Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða við BF 13. apríl 2003

Eyrún Ósk Jónsdóttir, leiklistarnemi, flutti stórgóða ræðu á borgarlegu fermingarathöfninni sem haldin var í Háskólabíói þann 13. apríl síðastliðinn:


Kæru fermingabörn, fjölskyldur og aðrir gestir. Ég ætla nú að byrja á því að óska ykkur öllum hjartanlega til hamingju með daginn.

Núna eru 8 ár frá því að ég var í þessum sömu sporum að fermast borgarlegri fermingu. Þegar ég var beðin um að vera með þetta ávarp fór ég að hugsa til baka, hvernig mín ferming var og ég áttaði mig á því, að þá gerði mér ekki nokkra grein fyrir á hvílíkum tímamótum ég stóð. Enda komust aðeins tvær hugsanir að: Sú fyrsta var að ég yrði að ganga mjög hægt og varlega upp á sviðið til þess að ná í fermingarskírteinið og reyna að detta ekki, því þetta var í fyrsta skipti sem ég var í háhæluðum skóm og ég kunni ekkert að ganga á þeim. Hina stundina var hugur minn allur við hvað ég myndi nú fá í fermingargjöf.

Það var ekki fyrr en löngu seinna að ég áttaði mig á því að það var annað mun merkilegra sem ég ætti eftir tengja við þennan dag. Að fermast snýst um að vera tekinn í fullorðinna manna tölu. Sem þýðir í rauninni að taka ábyrgð á sínu eigin lífi, á sínum eigin ákvörðunum. Svo í sjálfu sér er það merkisatburður að fermast. En það sem meira var, er að þetta var í fyrsta skipti sem ég tók meðvitaða ákvörðun um að fylgja ekki fjöldanum, en að gera í staðinn það sem mig langaði til þess að gera. Á meðan allur árgangurinn í skólanum mínum fermdist í þjóðkirkjunni ákvað ég að fermast borgaralegri fermingu.

Bekkurinn minn var aldrei voðalega sáttur við þá sem að skáru sig úr fjöldanum og áður en ég fór upp í unglingadeild upplifði ég á hverjum einasta degi mikla togstreitu. Löngunin eftir að fá að vera ég sjálf, klæða mig eins og mig langaði, tala eins og mig langaði, hafa þær skoðanir og trú sem mig langaði, var bæld niður af þörfinni fyrir að falla inn í hópinn. En því meira sem ég reyndi að vera eins og allir aðrir og bæla niður allt það sem einkenndi mig, því verr leið mér – því óöruggari varð ég. Og einhvern veginn tókst mér aldrei að falla inn í hópinn. Það var sama hvað ég reyndi að gera hlutina eins og allir aðrir, ég endaði alltaf, alveg óvart, á því að vera ég.

Allt í einu fór ég að átta mig á því að kannski var það ekki svo slæmt, að kannski gæti ég gert eitthvað meira við líf mitt en að reyna bara að komast í gegnum daginn án mótlætis. Þar sem það er hvort sem er vonlaust markmið að láta öllum líka við sig ákvað ég að það minnsta sem ég gæti gert var að líka vel við mig sjálf. Þegar ég ákvað að fermast borgarlega var ég, eins og ég sagði áðan, í fyrsta skipti að taka meðvitaða ákvörðun um að vera öðruvísi en aðrir, að vera sjálfstæð og umfram allt að vera ég sjálf.

Það krefst mikils hugrekkis að þora að standa upp og vera maður sjálfur. En um leið og maður gerir það verður líf manns svo miklu stærra og ríkara. Manneskja sem veit hver hún er og hvað hún vill nær markmiðum sínum. Ég helt að þetta snúist nefnilega allt um það að setja sér markmið og þora að stefna að þeim. Japanski rithöfundurinn Daisaku Ikeda segir í bók sinni Manneskjubyltingin: ,,Þegar þú helgar líf þitt því að ná markmiðum þínum, munt þú ekki verða fyrir óþægindum vegna ómerkilegrar gagnrýni. Ef þú leyfir þér að láta sveigjast af leið vegna lítilfenglegra mála og veltir þér upp úr því hvað aðrir muni segja eða finnast um þig muntu aldrei áorka neinu. Lykillinn að velgengni er að ganga þann veg sem þú hefur valið þér, drifinn áfram af djúpum ásetningi.”

Þeir sem að setja sér háleit markmið eiga mun auðveldara með að taka réttar ákvarðanir. Á hverjum einasta degi munið þið standa frami fyrir fleiri og fleiri valkostum, og hver einasta ákvörðun sem þið takið, mun móta alla ykkar framtíð. Og það sem meira er, það mun hafa áhrif á allt umhverfi ykkar líka.

Það er alltof útbreitt viðhorf, að fólki finnist við sem einstaklingar hafa svo lítið að segja. Það getur verið erfitt að trúa því að maður sjálfur geti haft einhver áhrif á gang mála, sem varða vini manns, fjölskylduna, þjóðfélagið eða jörðina í heild. Og ég held að þetta eigi sérstaklega við í dag í ljósi nýliðinna atburða í heimsmálunum. Ástæðan fyrir þessu viðhorfi er að um leið og við þorum að trúa að við höfum áhrif á heiminn, þá neyðist maður til þess að taka ábyrgð á því sem er að gerast í kringum mann. Og fólk nennir því ekkert alltaf. Það eru líka óteljandi ráðamenn í heiminum sem ýta undir þetta viðhorf, því það er miklu auðveldara að stjórnast með fólk sem heldur að það hafi engin áhrif á heiminn. Hins vegar, þeir sem taka afstöðu og standa upp fyrir sjálfum sér og því sem er satt og rétt, og ásetja sér að ná markmiðum sínum og hafa áhrif á umhverfi sitt, sama hvað öðrum kunni að finnast, láta ekki aðra stoppa sig, né lúta þeir fyrir eigin efasemdum, vegna þess að þeir gera sér grein fyrir hvað mikið er í húfi.

Nelson Mandela, fyrrverandi forseti Suður Afríku sagði í vígsluræðu sinni: ,,Takmarkanir okkar eru ekki það sem við óttumst mest. Það sem við óttumst mest er sá ómældi kraftur sem við búum yfir. Þegar við látum ljós okkar skína erum við ósjálfrátt hvati að því að öðrum leyfist að gera slíkt hið sama. Þegar við frelsum okkur sjálf undan oki óttans þá frelsar nærvera okkar einnig hina”.

Þegar ég sagði vinum mínum að ég hefði verið beðin um að vera með ávarp hér í dag sögðu þeir: ,,Já það er nú svo auðvelt fyrir þig, þú ert nú að læra leiklist og allt það”, en það er bara ekkert auðvelt, það er jafn erfitt fyrir mig núna og þegar ég var að fermast. Ég kemst ekki hjá því að hugsa, “Kannski finnst öllum asnalegt það sem ég er að segja og kannski ruglast þegar ég er að tala”, og allt það. En samt sem áður kem ég hingað upp og flyt þetta ávarp, af því að mig langar til þess, því ég veit að ég hef eitthvað að segja, eins og allir aðrir hérna inni, og þess vegna get ég ekki látið eitthvað svo lítilvægt eins og ótta við hvað öðrum finnist halda aftur af mér.

Þakka ykkur kærlega fyrir og eigið stórkostlegan dag.

Eyrún Ósk Jónsdóttir, leiklistarnemi

Til baka í yfirlit