Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Darwin dagar 2009

Í tilefni Darwin daga 2009 og málþings í Háskóla Íslands sem Siðmennt er samstarfsaðili að.

Fimmtudaginn 12. febrúar nk. verður víða um heim haldið uppá 200 ára fæðingarafmæli vísindamannsins Charles Robert Darwins og um leið fagnað 150 ára afmæli útgáfu tímamótaverks hans, Uppruna tegundanna, þar sem færð vorufram í fyrsta sinn sannfærandi gögn og rök fyrir þeirri tilgátu að lífverur jarðar hefðu tekið þróunarlegum breytingum yfir milljónir ára. Nokkru síðar birti Darwin útskýringar á þróun mannsins og kynbundnu vali í náttúrunni í bókinni  Ætterni mannsins og kynbundið náttúruval (1871), en sú bók olli miklum usla meðal margra samtímamanna hans, sem fannst niðurlægjandi að vera bendlaðir við sameiginlegan uppruna með öpum.

Charles Darwin var háskólagenginn frá Edinborg og Cambridge, en þar lærði hann m.a. þær guðfræðilega sprottnu skýringar á tilurð lífheimsins, að guð hefði hannað lífheiminn.   Darwin lét það ekki hefta sína frjálsu hugsun og hóf sína eigin leit að svörum með því að skoða gögnin, þ.e. lífheiminn þar sem hann er hve fjölbreyttastur og ríkastur af magni við strendur Suður-Ameríku.  Hann byrjaði með autt blað, þ.e. hans athugun og tilgáta yrði sett fram sem óháð vísindi sem líkur væru á að stæðust ítarlega skoðun um langan aldur.  Hann hafði ekki áhuga á hugmyndafræðilegu stríði við klerka eða konunga, enda voru það aðrir menn sem héldu vörnum uppi fyrir tilgátur hans eftir að kristnir klerkar hófu árásir sína á þær.  Þeirra frægastur var líffræðingurinn Thomas Henry Huxley (1825-1895) og fékk hann viðurnefnið „bolabítur Darwins“ fyrir vaska framgöngu sína. Tilgáta Darwins var staðfest sem vísindakenning eftir að síðari tíma rannsóknir studdu hana, sérstaklega á sviði erfðafræðinnar.  Hún varð til þess að heimsmyndin gjörbreyttist og vald trúarbragðanna yfir hugmyndaheimi fólks fjaraði út að miklu leyti

Afkomandi Thomas Huxleys, Julian hélt uppi merki ættföðursins á 19. öldinni, með því að verða fyrsti framkvæmdastjóri UNESCO og þingforseti fyrsta þings alþjóðasamtaka húmanista, International Humanist and Ethical Union (IHEU) árið 1952.  Húmanistar um allan heim halda mikið uppá Charles Darwin og hans arfleifð.   Það er því Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi, mikil ánægja að taka þátt í málþingi því sem haldið verður í HÍ á afmælisdegi Darwins.  Fulltrúi Siðmenntar, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, lektor í heimspeki við HÍ, flytur þar erindið „Að hálfu leyti api enn“. Aðrir fyrirlesarar verða Ari K. Jónsson tölvunarfræðingur, Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur, Jón Thoroddsen heimspekingur, og Skúli Skúlason rektor Háskólans á Hólum.  Á málþinginu verða einnig  afhent verðlaun í ritgerðarsamkeppni sem haldin var á meðal framhaldsskólanema um Darwin og áhrif þróunarkenningarinnar á vísindi og samfélög.Málþingið er öllum opið og verður haldið í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, stofu 132 og hefst kl. 16:30.  Dagskrána má sjá á darwin.hi.is.

Til baka í yfirlit