Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Einkamál: Eru trúleysingjar á Íslandi?

Þversögn í meira lagi

Samkvæmt stjórnarskránni er trúfrelsi á Íslandi. Það birtist meðal annars í því að kristinn söfnuður fær að starfa í ýmsum fylkingum sem þó hafa oft með sér samstarf. Einnig eru hér til smáhópar fólks úr framandi trúfélögum og fær það að halda sín trúmál í heiðri; okkur er meira að segja leyft að iðka Ásatrú ef vill.

í ljósi þessa er tvennt sem stingur í augu og sýnir að trúfrelsi er háð viðteknum skoðunum, aðstæðum og öðru, sem reyndar á við um alls konar „frelsi“ og er það raunar ekki óeðlilegt: í einn stað eru foreldrar látnir ákveða trúfélag einstaklinga sem hafa hvorki aldur né þroska til að ákvarða slíkt sjálfir; börn eru skírð og unglingar fermdir. í hvorugu tilvikinu getur einstaklingurinn tekið hlutstæða ákvörðun.

I annan stað er hér ríkiskirkja sem stendur þess vegna skör hærra en önnur trúfélög. Hún nýtur fyrirgreiðslu hins opinbera og angar hennar teygja sig í skólana þar sem hvorki er spurt um trúarstöðu nemenda né skoðanir foreldra.

Úr því trúfrelsið er svona aðþrengt, og það ekki að ósekju ef tekið er tillit til sögu og aðstæðna, þá hlýtur að vera nauðsynlegt að berjast fyrir breytingum þar á; rétt eins og menn hafa barist fyrir því að mál standa nú eins og augljóst er í þessum efnum.

Yfirboðari?

Það er erfitt að skilgreina hugtakið trú eða trúarbrögð. í því felst til dæmis að menn telja alsjáandi stýrimann að baki atburðarásar, bæði hér á jörðu og í alheiminum; afl sem hefur tilgang og ástæður fyrir gerðum sínum. 1 því felst líka sú tilhneiging mannsins, sem ávallt hefur takmarkaða þekkingu á alheiminum, til að skýra þau ferli er hann ekki getur skýrt. Maðurinn hefur væntanlega iðkað trúarbrögð í þúsundir ára; inntakið hefur breyst í áranna rás og ólík menningarþróun hefur fætt af sér mismunandi trúarbrögð. Sumt bendir til að þessi trúariðkun sé langætt stig í þróun mannsins.

Kristnin, sú sem Íslendingar sórust undir fyrir um 1000 árum, er sannarlega samþætt úr mörgum menningarkimum og er langlíf vegna þess að grunnur hennar er að hluta til siðaboðskapur sem hæfir nútímaþjóðfélögum. Og burtséð frá trúarþætti kristninnar þá hefur hún líka galla sem sjá til þess að hún hefur verið og verður ekki annað en ein af mörgum trúarbrögðum sem hluti mannkyns aðlagar tímanum uns ný viðhorf ýta þeim til hliðar. Ég nefni aðeins tvennt: Yfirlætið sem felst i því að kristnir menn álíta sína trú öðrum æðri og svo þá staðreynd að fjölmargir þættir kristni eru í andstöðu við vísindaþekkingu þótt aðrir séu það ekki. Fyrra atriðið hefur litað sögu kristninnar óhugnaði og hamingjan má vita hve mikil menningarverðmæti og hve mikið sjálfræði hefur farið í súginn vegna kristniboðs sem talið er þörf á til að útrýma „því frumstæða“. Auðvitað hefur kristnin, eins og öll önnur trúarbrögð, leitt af sér margt gott enda eru trúarbrögð mótsagnakennd eins og önnur félagsleg fyrirbæri. Hitt atriðið kristallast í sífelldum deilum; átökum milli trúarkenninga (t.d. um eðli alheimsins og myndun sólkerfisins) og nýrrar þekkingar þar sem kristið viðhorf er oftast þvergirðingin eða bábiljan. Svo gefur kirkjan eftir og þar sannast að kristni (eins og önnur trúarbrögð) þróast með samfélaginu (um leið og hún mótar það að hluta) enda er trú ekki frá guðum heldur mönnum.

Trúleysi er ekki sérviska

Af mörgum ástæðum eru margir ekki kristnir heldur einhverrar annarrar trúar. Af mörgum ástæðum eru líka til trúlausir menn; þar á meðal þeir sem geta ekki verið kristnir vegna ofangreindra atriða. Þeir finna heldur ekki hjá sér þá trúarþörf sem sumir segja að sé manninum eðlileg. Þeir þurfa hvorki að finna tilgang með lífi sínu eða lífi á jörðu utan þess sama lífs né hafa áhyggjur af því sem er enn handan skilnings. Fyrir þeim eru ekki til „hin hinstu rök“, neinn dómur eða stýrandi sem stýrir af tilgangi; aðeins náttúra og ferli sem hafa áhrif sín í milli. Ekki veit ég hve margir þeir eru á Íslandi en ég tel að trúfrelsi stjórnarskrárinnar eigi að ná til þeirra á marga vegu.

Til dæmis á að kynna fólki heimild til nafngjafar án skírnar og athuga við hverjar kosningar hvort kjósendur vilji ganga úr þjóðkirkjunni. Svo þyrfti að skipuleggja borgaralegar fermingar og jarðarfarir, rétt eins og giftingar. f skólum landsins á að gefa nemendum kost á annarri námsgrein en kristnum fræðum, svo sem trúarbragðasögu eða kynningu á helstu heimspekikenningum. I mörgum V-Evrópulöndum starfa samtök að því að koma þessu á og halda uppi umræðu um trúmál jafnt sem . húmanisma. Ég veit til að mynda að í Noregi er til Human Etisk forbund sem telur tugi þúsunda félaga og heldur uppi öflugu starfi. Ekki ber svo að skilja að ég sé að bjóðast til að koma upp slíku starfi hér. Ég kem hugmyndinni bara á framfæri. Úr því að hægt er að stofna hér furðufélag á borð við samtök stjörnuspekinga þá hlýtur að vera reynandi að finna mótvægi gegn öllu því yfirnáttúrlega fræðaflóði sem yfir okkur gengur. Kristnir menn jafnt sem annarrar trúar fólk og trúleysingjar ættu að sjá sér hag í slíku.

Ari Trausti Guðmundsson

Til baka í yfirlit