Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2013 – ræða Finns Friðrikssonar

Ræða sem Finnur Friðriksson, dósent við kennaradeild HA, flutti við borgaralega fermingu sem fór fram í Hofi á Akureyri 12. maí 2013.

Kæru fermingarbörn, foreldrar, forráðamenn og systkini, afar og ömmur og aðrir gestir.

Finnur Friðriksson

Á dögum sem þessum er oft sagt við þann sem í hlut á „Til hamingju með daginn þinn!“ Oftast er þetta sennilega notað á afmælisdögum og mér hefur stundum þótt það svolítið skrýtið þar sem hver svo sem á afmæli hefur í sjálfu sér lítið gert til að gera þetta að deginum sínum annað en að fæðast þennan dag einhverjum árum eða áratugum áður. Í ykkar tilviki held ég þó að það sé alveg óhætt að segja að dagurinn sé ykkar þar sem vera ykkar hér og nú byggist á því að þið hafið sjálf tekið býsna stóra ákvörðun um að vera hér frekar en að fljóta bara með straumnum án þess að velta því mikið fyrir ykkur hvar hann rennur til sjávar.

Að mínu viti er þessi ákvörðun ykkar afar ánægjuleg, ekki vegna þess að ég hafi nokkuð á móti hefðbundnum fermingum, heldur einmitt vegna þess sjálfstæðis sem þið sýnið með henni. Sjálfur fermdist ég með hefðbundnum hætti fyrir allt of löngu síðan og sú ferming byggðist ekki á því að ég hefði tekið einhverja yfirvegaða ákvörðun um að hafa kristna trú að leiðarljósi í lífinu. Þetta var bara eitthvað sem maður gerði á ákveðnum tímapunkti í lífinu, svona svipað og maður byrjaði í 8. bekk þegar maður var þrettán ára og í 9. bekk þegar maður var fjórtán.

En um leið og dáist sem sagt að því hve sjálfstæð og sterk þið virðist þegar orðin, þrátt fyrir ungan aldur, gerir þetta mér svolítið erfitt fyrir. Meiningin er víst að ég standi hér sem fullorðin manneskja og gefi ykkur eitthvert veganesti út í lífið, en ég var ekki fyrr sestur niður til að undirbúa þetta ræðukorn en ég áttaði mig á því að það er ekki nóg með að þið hafið tekið þessa stóru ákvörðun heldur hafið þið líka setið námskeið í aðdraganda þessa dags þar sem ég þykist vita að þið hafið fengið býsna staðgóðan skammt af fræðslu um lýðræði, jafnfrétti, gagnrýna hugsun og sitthvað fleira sem gott er að hafa í þeim poka sem maður slengir á bakið þegar haldið er út í lífið.

Ég get voða litlu vitrænu bætt við um það hvernig best sé að haga lífinu, nú þegar þið farið í auknum mæli að mæla ykkur við fullorðinsheiminn. Ég á enn fullt í fangi með að ákveða sjálfur hvað ég ætla að gera þegar ég verð stór – og held reyndar að það sama eigi við um býsna marga foreldra hér inni og jafnvel stöku ömmu og afa, þó við viðurkennum það auðvitað ekki svo glatt.

Ég er því að hugsa um að leyfa mér að staldra aðeins við þar sem þið eruð stödd núna og benda á að sumu úr bernskunni og gelgjunni er lítil ástæða til að breyta mikið þó fullorðinslífið taki við.

Þannig er að ég starfa sem málfræðingur og sem slíkur fæ ég með reglulegu millibili spurningar og athugasemdir um það – og reikna fastlega með að þið fáið líka að heyra þetta – að þessir déskotans unglingar í dag séu nú alveg ótalandi og séu langt komnir með að eyðileggja íslenskt mál með öllu. Þegar maður heyrir athugasemdir af þessum toga hættir manni alltaf við að taka fyrst undir þær, enda sjálfur orðinn gamall og íhaldssamur, og benda svo á að maður hafi nú bara í gær heyrt einhvern unglinginn tala um vin sinn sem „geegt tanaðan í drasl, mar“. En þegar nánar er að gáð held ég að það sé öllu meira við þessar athugasemdir að athuga en málfarið sem þær beinast að.

Hof – mynd fengin að láni frá www.menningarhus.is

Í fyrsta lagi megið þið alveg hafa það bakvið eyrað að þið eruð ekki fyrsta kynslóðin sem fær að heyra þetta. Foreldrar ykkar fengu þetta í andlitið á sínum tíma, ömmur ykkar og afar líka og ég get hér um bil lofað ykkur því að Snorri Sturluson og uppeldissystkini hans hafi fengið að heyra það á sínum tíma að þau væru nú ekki beint líklegt til að viðhalda hinni glæstu norrænu tungu. Einhvern veginn tölum við nú samt ennþá eitthvað sem við köllum íslensku og við skiljum meira að segja hvert annað barasta alveg bærilega.

Í öðru lagi má alveg hugsa sér að snúa athugasemdinni við og velta fyrir sér hvort sú eyðilegging sem sumir sjá sé ekki í raun hálfgerð lífæð málsins. Skoðum til dæmis frasann sem ég nefndi hérna áðan – „geegt tanaður í drasl“. Við getum svo sem alveg rifist um hvort réttlætanlegt sé að draga svo viðkvæmt málefni sem geðsjúkdóma inn í þetta allt saman, en væri ekki alveg eins hægt að dást svolítið að þeirri ungæðislegu hugmyndauðgi sem felst í því að nota orð af þessum toga sem eins konar styrkingarorð yfir það sem víkur heldur frá norminu. Þetta verður hálfgerð öfugmælavísa rétt eins og þegar við segjum að eitthvað sé „ógeðslega flott“. Veltið aðeins fyrir ykkur hvernig þetta hefur upphaflega komið til og reynið svo að segja mér að það felist ekki viss sköpun í því að tefla þessum andstæðum saman í eina fullkomlega skiljanlega lýsingu.

Svipaða sögu má segja af „tanaður“. Nú sitja sjálfsagt einhverjir hérna úti í sal og hugsa „uss, þetta er nú ljóta slettan“. Já, já það er alveg rétt en takið í fyrsta lagi eftir því að hún hefur þegar verið löguð að rótgrónu íslensku beygingarkerfi og veltið því í öðru lagi fyrir ykkur hvar íslenska væri í dag ef við leyfðum okkur aldrei að taka inn erlend áhrif og fella þau að okkar umhverfi. Ég reikna með að hér inni sitji að minnsta kosti ein Kristín og einn Jón. Þau hétu eitthvað allt annað ef hér hefði ekki flætt inn heilmikill orðaforði samhliða kristnitökunni fyrir drjúgum þúsund árum. Að sama skapi ækjuð þið héðan burt á eftir í sjálfrennireiðum frekar en bílum, sem er óneitanlega heldur þjálla. „Tanaður“ er bara ærslafull útgáfa af því sem við höfum stundað í þúsund ár – að taka erlenda strauma og gera þá að okkar.

Athugum svo í síðasta lagi „í drasl“. Hirðuleysislegt orðalag, segja sumir, en ef þið rýnið aðeins nánar í þetta vona ég að þið sjáið bæði þá skemmtilegu myndlíkingu sem í þessu felst og þá enn skemmtilegri tvíræðni sem hún býður upp á. „Í drasl“ getur nefnilega nýst hvort heldur sem er sem jákvæð eða neikvæð lýsing allt eftir aðstæðum, hljómfalli og fleiru hverju sinni.  Það er ekki hugsunarlaust fólk sem setur svona saman.

Sumir amast svo líka við samtalsstíl unglinga og í því samhengi má minnast á eitthvert skemmtilegasta samtal sem ég hef orðið vitni að………

Þetta kann að virðast fullorðna fólkinu óskiljanlegt en þá er því til að svara að þessu er hálft í hvoru ætlað að vera það. Unglingar um allan heim þróa með sér sinn eigin stíl sem er gjarnan hæfilega á skjön við stíl fullorðinna. Þetta er jafneðlilegt og að unglingar verða skotnir hver í öðrum og fussa og sveia yfir Duran Duran plötum foreldra sinna og Bítlaplötum afa og ömmu og halda því stíft fram að Ásgeir Trausti, Beyoncé, Justin Timberlake eða hvað það er nú er sé málið (ekki það – ég skil sjálfur ekki  í dag hvernig ég nennti að hlusta á Duran Duran í denn…)

Skoðið svo líka hve hagkvæmur unglingastíllinn er í samtölum þeirra á milli sem hverfast um sameginlega upplifun þeirra. Ætluðum við fullorðna fólkið að lýsa rússibanaferðinni yrðum við hálfpartinn að gera það með orðmargri og langri frásögn („og ég hreinlega sat þarna og var dauðskelkaður, eins og sjá mátti á stíffrosnu skelfingarbrosinu sem lék um varir mínar“) en af því að þið vitið nákvæmlega hvað allir aðrir voru að gera við þetta tækifæri er nóg fyrir ykkur að vísa óbeint til þess með þessum myndræna og líflega hætti.

Og hvert er ég svo að fara með þessu öllu? Byrjum á því að segja að fullorðna fólkið hér róast sjálfsagt við að heyra að á sama hátt og það sjálft tamdi sér fullorðinslegt fas og málfar á sínum tíma þá eru allar líkur á því að þessi málfarslegi galsaskapur renni að mestu af ykkur eftir nokkur ár. Ég vil þó leyfa mér að biðja ykkur að gleyma þessum þætti lífs ykkar ekki með öllu, því ég held nefnilega að hvað sem líður þeirri alvöru lífsins sem nú er verið að lóðsa ykkur inn í með fyrrnefndri fræðslu um ýmis samfélagsleg mál, sé það okkur afskaplega hollt af og til að segja lífinu að það sé tanað í drasl, þ.e.a.s. að snúa hlutunum af og til á hvolf, snúa aðeins út úr hinni hefðbundnu heimsmynd okkar og orða hlutina og þar með lífið með eilítið öðrum hætti en almennt er ætlast til að við gerum.

Takk fyrir mig.

Finnur Friðriksson –  dósent við kennaradeild HA

Til baka í yfirlit