Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Sævars Helga við borgaralega fermingu í Reykjanesbæ

Fyrsta fermingarathöfn Siðmenntar á þessu ári fór fram í Reykjanesbæ 7. apríl. Það eru 469 börn sem fermast á vegum félagsins þetta árið og hafa aldrei verið fleiri. Það var vísindafræðarinn Sævar Helgi Bragason sem var ræðumaður dagsins.

Heil og sæl öllsömul!

Og innilega til hamingju með daginn!

Það er mér sönn ánægja að vera treyst til að ávarpa ykkur hér í dag.

Um hvað talar maður eiginlega á svona degi – og fyrir framan svona glæsilegan hóp?

Mig langar mest af öllu til að segja ykkur frá magnaðasta stað sem ég veit um, alheiminum, en þá getur verið erfitt að stoppa mig og við gætum verið hér þangað til í næstu viku. Það er víst ekki nægur tími til þess.

Talandi um tíma. Kannski ætti ég að segja ykkur frá því af hverju tíminn líður hægar nálægt svartholum og af hverju þið yrðuð eins og spaghettí ef þið félluð ofan í svarthol? Eða kannski ætti ég að segja ykkur frá stað þar sem sólin skín aldrei? Nei, það má alveg misskilja hvar sá staður er. Sá staður sem ég er með í huga er annars á tunglinu.

Ef til vill datt einhverjum í hug staður á líkama okkar. Já, líkaminn. Kannski ætti ég að segja frá fallegustu staðreynd sem ég veit um: Þá staðreynd að öll frumefnin í líkömum okkar — járnið í blóðinu, kolefnið í vöðvunum og kalkið í beinunum — urðu til þegar stærstu stjörnurnar í alheiminum sprungu og dreifðu innyflum sínum um geiminn, svo að nýjar stjörnur, eins og sólin okkar og Jörðin og lífið, gátu fæðst úr öskustónni. Þið eruð bókstaflega stjörnuryk! Eiginlega mætti segja að þið séuð ruslið í alheiminum. Og ég meina það alls ekki á neikvæðan hátt. Við öll, lífið á Jörðinni, erum nefnilega ótrúlega merkilegt rusl: Gáfaðar leifar sprunginna stjarna sem velta eigin uppruna og örlögum fyrir sér! Finnst ykkur það ekki merkilegt?

Að sjálfsögðu kom upp í hugann að tala um hluti eins og mannréttindi, mikilvægi þess að geta sett sig í spor annarra og sýna samkennd, sýna öðru fólki virðingu og kærleika, eitthvað sem aldrei nóg er af, eða þá staðreynd að þið eruð öll svo til fullkomin frá náttúrunnar hendi og að þið ættuð aldrei nokkurn tímann að hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst um ykkur eða hvernig þið lítið út.
Þið eruð nefnilega frábær eins og þið eruð, stútfull af hæfileikum sem þið eigið að rækta og nýta, ykkur sjálfum til góða en þó aðallega samfélaginu og plánetunni okkar til góða.

Ég vil nefnilega að þið breytið heiminum. Þið og börnin ykkar í framtíðinni þurfið að breyta heiminum til hins betra. Engin pressa samt.

Hvernig getum við breytt heiminum?

Við getum til dæmis byrjað á okkur sjálfum.

Ég trúi því að við viljum öll vera besta útgáfan af sjálfum okkur.

Eins og áður sagði erum við öll stútfull af hæfileikum en allir þurfa að hafa fyrir því að rækta þá og nýta. Meira að segja Taylor Swift, Lionel Messi og Beyoncé og allar hinar gervistjörnurnar (alvöru stjörnur eru sólir, þið vitið), þurftu að leggja mikið á sig til að komast þangað sem þau eru í dag. Það eru bara örfáir sem fæðast snillingar en snillingar þurfa líka að hafa fyrir hlutunum.

Í dag ertu afrakstur þeirra ákvarðana sem þú tókst dagana á undan, svo ég vitni til orða kanadíska geimfarans Chris Hadfield. Allt sem þú gerir hefur áhrif á þig: Hvaða mat þú lætur ofan í þig, hvaða bækur þú lest, hvaða kvikmyndir þú horfir á, hvað þú gerir við frítímann. Lærðirðu eitthvað nýtt? Ef þú tekur ákvörðun um að breyta einhverju í lífi þínu er magnað að sjá hversu hraðar breytingarnar verða og hversu áhrifaríkar þær eru. Lífið sjálft grípur auðvitað inn í. Þú upplifir vonbrigði og vandamál, bæði stór og lítil, og gerir það besta og lærdómsríkasta sem allir gera mörgum sinnum í lífinu en eiga erfitt með að viðurkenna, mistök. Já, mistök eru besta leiðin til að læra eitthvað nýtt og gera okkur að bestu útgáfunni af sjálfum okkur. Lykilatriðið er að sætta sig við vonbrigði og mistök, þótt það sé stundum mjög erfitt.

Vertu manneskjan sem þig langar til að vera. Vertu besta útgáfan af sjálfum eða sjálfri þér.

En hvernig fer maður að því?

Auðvitað er engin ein aðferð best en í mínum huga er best að láta hjartað ráða för og láta gott af sér leiða. Hjartað er býsna góður áttaviti. Öll eigum við okkur nefnilega stóra drauma og frá hjartanu fáum við ástríðuna sem við þurfum til að láta þá rætast. Og það er fólk með stóra drauma sem breytir heiminum. Það er fólkið sem sendi okkur til tunglsins og fólkið sem tryggði okkur þá velsæld sem við búum við í dag.

Árið 2015 átti ég mér þann stóra draum að gera öllum grunnskólanemendum og kennurum á Íslandi kleift að sjá sólmyrkva. Af hverju? Fyrri ástæðan var einfaldlega sú að sem flestir fengju að sjá magnað, ógleymanlegt, furðulegt og vonandi áhrifaríkt sjónarspil. Hin ástæðan var sú, að reyna að efla áhuga ykkar á vísindum og náttúrunni. Hvers vegna? Vegna þess að áhuga á vísindum fylgja gjarnan tvö tól sem eru einstaklega dýrmæt í daglegu lífi: Forvitni og efi.

Í heilum ykkar er mikil auðlind. Þar eiga ótalmargar hugmyndir eftir kvikna. Ástríðan og forvitnin leiðir ykkur áfram og efinn hjálpar ykkur að sía slæmar hugmyndir frá góðum. Með stórum draumum og ástríðu, forvitni og efa, getur þú breytt heiminum. Hættið ALDREI að vera forvitin. Fólk sem er ekki forvitið er leiðinlegasta fólk í heimi.

Mig langar að segja ykkur draumi forvitins vísindamanns sem hét Carl Sagan.

Hátt yfir sólinni og plánetunum siglir ómannað geimskip burt frá heimaplánetunni sinni þessa stundina, með meiri hraða en nokkur annar manngerður hlutur, svo hratt að það kæmist héðan frá Reykjanesbæ til Reykjavíkur á rétt rúmum tveimur sekúndum. Sem væri mjög næs!

Snemma í febrúar árið 1990 bárust geimskipinu áríðandi skilaboð frá Jarðarbúum, sem vísindamaður að nafni Carl Sagan átti stóran þátt í að útbúa. Geimskipinu var skipað að snúa myndavélum sínum við og horfa í átt að sólinni og plánetunum sem nú voru í fjarska.
Hlýðið leit geimskipið til baka og tók þá þessa mynd sem sést hér fyrir aftan. Innan í hringnum er Jörðin úr álíka mikill fjarlægð og Plútó er frá sóinni. Þegar Carl Sagan sá þessa fremur óskýru mynd skrifaði hann texta sem mér finnst að ætti að vera skyldulesning i öllum skólum í heiminum, eða kannski frekar meitlaður í stein hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem allir þjóðarleiðtogar sæju hann.

Tilvitnun hefst:
Frá þessum fjarlæga sjónarhóli virðist Jörðin ekkert sérstaklega áhugaverð. En fyrir okkur horfir það öðruvísi við. Líttu aftur á þennan punkt. Þetta er hér. Þarna er heimilið okkar. Þarna erum við. Þarna hafa allir sem þú elskar, allir sem þú þekkir, allir sem þú hefur nokkurn tíma heyrt getið, hver einasta manneskja sem til hefur verið, lifað lífi sínu.

Hugsaðu þér blóðsúthellingarnar af völdum allra þessara hershöfðingja og keisara svo þeir gætu, í dýrðarljóma og sigurvímu, orðið tímabundnir valdsherrar á brotabroti af punkti. Hugsaðu þér alla þá endalausu grimmd sem íbúar eins hornsins á þessum punkti beita öðrum vart aðgreinanlegum íbúum einhvers annars horns, hve oft þeir misskilja hver aðra, hve áfjáðir þeir eru um að drepa hver aðra, hve ákaft hatur þeirra er.

Jörðin eini hnötturinn sem við vitum um hingað til að geymir líf. Við getum hvergi annars staðar farið, að minnsta kosti í náinni framtíð. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er Jörðin, í augnablikinu, þar sem við stöndum og föllum.

Ef til vill sýnir ekkert betur heimsku hroka mannanna en þessi fjarlæga mynd af örlítilli veröld okkar. Fyrir mér undirstrikar hún ábyrgð okkar að hugsa betur hvort um annað og varðveita og vernda eina heimilið sem við þekkjum, föla bláa punktinn.
Tilvitnun lýkur.

Þetta eru dálítið djúp og falleg orð.

Hugsið jafn vel um Móður Jörð eins og þið hugsið um ykkar eigið heimili á Móður Jörð. Munið, við höfum öll áhrif og getum breytt heiminum með því að byrja á okkur sjálfum. Margt smátt gerir eitt stórt. Ef við göngum undan með góðu fordæmi verða brátt flestir, ef ekki allir, með okkur í liði.

Ekki láta neinn draga úr ykkur neistann. Gefist aldrei upp. Verið besta útgáfan af sjálfum ykkur. Þið eruð öll uppfull af hæfileikum. Nýtið þá og látið drauma ykkar rætast!

Takk fyrir mig, eigið stórkostlegan dag og vegni ykkur vel í næstu hringferðum ykkar um sólina!

Sævar Helgi Bragason

Til baka í yfirlit