Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Skýrsla formanns 25. febrúar 2004

Skýrsla formanns Siðmenntar sem flutt var á aðalfundi félagsins miðvikudaginn 25. febrúar síðastliðinn.

Starfsemi Siðmenntar síðasta starfsár einkenndist eins og alltaf af fjárskorti og manneklu. Við erum fámenn og fátæk en við gefumst aldrei upp. Stjórn Siðmenntar hefur sterkan bakhjarl sem er ómetanlegt.


Stjórnin dreifði bæklingi sem heitir “Stefna Siðmenntar í trúfrelsismálum” til allra alþingismanna s.l. haust. Hún fylgdi því eftir með fundum með þingflokkum til að kynna afstöðu félagsins varðandi jafnræði í trúmálum og aðskilnað ríkis og kirkju. Við höfum þegar fundað með öllum stjórnarandstöðuflokkum og fengið jákvæð viðbrögð og vissan stuðning við okkar málstað. Við höldum áfram að kynna málstað Siðmenntar eftir ýmsum leiðum.

Trúfrelsisbæklingurinn var einnig sendur á fjölda aðila, þar á meðal til fólks sem við teljum að geti haft áhríf á og stutt stefnu okkar.

Stjórnin er alltaf að leita að mögulegum styrktarsjóðum og er að undirbúa umsókn til að fjármagna gerð fræðslu-og kynningarefnis á fleiri borgaralegum athöfnum öðrum en fermingu þ.e.a.s. nafngjöf, giftingu og útför.

Eftir að hafa sótt um það 3 ár í röð fékk fermingarkennarinn okkar, Jóhann Björnsson, loksins styrk úr kristnihátíðarsjóði til námsefnisgerðar í siðfræði fyrir fermingarnámskeiðin okkar.

Fermingarhópurinn í ár telur 85 ungmenni og er álíka stór og síðast. Fjöldi fermingarbarna sem velja að fermast hjá Siðmennt hefur nær tvöfaldast á undanförnum 5-6 árum. Fermingarathöfnin síðasta vor var stærsta og best skipulagða athöfnin hingað til. Skipulagið bæði á námskeiðinu og athöfninni er alltaf að verða betra og höfum við ágætis teymi sem er búið að þróa ferlið mjög vel. Við fáum nú fleiri gestakennara en áður og fleiri aðilar hafa samband við okkur til að leggja okkur lið. Má þar nefna Samtökin 78 og fræðsludeild Tollstjóraembættisins sem hafa boðið okkur fræðslu og/eða fræðsluefni. Þetta er ánægjuleg þróun. Foreldranefndin sem skipuleggur athöfnina ár hvert þarf ekki að koma saman eins oft og “í gamla daga” til að gera þetta vel. Við fáum mikið hrós og þakklæti frá fjölskyldum sem taka þátt, jafnvel mörgum árum seinna og einnig frá gestunum sem mæta á athöfnina.
Fólk er þegar byrjað að skrá sig í borgaralega fermingu 2005. Til fróðleiks og skemmtunar, má geta þess að tvö fermingarbörn ætla að fara með listræn skylmingaratriði á athöfninni í vor.

Kynningin á BF 2004 hófst miklu fyrr en áður eða í lok júlí 2003 í staðinn fyrir september. Flestir skráðu sig því mun fyrr til þátttöku. Þjóðkirkjan fer af stað með kynningu sína mjög snemma, þannig að við verðum að fylgja henni. Við dreifðum trúfrelsisstefnu okkar á kynningarfundinum s.l. haust.

Ákveðið var að hætta að gefa út prentað fréttabréf vegna kostnaðar og að einbeita sér í staðinn að heimasíðu félagsins sem er uppfærð reglulega. Margar áhugaverðar greinar og tilkynningar má finna þar. Þeim félagsmönnum sem ekki hafa aðgang að internetinu, stendur til boða að fá útprentun af heimasíðunni senda heim. Geta þeir haft samband við stjórn Siðmenntar og óskað eftir því.

SAMT (Samfélag trúlausra) heldur áfram sem virkur og skemmtilegur umræðuhópur sem borðar saman hádegismat síðasta laugardag hvers mánaðar. Fastir liðir í starfsemi hópsins eru kaffihúsafundir milli jóla og nýárs, á föstudaginn langa og hin árlega grillveisla í Heiðmörk á sumrin.

Félagar í Siðmennt og SAMT skrifuðu nokkrar greinar í dagblöðin og á heimasíðunum okkar á síðasta ári. Greinarnar voru meðal annars um: kristinfræðikennslu, tengsl trúar og siðferði, og einni greininni var vakin athygli á því að hægt er að nota önnur tákn en kross í dánartilkynningum, minningargreinum og á legsteinum.

Eftir að heimildarmyndin um trúfrelsisbaráttu Helga Hóseassonar kom út skrifaði félagi í SAMT, fyrir hönd Siðmenntar, Helga stuðningsbréf vegna baráttu hans og upplýsti hann um núverandi starfsemi félagsins. Við sendum honum nokkrar greinar af heimasíðunum okkar og trúfrelsisbæklinginn. Helgi sendi okkur þakkarbréf.

Stjórnarmenn og félagar í SAMT sóttu fjölda funda og málþing um trúmál, trúfrelsi og fjölmenningarlegt samfélag á vegum ýmissa aðila (þar á meðal á vegum Mannréttindaskrifstofu, Kristilegra skólasamtaka og ýmissa stjórnmálaflokka). Trúfrelsisbæklingi Siðmenntar var yfirleitt dreift til fundarmanna.

Stjórn Siðmenntar tók þá ákvörðun að sækja aftur um að félagið fáist skráð sem lífsskoðunarfélag með sömu stöðu og réttindi og trúfélög. Síðan fyrstu umsókn okkar var hafnað árið 2002, höfum við fengið skilaboð víða að, frá stjórnmálamönnum, prestum, prófessors í guðfræði, og jafnvel biskupsstofu um að höfnunin 2002 hafi verið mistök og að mönnum sem hafa áhrif á slíkar umsóknir í kerfinu hafi snúist hugur. Við höfum engu að tapa á því að sækja um aftur. Eftir að ljóst var að umsókn Siðmenntar fyrir tveim árum var hafnað fékk félagið álits lögfræðings á umsókninni og höfnun yfirvalda. Var okkur ráðlagt að halda áfram að kynna þingmönnum og öðrum ráðamönnum málstað Siðmenntar en ef það virkaði ekki, fara dómstólaleiðina.

Formaður og varaformaður hittu í júlí starfsmann frá bandaríska sendiráðinu sem sér um að uppfæra hina árlegu skýrslu um trúfrelsi um allan heim og vildi vita um starfsemi Siðmenntar á síðasti ári.

Nú í febrúar halda formaður og varaformaður kynningu um Siðmennt hjá Guðspekifélaginu að þeirra ósk. Einnig héldum við kynningu fyrir tvo kennaranema frá Kennaraháskólanum sem voru að vinna verkefni í trúarbragðafræði. Þessir nemendur skrifuðu eftirfarandi: „Í trúarbragðafræðinni er Siðmennt skilgreint sem trúfélag þó ekki sé um eiginlegan átrúnað að ræða. Þar sem Siðmennt hefur skotið föstum rótum í okkar samfélagi teljum við nauðsynlegt fyrir okkur sem væntanlega kennara að kynna okkur hugmyndafræði ykkar.“

Við fáum oft að heyra að orðstír Siðmenntar sé afar jákvæður. Félagið er vel þekkt núna og flestir virðast vita fyrir hvað við stöndum. Fólk tengir nafnið Siðmennt við mannréttindamál og barráttuna fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. Við höfum ávallt stefnt að því að koma fram á skynsamlegan hátt og fólk úr ýmsum áttum hrósar okkur fyrir að vera hógvær, diplómatísk, og umburðarlynd.

Á alþjóðavettvangi
Systurfélag okkar í Noregi, Human-Etisk Forbund (HEF) tók frumkvæðið og hratt af stað metnaðarfullri þrýstihópsáætlun í Nordisk Råd til að hvetja stjórnvöld í hinum Norðurlöndunum til að fjármagna lífsskoðunarfélög á sama hátt og trúfélög. En það hefur verið gert í Noregi síðan 1981. HEF safnaði saman gögnum frá okkur og systurfélögum í Danmörk, Svíþjóð og Finnlandi. Þetta var gott framtak en virðist, í það minnsta enn sem komið er, ekki hafa skilað neinum beinum árangri.

Siðmennt hefur tekið þátt í baráttunni fyrir að halda evrópsku stjórnarskránni hlutlausri varðandi trúmál. European Humanist Federation sem Siðmennt er aðili að og fleiri félög og samtök víðs vegar í Evrópu reyndu að koma í veg fyrir að Vatíkanið og fleiri Kristilegir valdamenn settu setningu um Guð og kristilega arfleið inn í stjórnarskránna. Þetta er mjög heitt mál sem hefur ekki enn verið leyst. Húmanistar, trúleysingjar og trúmenn úr öðrum trúarbrögðum finnst það niðurlæging, dónalegt og óréttlátt ef ein trúarbrögð eru nefnd sérstaklega í stjórnarskránni og fullyrt að ein trú sé undirstaða allra gilda í Evrópu. Evrópa er vel þekkt fyrir að vera sú heimsálfa sem er mest borgaraleg/veraldleg. (the most secular continent on the planet)

Siðmennt og SAMT skrifuðu sig á mótmælalista þegar nokkur aðildarlönd vildu ekki samþykkja hlutlausa, borgaralega stjórnarskrá. Vatíkanið og aðrar kirkjur hafa þrýst á stjórnmálamenn til að neita öllum tillögum um borgaralega stjórnarskrá. Tvö félög, The National Secular Society í Bretlandi og La Libre Pensée (Franska fríþenkjarafélagið – French Freethinkers Association) tóku höndum saman og söfnuðu undirskriftum gegn trúarvísunum í stjórnarskránni. Til að kynna afstöðu sína héldu þau fjölmennan útifund í París í desember í fyrra.

Gísli Gunnarsson, prófessor, fór sem fulltrúi Siðmenntar á fund um þetta sama mál sem var haldinn í Róm í lok nóvember á vegum European Humanist Federation í samstarfi við hið Ítalska Union of Rationalist Atheists and Agnostics.

Framundan
Það er mikil vinna framundan. Það er hálf ótrúlegt að við erum ennþá bjartsýn þrátt fyrir lítið fjármagn, enga starfsmenn, og engan samastað. En við skynjum meiri velvilja í kringum okkur með hverju ári. Hópurinn sem hefur notið góðs af okkar þjónustu stækkar sífellt og hvetur okkur áfram. Ráðamenn sem við hittum virðist taka málstað okkar sífellt betur. Baráttan fyrir alvöru trúfrelsi á Íslandi og fyrir auknum möguleikum manna til að geta haldið borgaralegar athafnir fær sífellt betri stuðning. Brautryðjanda-og baráttu andinn er ennþá mikill hjá okkur. Sem betur fer!

Hope Knútsson

Til baka í yfirlit