Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Siðmennt óskar eftir afsökunarbeiðni biskups

Stjórn Siðmenntar sendi Karli Sigurbjörnssyni biskup Þjóðkirkju Íslands í gær 5. desember bréf þess efnis að félagið fari fram á við biskup að biðjast afsökunar, draga til baka eða leiðrétta opinberlega ummæli sín um að „Siðmennt [séu] hatrömm samtök“ sem höfð voru eftir honum og skrifuð í tveimur fréttum á bls 2 í dagblaðinu 24-Stundum föstudaginn 30. nóvember s.l.

Einnig er áréttað nú beint við biskup, eins og áður hefur verið gert gegnum greinaskrif, að Siðmennt hefur aldrei mælt mót kristinfræðslu eða trúarbragðafræðslu í skólum.

Siðmennt mun bíða svars frá Karli Sigurbjörnssyni biskupi Þjóðkirkju Íslands. Bréfið er birt hér í heild sinni.


Opið bréf til Hr. Karls Sigurbjörnssonar, biskups Þjóðkirkju Íslands 4. desember 2007

Frá Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi

Sr. Karl Sigurbjörnsson

Vegna ummæla um Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, sem höfð voru eftir þér og birt á bls 2 í dagblaðinu 24-Stundir föstudaginn 30. nóvember, biður Siðmennt þig um eftirfarandi:

– Að þú persónulega og sem biskup Þjóðkirkjunnar biðjist opinberlega afsökunar á eða dragir til baka opinberlega þau ummæli þín að „Siðmennt [séu] hatrömm samtök“.

– Í umræddri frétt 24-Stunda sem ber titilinn „Nýja testamentið afþakkað“ er sagt orðrétt: „Karl telur Siðmennt hatrömm samtök“.

– Neðar á sömu síðu (nr 2) er frétt undir heitinu „Trúboð gegn kristni í skólum“. Þar segir orðrétt að þú Karl Sigurbjörnsson hafir sagt: „Þetta eru hatrömm samtök sem vilja að öllu leyti stöðva aðkomu trúarinnar í skólum“. Þó að í þessari sömu frétt sé sagt: „Fámennur, sterkur minnihlutahópur geri nú atlögu að kirkjunni“, er ljóst af fréttinni ofar á síðunni að þú beinir orðum þínum til Siðmenntar. Teljir þú að um mistök sé að ræða hjá blaðamanni 24-Stunda og ekki hafi verið rétt haft eftir þér förum við fram á við þig að það komi opinberlega fram hver þau mistök hafi verið og hvað þú hafir í raun sagt.

– Þú hefur notað fjölmörg opinber tækifæri til að fullyrða að Siðmennt sé á móti kristinfræðslu og trúarbragðafræðslu í skólum. Þetta er alrangt enda hefur Siðmennt alltaf stutt öfluga trúarbragðafræðslu þar sem sértök áhersla er lögð á kristni vegna sögulegra tengsla þeirra trúarbragða við landið. Við hvetjum þig því til að viðurkenna nú opinberlega raunverulega stefnu Siðmenntar. Félagið er á móti trúboði í opinberum skólum en félagið er ekki á móti fræðslu um trúarbrögð.

Siðmennt tekur því mjög alvarlega að æðsti fulltrúi stærsta trúarsafnaðar landsins hafi jafn meiðandi og niðrandi orð um félagið og hér er vitnað í. Félagið sér um borgaralegar fermingar á ári hverju og yfir 100 foreldrar treysta félaginu fyrir mikilvægri kennslu fyrir ungmenni þeirra á fermingarnámskeiði félagsins. Þetta hlutverk félagsins er ábyrgðarmikið og viðkvæmt en yfir 1000 ungmenni hafa fermst borgaralega á vegum félagsins undanfarin 19 ár við mjög góðan orðstír.

Það er ákaflega ærumeiðandi fyrir félagið og þá foreldra sem hafa treyst Siðmennt fyrir börnum sínum að heyra frá biskupi Þjóðkirkjunnar að „samtökin [séu] hatrömm“. Að sama skapi truflar það opinbera umræðu um trúfrelsi þegar æðsti leiðtogi Þjóðkirkjunnar fullyrðir reglulega að Siðmennt sé á móti fræðslu um kristna trú.
Það er von okkar að samskipti Siðmenntar og Þjóðkirkjunnar geti verið með eðlilegum hætti og með vinsemd þótt skiptar skoðanir um lífsskoðanir séu fyrir hendi.

Virðingarfyllst,
F. h. Siðmenntar, félags siðrænna húmanista
Hope Knútsson , formaður Siðmenntar [undirskr]
—-

Siðmennt heyrði ekkert frá biskup daginn sem hann fékk bréfið í hendur, 4. desember 2007. Fjölmiðlar birtu úrdrátt úr efni bréfsins á vefmiðlum.

Til baka í yfirlit