Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Erindi til þingmanna um trúfrelsi og jafnrétti 2018

Stjórn Siðmenntar sendi þingmönnum eftirfarandi erindi 14. febrúar 2018:

Ágætu þingmenn

Stjórn Siðmenntar sendir ykkur, þingmönnum Lýðveldisins Íslands, óskir um velfarnað á komandi kjörtímabili.  Eins og undanfarin ár fylgir hér listi mála sem Siðmennt telur brýnt að verði skoðuð og breytt á komandi þingi.

Við viljum minna á að Alþingi hefur tekið smá en afar mikilvæg skref í rétta átt m.a. með því að afnema guðlasts ákvæði úr lögum árið 2015.

1. Aðskilnaður ríkis og kirkju er eitt mikilvægasta mál sem Alþingi ætti að vinna að. Siðmennt leggur til að þingið samþykki að skipa fjölskipaða nefnd sem fari yfir þau málefni sem aðskilnaður ríkis og kirkju mun óhjákvæmilega hafa áhrif á. Það er því mikilvægt að slík vinna eigi sér stað til þess að undirbúningur verði fullnægjandi og að vinnuhópurinn leggi fram ítarlega skýrslu um þau áhrif auk þess að leggja fram tillögu að aðgerðum sem leiði til aðskilnaðar. Siðmennt óskar eftir að taka þátt í slíkri vinnu. Í Svíþjóð varð aðskilnaður um síðustu aldamót og í Noregi hófst vinna árið 2005 en ekki er útséð hvernig sú vinna skilar sér.

Markmiðið er að ríkiskirkjufyrirkomulag verði afnumið og fullu trúfrelsi verði náð. Samfélag þar sem ein  kirkjudeild hefur sérstöðu sem bundin er m.a. í stjórnarskrá er samfélag sem útilokar og mismunar öðrum lífsskoðunum, trúarlegum sem veraldlegum.

Siðmennt lét rannsóknarfyrirtækið Maskínu framkvæma könnun veturinn 2015-16 um lífskoðanir Íslendinga. Samkvæmt könnuninni segjast 46% Íslendinga vera trúuð, sem er lægsta gildi sem sést hefur í könnunum. Tæp 30% segjast ekki trúuð og 23,7% segjast ekki geta sagt til um hvort þau séu trúuð eða ekki. Þó 46% Íslendinga segist trúaðir eru ekki nema 36% sem trúa helstu kenningum kirkjunnar um guð, eilíft líf og upprisuna. Yngsti aldurshópurinn sker sig úr en 80,5% telja enga vissu fyrir guði, eru trúlaus eða trúa alls ekki. Fjórðungur svarenda telur sig eiga mikla samleið með þjóðkirkjunni en á bilinu 46-47% telja sig eiga litla eða enga samleið með henni.

Árið 1996 töldu 87% landsmanna sig „mjög eða nokkuð trúaða“ en aðeins 13% sögðust „ekki trúaðir“ eða „sannfærðir trúleysingjar“. Í könnun sem Gallup International framkvæmdi árið 2012 töldu 57% Íslendinga sig „trúaða“, 31% voru „ekki trúaðir“ og 10% sem töldu sig „trúleysingja“.

Frá árinu 1996 til 2016 hefur því „trúuðum“ á Íslandi fækkað úr 87% í 46%, þeir sem voru „ekki trúaðir“ eða „trúleysingjar“ voru 13% 1996 en nú eru „ekki trúaðir“ 30% og „trúleysingjar“ 14%. Það þýðir að í þessum tveim hópum hefur fjölgað um 238%.

Frá árinu 1994 hefur Capacent á Íslandi (og forveri þess) gert árlega könnun á afstöðu fólks til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Stuðningur við aðskilnað hefur verið á bilinu 61-74% (að undanskildu einu ári). Í nýrri könnun sem birt var í febrúar 2017 eru 69% hlynnt aðskilnaði.

Heimild: Capacent

Í könnun Siðmenntar var spurt um afstöðu fólks til aðskilnaðar ríkis og kirkju og voru 72% því fylgjandi.

 

Fyrir kosningar 2016 sendi Siðmennt öllum framboðum til Alþingiskosninga spurningar sem m.a. vörðuðu afstöðu þeirra til aðskilnaðar ríkis og kirkju og hvort þeir ætluðu að setja málið í ferli á kjörtímabilinu.

Tveir af núverandi stjórnarflokkum, Sjálfstæðisflokkur og VG  hafa samþykkti á landsfundum sínum stuðning við aðskilnað ríkis og kirkju. Samfylkingin, Píratar og Viðreisn hafa einnig slíkar samþykktir. Þegar þessir flokkar voru spurðir hvort tímabært væri að hefja undirbúning að slíku ferli má lesa um það í svörum flokkanna að breið samstaða væri um slíkt.

Afstaða flokkanna var a.m.k. í samræmi við vilja aukins meirihluta Íslensku þjóðarinnar. Miðað við svör flokkanna við spurningum Siðmenntar er yfirgnæfandi stuðningur við aðskilnað meðal þingflokkanna sem eiga fulltrúa á þingi. Það er skylda þingmanna að endurskoða samband ríkis og kirkju. Ofangreindar upplýsingar hljóta að vera ágætur grunnur fyrir henni.

2. Ríkið hætti skráningu trúar- og lífsskoðana með því skrá fólk hjá Þjóðskrá. Það er andstætt persónuvernd um upplýsingagjöf einstaklinga að þurfa að gefa upp lífsskoðanir sínar.

3. Sjálfkrafa skráning barna í trú- og lífsskoðunarfélög verði afnumin. 2. mgr. 8 gr laga nr. 108/1999 verði endurskoðuð á þann veg að börn séu ekki skráð sjálfkrafa í trú- eða lífsskoðunarfélög við fæðingu. Það er andstætt hugmyndum um mannréttindi barnsins.

 

Gerð var bragarbót með breytingu laganna árið 2013 í þá veru að ef foreldrar eru ekki í sama félaginu skal barnið skráð utan félaga. Annars skrást börn sjálfkrafa í trú- eða lífsskoðunarfélag foreldra. Slíkt fyrirkomulag býður ekki upp á upplýsta ákvörðun foreldra hvað þá barna um stöðu þess.

Í könnun Siðmenntar, um lífsskoðanir Íslendinga, kemur í ljós að um 40% vill óbreytt ástand, þ.e. að barn skráist sjálfkrafa í trú- eða lífsskoðunarfélag sem bæði foreldrin eru skráð í, en um 30% telja að ríkið eigi að hætta allri skráningu hvort sem það eru fullorðnir eða börn. Þá eru um 30% á þeirri skoðun að telja að sjálfkrafa skráningu verði hætt. Að foreldrar eða börn, þegar þau öðlast þroska og aldur til og þurfi að sjá um að skrá börnin ef vilji er fyrir því.

Í umræðum sem tengjast trúmál er oft vísað til þess að „langflestir eru skráðir í þjóðkirkjuna“ og því megi mismuna henni umfram önnur lífsskoðunarfélög.

Þegar hvítvoðungar hafa verið sjálfkrafa skráðir í trúfélög án þess að óska eftir því sjálfir þá lýsir það sér mikilli aðsókn. Hins vegar fer aðild að þjóðkirkjunni sífellt minnkandi og er nú undir 70%.

4. Þau sem skráð eru utan trúar og lífsskoðunarfélaga greiði ekki trúfélagaskatt (sóknargjald). Í 2. mgr. 64 stjórnarskrárinnar segir að þau sem ekki eru skráð í trúfélag skulu greiða sama skatt og aðrir (svokallað sóknargjald) en hann renni í ríkissjóð. Siðmennt telur að afnema eigi þessa kvöð svo þau sem eru utan allra félaga greiði ekki skatt eingöngu fyrir það vera ekki í félagi – það er mismunun. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gert athugasemd við að allir greiddu kirkjuskattinn óháð því hvort þeir væru skráðir í söfnuð eður ei.

5. Kirkjujarðasamningnum frá 1997 (og útfærslu hans 1998) verði sagt upp. Við gerð samningsins var ekkert mat lagt á virði þeirra eigna sem yfir hann náðu. Hins vegar var ríkið skuldbundið til að að greiða milljarða á ári um ókomna framtíð þar sem engin endurskoðunarákvæði eru í honum. Þær tölur sem nefndar voru um virði eigna á þessum tíma eru aðeins nokkrir milljarðar og því ljóst að verið var að skuldbinda ríkissjóð á röngum forsendum.

6. Skylda sveitarfélaga að leggja trúfélögum til ókeypis lóðir verði afnumin með breytingu á lögum nr. 35/1970. Það er ekki hlutverk sveitarfélaga að sjá trúfélögum fyrir slíkum ívilnunum. Það skal tekið fram að Siðmennt hefur ekki og mun ekki sækjast eftir að skattgreiðendur borgi lóðir undir starfssemi félagsins.

7. Tryggja húsnæði fyrir athafnir óháð lífsskoðun. Við athafnir Siðmenntar, þó sérstaklega við útfarir, eiga aðstandendur erfitt með að fá tilhlýðilegt rými sem hentar öðrum lífsskoðunum en kristnum. Í dag er aðeins hægt að notast við Fossvogskirkju, sem skilgreind er fyrir öll trúar- og lífsskoðunarfélög. Þar trónir risastór kross fyrir altari sem lýsir ekki virðingu fyrir öðrum lífsskoðunum.

Því er óskað eftir því við Alþingi að séð verði til þess að hér á landi sé til húsnæði sem henti athöfnum fólks með aðra lífsskoðun. Það má framkvæma t.d. með breytingum á Fossvogskirkju svo hún taki tillit til allra lífsskoðana.

Biskup og prestar Þjóðkirkjunnar hafa marglýst því yfir að kirkjan „sé fyrir alla“ en staðreyndin er önnur. Í „Samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar“ sem Þjóðkirkjan samþykkir á Kirkjuþingi, segir í 13. gr. í kafla 3:

„Ekki skal nota kirkju til annarra athafna en þeirra sem teljast samrýmast tilgangi hennar og stöðu sem vígðs helgidóms þjóðkirkjunnar, svo sem borgaralegra athafna eða athafna á vegum annarra trúfélaga en kristinna.“

Þessi stefna kirkjunnar er greinilega beint gegn athöfnum á vegum Siðmenntar og stangast á við það sem prestar og biskup hafa sagt, – að allir fá þjónustu í kirkjum óháð lífsskoðun. Samþykktin stenst reyndar ekki nánari skoðun því  veraldlegir viðburðir eru nánast daglegt brauð í kirkjum landsins,s.s. tónleikar, fundahöld, skólasetningar og útskriftir skóla.

Siðmennt lýsir sig reiðubúið að eiga fundi með þingmönnum vegna ofangreindra mála sem og annarra sem ágætt væri að ræða.

Kær kveðja,

F.h. Siðmenntar
Bjarni Jónsson
Framkvæmdastjóri

Til baka í yfirlit