafna frá í fyrra og það er von okkar að með hverju ári notfæri sér fleiri og fleiri þennan góða kost þegar að tímamótum kemur.

F.h. Athafnaþjónustu Siðmenntar, Svanur Sigurbjörnsson

Til baka í yfirlit