Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Persónuréttur og “vilji guðs”

Löngum hefur mönnum tekist að halda fram allskyns vitleysu með tilvísun í eitthvað sem kallað hefur verið „vilji guðs“. Ekki átta ég mig á hver þessi vilji er nákvæmlega, enda hefur guð, mér vitanlega ekki komið fram og tjáð sig skýrt og og skorinort um vilja sinn. Líklega er það vegna þess að guð er að öllum líkindum ekki til sem sjálfstætt fyrirbæri fyrir utan hugmyndaflug mannfólksins. Guð og hugsanlegur vilji hans er því væntanlega bara heilabrot mannanna sem þeir hafa síðan farið að trúa á. En þessi heilabrot sem sumir kalla „vilja guðs“ er sí og æ að verki í nútmímasamfélögum og eru afleiðingarnar ekki allar þær æskilegustu.


Nýlega bárust af því fréttir að hollenskt fóstureyðingarskip væri á ferðinni við strendur Írlands. Er tilgangur fararinnar að bjóða írskum konum sem ekki hafa efni á að fara til Englands í fóstureyðingar upp á öruggar fóstureyðingar þar sem þær eru bannaðar á Írlandi.

Kaþólskir og kúgun kvenna
Kaþólskir menn á Írlandi eiga ekki ekki lítinn þátt í því að konum er bannað að fara í fóstureyðingar og fram til ársins 1992 var þeim sem fóru í slíkar aðgerðir erlendis refsað ef upp komst. Það er athyglisvert að lesa viðtal við Huldu Hjartardóttur í Fréttablaðinu þann 12. júní 2001 þar sem hún lýsir ástandinu á Írlandi:

…það er ákveðinn tvískinnungur í gangi. Írskar konur vilja greinilega eiga þennan möguleika á að fara í fóstureyðingu en kaþólska kirkjan og almenningsálitið hefur ekki viljað samþykkja það…Fólk er fast í ákveðnum hlekkjum því það er hvorki leyfilegt að nota getnaðarvarnir né fara í fóstureyðingu. Fólk er því að eiga kannski 6-7 börn, og ásamt því að stjórnvöld viðhaldi hinu trúarlega mynstri er fátæktinni viðhaldið líka. Þarna skapast togstreyta á milli þess sem fólkið vill og þeirra laga sem stjórnvöld fylgja.

Greinilegt er að yfirvöldum og hinum strangkaþólsku er nokkuð sama um velferð þegnanna svo fremi sem þessum undarlega „vilja guðs“ er framfylgt. Hafa sumir hinna strangtrúuðu unnið sér það til frægðar að leyfa engar undantekningar til fóstureyðinga og skiptir þá engu máli hvort um sé að ræða nauðganir, sifjaspell og hvort fórnalömbin séu börn að aldri eða ekki. Sér hver nú miskunnsemi guðs „vilja“.

Víða kúga fulltrúar almættisins konur
Það er ekki bara á Írlandi sem trúarofstækismenn kúga samborgara sína. Vel eru þekktar ósveigjanlegar reglur talibanastjórnarinnar í Afganistan þar sem konum er gert að hylja líkama sína á almannafæri. Þar er þeim er bannað að vinna utan heimilis og ef þær brjóta þessar reglur og fjölmargar aðrar, mætir trúarlögreglan á staðinn og handtekur og hýðir. Útlendingar í landinu eru ekki einu sinni óhultir. Í Morgunblaðinu 30. maí s.l. segir svo frá ástandinu:

Embættismenn Sameinuðu þjóðanna hafa einnig kvartað yfir því að trúarlögregla Talibana hafi áreitt marga starfsmenn hjálparstofnunarinnar og handtekið nokkra þeirra. Lögreglan réðst til að mynda inn í nýtt sjúkrahús fyrir hálfum mánuði, barði starfsmenn þess og handtók þrjá þeirra vegna brota á banni við því að konur og karlar borði í sama herbergi.

Já mikill er Allah!

Jóhann Björnsson

Til baka í yfirlit