Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2012 – Ingunn Snædal flytur ávarp

Eftirfarandi ræðu flutti Ingunn Snædal í fermingarathöfn Siðmenntar þann 24. júní 2012 í Hallormsstaðaskógi.

Góðan daginn, glæsilegu fermingarbörn og fjölskyldur þeirra. Til hamingju með þennan dásamlega dag.

Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir að bjóða mér að vera koma hingað í dag við þetta hátíðlega tækifæri í lífi ykkar. Það er mér mikill heiður og um leið finnst mér fylgja því afskaplega mikil ábyrgð.

Raunar hef ég legið andvaka við að hugsa um hvað ég ætli að segja við ykkur.

Þegar ég hugsaði málið aðeins var þetta samt ekki svo ógurlega flókið. Ég ákvað að ef ég ætti að segja eitthvað gáfulegt við ykkur væri best að halda mig við það sem ég þekki og trúi og reyni að fara eftir í mínu lífi og mínu uppeldi og sem ég tel að sé lykillinn að hamingjuríku lífi.

Það er svo margt bullið sem að ykkur – og okkur öllum – steðjar. Þótt ekki séu nema 27 ár síðan ég fermdist sjálf, ekki langur tími í Íslandssögunni, hvað þá veraldarsögunni, var mitt líf svo ótrúlega miklu einfaldara en ykkar á margan hátt. Ein sjónvarpsstöð, tvær útvarpsstöðvar, engar tölvur, hvað þá farsímar og þegar grunnskóla lauk var hægt að velja um menntaskóla eða iðnskóla að fara í. Einfalt. OG allir fermdust í kristinni kirkju, annað var algerlega óheyrt. Að gera það ekki hefði þótt álíka fáránlegt og segjast ætla að fermast nakinn. Einfaldlega ekki í boði.

Þið hryllið ykkur kannski yfir þessari lýsingu, það gerir að minnsta kosti mitt eigið barn og heldur nánast að ég hafi verið uppi með risaeðlunum.

Núna er öldin heldur betur önnur. Á ykkur dynur daglega áreiti úr öllum áttum og þið hafið val um ólíklegustu hluti. Allt frá hvaða símafyrirtæki þið veljið til hvort þið viljið taka bankalán.

Allt þetta val er gott og jákvætt á svo margan hátt, nýjungar leiða margt gott af sér, margar þeirra auðvelda okkur lífið. En ef framboðið er of mikið er líka auðveldara að missa sjónar á því hvað mann langar raunverulega í. Það getur líka flækt tilveru okkar, ekki síst þeirra sem eru yngri og hafa ekki sömu reynslu og þroska og hinir fullorðnu. (Þótt það megi alveg fylgja sögunni að mörg okkar fullorðnu erum líka í hálfgerðum vandræðum með að velja).

Þótt þið séuð ekki enn orðin fullorðin er þetta ár, þessi dagur, viss áfangi í þá átt. Héðan í frá öðlist þið smám saman meira sjálfstæði, barnsárunum er lokið, þar til þið farið að standa algjörlega á eigin fótum og í fyllingu tímans sjá um að koma ykkar eigin börnum til manns.

Þá er komið að því að ég nefni þau fimm atriði sem ég hef að leiðarljósi í lífinu, reyni að lifa eftir, mistekst oft en kem mér aftur inn á brautina því að ég trúi því að þau séu lykillinn að góðu og farsælu lífi. Þessi atriði eru óttaleysi, draumar, gagnrýnin hugsun, gleði og góðmennska.

Í fyrsta lagi langar mig að segja: Ekki láta stjórnast af hræðslu. Alltof margir eyða ævinni í hræðslu við breytingar, við nýjungar, við að taka áhættu. Hræðslu við hvað fólk muni segja, hvernig aðrir muni bregðast við þér, hvað muni gerast ef þú yfirgefur það sem þú þekkir og ferð út í óvissuna. Allt frá því að þora ekki að prófa framandi mat til þess að þora ekki að segja upp leiðinlegri vinnu. Þið eruð örugglega farin að upplifa þetta nú þegar, óttann við að skera sig úr, hvað munu vinirnir segja ef þið gerið þetta … allir finna fyrir hræðslunni en málið er að láta hana ekki stjórna sér. Hún gerir ekkert annað en að minnka möguleika okkar á góðu og innihaldsríku lífi. Hræðslan er bara í höfðinu á okkur og við getum ákveðið að láta hana ekki ráða. Óvissa er ekkert annað en vissa sem eftir er að prófa. Alveg eins og ókunn lönd eru bara lönd sem maður á eftir að fara til. Burt með hræðsluna strax, þá verður hún ekkert að þvælast fyrir ykkur meir. Þið eigið að reyna á ykkur og ögra ykkur sjálfum, við eigum öll að gera það, þannig þroskumst við og verðum reyndar og spennandi manneskjur sem höfum eitthvað til málanna að leggja.

Í öðru lagi: Látið ykkur dreyma. Í öllum lifandi bænum. Hvað langar ykkur að gera? Verða bændur, forsetar, geimfarar? Allt valið sem ég minntist á áðan, möguleikar ykkar eru svo óendanlega margir, setjið markið hátt og látið ykkur dreyma. Spáið í það og spekúlerið og yfirgefið ekki drauma ykkar. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Eltist við drauma ykkar og uppfyllið þá.

Venjið ykkur líka á að hugsa gagnrýnið. Ekki láta bara segja ykkur alls konar vitleysu, spyrjið alltaf af hverju? Hvernig? Til hvers? Það er mokað yfir okkur áróðri og bulli, í auglýsingum, þáttum, á netinu, upplýsingaflæði er það kallað og er það auðvitað. Það er ógurlega gott að geta gúglað alla hluti en upplýsingarnar eru ekki allar jafn áreiðanlegar.

Í kennslunni segi ég nemendum mínum til dæmis að tvítékka allt sem kemur frá síðunni Wikipediu því að þótt hún sé auglýst sem alfræði á netinu er það alfræði sem hver sem er getur sett inn það sem honum dettur í hug. Þess vegna er nauðsynlegt að ganga alltaf úr skugga um að upplýsingarnar séu réttar. Þetta er hægt að yfirfæra á allt í lífinu. Verið gagnrýnin á umhverfi ykkar og takið ekki ákvarðanir nema þegar þið hafið hugsað málið og finnið hvað þið viljið í raun.

En takið alltaf afstöðu. Látið ykkur umhverfið varða. Við eigum heiminn saman og berum öll ábyrgð á honum.

Í fjórða lagi: Verið glöð. Eins og vitur maður sagði; maður á að hafa vit á því að vera í góðu skapi. Sjaldan hafa verið mælt sannari orð. Í lífinu eigið þið eftir að mæta alls kyns erfiðleikum. Það gengur ekki alltaf allt eins og við óskuðum. Stundum gengur vel, en stundum illa og við ráðum ekki alltaf við það. Það sem við getum valið er hvernig við tökum á móti lífinu, með gleðibrosi eða fýlusvip. Gleðin fæðir af sér gleði, hún er smitandi, kostar ekkert og léttir ykkur – og öllum í kringum ykkur – lífið. Það er svo auðvelt að vera glaður.

Loks ætla ég að nefna það sem ég set nú kannski ofar öllu öðru, það sem ég segi minni eigin dóttur reglulega að sé mikilvægast. Við eigum að vera góð við aðra. Við eigum að koma vel fram við aðra, tala vel um aðra og venja okkur á umburðarlyndi í garð annars fólks. Við eigum öll sama rétt á þessari jörð. Það er enginn tilgangur með lífinu ef við ryðjumst í gegnum það eins og jarðýtur, hrifsum til okkar það sem okkur líst á án tillits til annarra. Við eigum að axla ábyrgð hvert á öðru, láta okkur annt um aðra, vera góð við minnimáttar, átta okkur á því að mamma og pabbi eru líka fólk sem finnur til, óþolandi strákurinn sem stríðir ykkur er það líka, gamla konan sem er á undan ykkur í röðinni í Bónus og er svo lengi að borga er það líka, skrítni karlinn á hjólinu er það líka. Við eigum öll sama rétt á að aðrir komi vel fram við okkur. Enginn er merkilegri en annar og allir skipta jafn miklu máli. Ekki brjóta á öðrum, hvorki með gjörðum eða illu umtali. Komið fram við aðra af tillitsemi og virðingu.

Það hefur tekið mig bróðurpartinn af mínum fjörutíu árum að finna út úr því að þetta sé það sem ég vil að séu aðalatriðin í mínu lífi. Þið eruð fjórtán ára, eða á fjórtánda ári, og á þeim aldrinum eru unglingar kannski ekki ofurspenntir fyrir því sem „eldgamlar“ konur hafa fram að færa. En þið getið líka hugsað málið þannig að kannski vita þeir sem eldri eru eitthvað sem þið vitið ekki. Þeir eru jú búnir að lifa lengur.

Gangi ykkur allt í haginn, elskulegu unglingar. Þið eigið eftir að lifa spennandi og viðburðaríka tíma. Verið glöð. Dansið og syngið því að það kætir, fáið ykkur skemmtilega vinnu, verið óhrædd við að vera þið sjálf því að þið eruð einstök og eigið allt gott skilið.

Ég óska ykkur alls hins besta. Mig langar að kveðja með dálitlu ljóði sem ég samdi fyrir ykkur í tilefni dagsins:

24. júní 2012

Á björtum degi

undir birkitré

lít ég til himins og sé

líf þitt skrifað með

gylltum skýjarákum

og enn eitt ævintýralegt

ferðalag

hefst með einu hiklausu

skrefi

Til baka í yfirlit