Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2010 – Ávarp Evu Þórdísar Ebenezersdóttur

Eftirfarandi ræða var flutt í Háskólabíói í athöfnum borgarlegrar fermingar 18. apríl 2010 af Evu Þórdísi Ebenezersdóttur, þjóðfræðinema við Háskóla Íslands.

Kæru fermingarbörn gleðilega hátíð og til hamingju með daginn.

Fermingin er meðal annars sögð marka þau tímamót þegar við verðum fullorðin því við ferminguna séum við tekin í fullorðinna manna tölu. Eitt af því sem flestir kljást við á þessum tímamótum, og í raun í gegnum lífið allt, er að reyna að átta sig á hver maður er. Þessi spurning „hver er ég?“ leitaði svolítið á mig þegar ég var beðin um að tala hér í dag, því fæstir sem hér eru vita hver ég, Eva Þórdís, er. Ég lagðist því í svolitla sjálfsskoðun og mig langar að segja ykkur hver ég er og vona um leið að sú frásögn geti orðið ykkur til góðs í leitinni að ykkur sjálfum.

Þegar ég fæddist kom í ljós að vinstri fóturinn minn var ekki eins og fætur eru flestir, hann var stuttur og snúinn. Í kjölfarið af fæðingunni mættu foreldrar mínir oft einkennilegum viðbrögðum fólks sem vissi ekki alveg hvort það átti að óska þeim til hamingju með barnið eða færa þeim samúðarkveðjur vegna fötlunarinnar. Þau brugðu því oft á það ráð að benda fólki á þau ættu eitt barn fyrir og að vísitölu fjölskyldan var hjón með 1,97 barn, þau hefðu því bara viljað vera nákvæm! Viðbrögðin voru yfirleitt andköf og vandræðagangur í nokkrar sekúndur þar til fólk áttaði sig á því að þetta var grín. Þegar gríninu var náð gat fólk hlegið svolítið og áttað sig á því að auðvitað voru hamingjuóskir réttu viðbrögðin við fæðingu barnsins.

 

Þegar ég svo komst á unglingsár hafði ég steingleymt þessum góða brandara en þrátt fyrir það þróaði ég með mér afstöðu til sjálfrar minnar sem er í skemmtilegu samhengi við vísitölubrandarann. Ég hélt því nefnilega fram að ég væri fullkomlega ófullkomin. Ég verð aldrei eins og aðrir og sama hvað ég mundi gera til að verða fullkomin í útliti yrði ég það aldrei. Ljósabekkir, megrun, lýta aðgerðir, hár stúss og rétt föt gætu aldrei breytt minni löpp og því yrði ég aldrei fullkomin. Og þvílíkur léttir! Að vera fullkomlega ófullkomin, sama hvað, gaf mér frelsi frá fullkomnunaráráttu samfélagsins og ég gat bara verið ég sjálf, fullkomlega ófullkomin og fullkomlega sátt. Ef eitthvað er að marka brandara foreldra minna þá er ég líka fullkomlega ófullkomin því vísitölu fjölskyldan bauð upp á 0,97 og ég er fullkomlega það

Ef ykkur kæru fermingarbörn líkar þessi frasi og sú hugsun sem fylgir því að vera fullkomlega ófullkomin er ykkur frjálst að nýta ykkur hann. En það fylgir böggull skammrifi því ef þið viljið halda því fram að þið séu fullkomlega ófullkomin verðið þið líka að gera ráð fyrir að allir aðrir séu fullkomlega ófullkomnir. Þið verðið að gefa öðrum sama svigrúm og ykkur sjálfum. Gefa öðrum færi á að vera þeir sem þeir eru sama hverjir þeir eru, hvernig þeir eru eða hvaðan þeir koma.

Það er annað sem hefur einkennt mig alveg frá því að ég var lítil og það er bjartsýni og jákvæðni og stundum kallaði mamma mig Pollyönnu.

Pollyanna er skáldsagnapersóna, hugarfóstur Ellenor H. Porter, en sagan um Pollyönnu kom fyrst út árið 1913. Pollyanna er lítil stúlka sem er þeim hæfileika gædd að geta alltaf séð eitthvað jákvætt í öllu fólki og öllum aðstæðum. Hún gerir þetta með því að fara í „Gleði leikinn“ þar sem hún meðvitað leitar að jákvæðum punktum í neikvæðum aðstæðum sama hversu ömurlegar þær virðast. Ég mæli með því að allir lesi bókina eða horfi á bíómyndina um Pollyönnu og legg það til að við reynum öll að tileinka okkur Gleði leikinn. En af hverju ætti gleðileikurinn að skila okkur einhverju í lífinu? Jú það er nefnilega sagt að þeir sem séu jákvæðir og bjartsýnir komist langt í lífinu.

Eins og kom fram í kynningunni á mér hér í upphafi er ég háskólanemi. Það sem háskólanemar læra er meðal annars að skrifa ritgerðir þar sem þeir setja í inngangi fram spurningu, svo kemur meginmál og að lokum er spurningunni svarað. Eins og góðum háskólanema sæmir hef ég gert þetta hér og því komin tími á að svara spurningunni, hver er ég?

Ég er Eva Þórdís, BA nemi í þjóðfræði á barmi þess að útskrifast. Ég er fullkomlega ófullkomin að öllu leiti og svo óhóflega bjartsýn að stundum ætti ég að ganga með sólgleraugu innandyra. Ég vona innilega að sú sem ég er og mín sýn á lífið og tilveruna hafi jákvæði áhrif á ykkur, kæru fermingarbörn, núna þegar þið komist í fullorðinna manna tölu og farið að leita að ykkur sjálfum. Reyndar held ég að við verðum seint fullorðin, allavega er ég sjálf ennþá að feta leiðina að því að verða það sem ég ætla að verða þegar ég verð stór, sem er þjóðfræðingur með fötlunarfræðilegu ívafi, með tvo fætur í þjóðfræði og einn í fötlunarfræði

En ég veit að ég næ því takmarki með því að vera sátt við ófullkomleika minn, með því áð gefa öðrum rými til að vera jafn ófullkomnir og ég, með því að vera bjartsýn, jákvæð, glöð og helst alltaf með smá húmor í vasanum. Með þessu hef ég fundið hver ég er og ég mæli með þessari aðferð.

Kæru fermingarbörn, aftur innilega til hamingju með daginn. Ég óska þess að þið farið út í lífið, fullkomlega ófullkomin, jákvæð og glöð því það mun skila ykkur langt.

Til baka í yfirlit